28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6906 í B-deild Alþingistíðinda. (4857)

414. mál, einstaklingar með glútenóþol

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykn. beindi til mín fsp. í fjórum liðum.

1. liðurinn fjallar um hversu margir einstaklingar hafa greinst með glútenóþol hér á landi. Því er til að svara að heilbrigðisyfirvöld hafa ekki nákvæma tölu á fjölda einstaklinga með staðfesta sjúkdómsgreiningu glútenóþols hér álandi.

Sjúkdómurinn gerir venjulega vart við sig á fyrsta aldursári og lýsir sér með því að barnið þyngist ekki sem skyldi og hægðir eru óeðlilegar. Ástæðan er talin vera að slímhúð smágirnis er óeðlilega viðkvæm fyrir glúteni í fæðunni, en glúten er eggjahvítuefni sem er m.a. í hveiti. Orsakir sjúkdómsins eru ekki að fullu þekktar, en svo virðist sem hann sé arfgengur. Til að staðfesta sjúkdómsgreiningu þarf að taka vefjarsýni úr smágirni auk frekari rannsókna. Svo virðist sem sjúkdómur þessi greinist hér á landi um eða eftir þrítugt.

Eins og áður segir er glútenóþol ekki skráningarskyldur sjúkdómur og er því ekki kunnugt um hve margir eru með slíkan sjúkdóm hér á landi, en áætlaður fjöldi er 40-50 manns. Samkvæmt upplýsingum Barnaspítala Hringsins eru engir einstaklingar þar til meðferðar vegna glútenóþols.

2. liður fsp. var svohljóðandi: „Bera innfluttar vörur fyrir sjúklinga með glútenóþol með einhverju móti lægri skatta en aðrar matvörur og ef svo er, hvaða tilvik er um að ræða?"

Glútensneyddar vörur bera sömu innflutningsgjöld og aðrar vörur í sama vöruflokki. Hins vegar lækkuðu tollar og vörugjöld um sl. áramót eins og hér segir af einstökum vöruflokkum sem gætu skipt máli í þessu sambandi: Hrökkbrauð úr 30% vörugjaldi og 3% jöfnunargjaldi í 3% jöfnunargjald en ekkert vörugjald, kex úr 30% vörugjaldi og 3% jöfnunargjaldi í 17,5% vörugjald og 3% jöfnunargjald. Engin innflutningsgjöld eru lögð á mjöl, þ.e. hveiti og þess háttar.

Kostnaðarauki við matargerð einstaklinga með glútenóþol hefur ekki verið reiknaður út en er vafalaust nokkur þar sem glútensneytt hveiti og matvörur eru dýrari, eins og reyndar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, en sambærilegar vörur með glúteni.

3. liður fsp. var: „Hefur kostnaðarauki við matargerð sjúklinga með glútenóþol verið reiknaður út og hver er hann á ári?"

Ég verð því miður að svara því til að mér er ekki kunnugt um neina slíka útreikninga alla vega ekki á vegum heilbrigðisyfirvalda.

4. liður fsp. var: „Hve margir einstaklingar njóta fyrirgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins vegna sjúkdómsins?"

Hvað varðar þennan lið fsp. lít ég svo á að fyrirspyrjandi eigi við tryggingabætur vegna kostnaðarauka við kaup á glútensneyddri matvöru. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins var erindi þess efnis að greiddur yrði aukakostnaður einstaklinga með giútenóþol synjað af tryggingaráði 1985. Til greina kemur að beina þeim tilmælum til tryggingaráðs að taka þá ákvörðun til endurskoðunar, en viðbúið er að margir fleiri sjúkdómar en glútenóþol hafi í för með sér hærri matarreikninga en ella svo spurningin hlýtur að vera sú: Hve langt á að ganga í sambandi við greiðslu bóta úr almannatryggingum vegna sérstakra sjúkdóma umfram það sem almenn ákvæði skipa fyrir um varðandi læknishjálp og lyf?