28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6909 í B-deild Alþingistíðinda. (4862)

481. mál, mengunarútbúnaður bifreiða

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af seinni lið fsp. hv. þm. Guðmundar Ágústssonar þar sem fjallað er um mengun af völdum bifreiða og kom reyndar fram í svari hæstv. dómsmrh. að hér er um að ræða einn þátt af mengunar- og umhverfismálum sem við ræddum reyndar hér í umræðum um fyrri fsp. sem svarað var í dag vegna mengunar frá álverinu í Straumsvík og segir okkur aðeins hversu umhverfis- og mengunarmál eru mikilvæg, en hins vegar einnig, eins og þá kom fram í umræðunum og aftur nú, að hér er um að ræða mál sem skarast milli ráðuneyta og því miður verða fyrir vikið miklu flóknari og erfiðari í úrvinnslu en vera má með svo mikilvægan málaflokk.

Eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra er nú á döfinni að taka á þessum málum. Það liggur nú fyrir nái. frá þeirri nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði á haustdögum til að fjalla um þessi mál og um það nál. verður á næstu dögum fjallað í þingflokkum ríkisstjórnarinnar, en ég hygg þó að þar kunni enn að vera uppi nokkur ágreiningsefni varðandi það hvernig þessum málum skuli stjórnað, hvar skuli vista þau, og alveg ljóst að verulegur hluti umhverfismálanna tilheyra heilbrigðisgeiranum vegna þessu hversu miklu þau skipta almennt heilbrigði og lifnaðarhætti fólks sem varðar þá auðvitað ekki síst heilsufar þess.