28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6910 í B-deild Alþingistíðinda. (4865)

411. mál, listskreyting Hallgrímskirkju

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 758 til hæstv. kirkjumrh. um framkvæmd þál. um listskreytingu Hallgrímskirkju í Reykjavík sem er 411. mál þingsins.

Hinn 22. apríl 1986 var samþykkt á hinu háa Alþingi þál. sem hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að skora á kirkjumrh. að skipa nú þegar sjö manna nefnd til þess að skipuleggja og undirbúa skreytingu og frágang á anddyri, kór og kirkjuskipi Hallgrímskirkju í Reykjavík.

Nefndin skal skipuð sem hér segir: Kirkjumrh. skipi einn mann og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Menntmrh., biskup Íslands, húsameistari ríkisins, byggingarnefnd Hallgrímskirkju, Félag ísl. myndlistarmanna og kirkjulistarnefnd tilnefni einn mann hver í nefndina.

Verkefni nefndarinnar skal vera að gera verkáætlun og áætlun um þann tíma sem talið er að verkið taki, svo og kostnaðaráætlun. Jafnframt gerir nefndin tillögur um hvernig fjármögnun verksins verði best tryggð.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Niðurstöður nefndarinnar verði lagðar fyrir sameinað Alþingi fyrir árslok 1987.“

Till. var eins og áður er getið samþykkt 22. apríl 1986. Síðan líður tæpt ár þar til þáv. hæstv. kirkjumrh. skipar nefndina. Nefndin er loksins skipuð 10. apríl 1987 og í skýrslu sem nefndin skilaði þegar verki hennar var í raun og veru lokið — hún átti að skila verki sínu fyrir árslok 1987 og leit svo á að þegar sá tími væri upp runninn gæti hún ekki gert meira, enda segir svo í skýrslu sem nefndin sendi frá sér, með leyfi forseta:

„Listskreytingarnefndin hefur frá upphafi talið það mikilvægt að mótun eða í það minnsta umfjöllun um heildarútlit væri nauðsynleg og raunar óhjákvæmileg í upphafi verks. Tímans vegna hefur slík heildarmynd þó ekki séð dagsins ljós enn. Hér skal sérstaklega á það bent að langur tími leið frá því að þál. Alþingis var samþykkt 22. apríl 1986 þar til nefndin var skipuð 10. apríl 1987. Með það í huga er augljóst að starfstími hennar er mun skemmri, jafnvel einu ári, en ætlað var í samþykkt Alþingis.“

Hæstv. forseti. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. núv. kirkjumrh. sem í ræðu hefur lýst áhuga sínum á að þetta verk verði unnið: Hvernig hugsar hann sér framhald verksins þar sem augljóst var að hæstv. fyrrv. kirkjumrh. var þetta verkefni einskis virði og hann hafðist lítt að til þess að framkvæma þá samþykkt sem hér var gerð eftir tveggja ára baráttu? Ég vil heyra hver sé hugmynd hæstv. ráðherra um framkvæmd verksins.