28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6916 í B-deild Alþingistíðinda. (4871)

425. mál, samvinnufélög

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að taka undir þau meginatriði í máli hv. þm. Halldórs Blöndals að nauðsynlegt sé að láta endurskoðun félagalöggjafarinnar fylgjast að. Það er rétt að geta þess að í upphafi þessarar aldar voru lög um almenningshlutafélög, um hlutafélög og samvinnufélög, oft til umræðu um sama leyti og mjög merkileg löggjöf var hér um þau efni á t.d. 2. og 3. áratug aldarinnar. Því miður hefur margt farið úr skorðum síðan, en þó hafa verið samþykkt mjög merk lög um hlutafélög árið 1978. Hins vegar hefur ætíð dregist úr hömlu að endurskoða samvinnufélagalögin. Það hefur alltaf verið einhver fyrirstaða hér í þinginu og úti í þjóðfélaginu fyrir því að gera þau nútímaleg, en nú er orðið tímabært að það verði gert og þess vegna tek ég undir að það verði látin fylgjast að þessi tvenn lög. Að því er varðar breytingu á hlutafélagalögum, sem núna er í Ed., er þar um mjög lítilvægar breytingar að ræða. Þær skipta engu meginmáli.