28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6919 í B-deild Alþingistíðinda. (4875)

482. mál, kynbætur á svínum og alifuglum

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þessi greinargóðu svör og ég harma að framleiðendur þessarar búvöru skuli ekki hafa séð ástæðu til að setja svona kynbótastöðvar á stofn. Þá vaknar sú spurning: Hvaða ástæður liggja þar að baki? Og einnig af hverju ráðuneytið knýi ekki á um að þessar kynbótastöðvar komist á þar sem það liggur alveg ljóst fyrir að með því að flytja inn sæði eða ný dýr má lækka mjög verulega kostnað við framleiðslu þessara búvara og þá um leið að lækka verð til neytenda sem er aðalgrunnurinn að baki þessari fsp.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. landbrh. og vonast eftir því að hann ýti á eftir að þessum kynbótastöðvum verði komið á fót svo að það geti verið til hagsbóta neytendum í þessu landi.