28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6923 í B-deild Alþingistíðinda. (4880)

495. mál, förgun hættulegs efnaúrgangs

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli með fsp. sinni. Það kemur fram hjá hæstv. ráðherra að svarið er nei, nei, nei eiginlega við öllum atriðunum. Það er ekkert til staðar, ófullnægjandi lagafyrirmæli, engin kynning, ekkert eftirlit, héraðslæknar eru nefndir, hvað ætli þeir komist yfir í þessum efnum, og engir förgunarstaðir. Ef þetta væri í öðrum löndum, þar sem er nú kannski meiri efnaiðnaður en hér víðast hvar, þætti þetta tilefni til mikillar umræðu. Ég treysti framkvæmdarvaldinu til að taka sig á í þessu efni og a.m.k. að opna á þessu ári einhvern förgunarstað fyrir það sem hættulegast er talið í sambandi við eiturefni og hættuleg efni.