28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6924 í B-deild Alþingistíðinda. (4882)

483. mál, hlutafélagaskrá

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 833 er fsp. til hæstv. viðskrh. um hlutafélagaskrá. Fsp. hljóðar svo. með leyfi forseta:

„1. Stendur til að efla eftirlitshlutverk hlutafélagaskrár?

2. Hvernig getur á því staðið að hlutafélög, sem hafa ekki starfað í áratug, og hlutafélög, sem eru gjaldþrota, eru enn á hlutafélagaskrá?

3. Hve hart er gengið eftir því að skilað sé tilkynningum um stjórnarskipti í hlutafélögum, ársreikningum og öðrum breytingum á hlutafélagi sem skylda er að tilkynna til hlutafélagaskrár?"

Skv. lögum ber skráðum hlutafélögum að senda hlutafélagaskrá tilkynningar um allar breytingar sem verða á hlutafélögum, litlar sem stórar. Á hlutafélagaskrá að fylgjast með breytingum á stjórn hlutafélagsins, hluthöfum, hlutafé og breytingum á samþykktum hlutafélaga. Þá ber hlutafélögum að senda ársreikninga til hlutafélagaskrár. Það skýtur því nokkuð skökku við þegar í ljós kemur að hlutafélög sem eru löngu hætt starfsemi og sem eru jafnvel gjaldþrota skuli vera samkvæmt hlutafélagaskrá enn til og talin samkvæmt þeirri skrá enn í rekstri. Jafnframt er furðulegt að fyrirtæki sem eru í fullum rekstri skuli geta komist upp með það í áratugi að skila ekki til hlutafélagaskrár ársreikningum. Þá þykir manni undarlegt að menn sem hafa látist fyrir mörgum árum séu stjórnarformenn hlutafélaga.

Í mínum huga þarf að auka mjög verulega eftirlit með hlutafélögum og þá sérstaklega þeim minni sem því miður eru oft í þeim eina tilgangi stofnuð að skýla eigendum á bak við sína takmörkuðu ábyrgð hlutafélaga.