28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6925 í B-deild Alþingistíðinda. (4883)

483. mál, hlutafélagaskrá

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hefur beint til mín fsp. í þremur liðum um hlutafélagaskrána.

1. Stendur til að efla eftirlitshlutverk skrárinnar? Ég vil svara þessu þannig að hlutverk hlutafélagaskrárinnar sé þegar mjög víðtækt og störfin séu þar ærin. Skráin hefur fámennt starfslið, tvo lögfræðinga og einn ritara. Þetta fólk leitast að sjálfsögðu við að sinna þessum störfum vel, m.a. eftirliti með hlutafélögum. Þetta er gert á ýmsa vegu sem hér gefst ekki tækifæri til að lýsa. Ég hef ekki uppi nein sérstök áform um það nú að fjölga starfsmönnum við hlutafélagaskrána, en ég hef áhuga á að láta kanna og er að undirbúa það hvort ekki sé unnt að tölvuvæða upplýsingarnar. Þá vil ég líka minna á að fyrir hv. Ed. liggur frv. til l. um breytingu á lögum um hlutafélög. Þar er m.a. gert ráð fyrir að eftirlitshlutverk hlutafélagaskrárinnar verði aukið og reyndar nokkrar breytingar gerðar á skráningarskyldu. Ég vænti því þess að meðferð þessa frv. verði hraðað.

Næsti liður fsp. varðaði það hvernig á því gæti staðið að hlutafélög sem ekki hafa starfað árum saman og gjaldþrota hlutafélög væru enn á hlutafélagaskránni. Ein af skýringunum á lítilli starfsemi sumra hlutafélaga getur verið sú, sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að ákvæði hlutafélagalaganna um lágmark hlutafjár við stofnun þessara félaga hafa verið óbreytt frá því að lögin voru sett í maí 1978, en þau gengu í gildi 1. jan. 1980. Þessi fjárhæð hefur síðan verið 20 þús. kr. og þetta leiðir til þess að menn geta gert sér leik að því að stofna hlutafélög sem ekki er endilega ætlað að vera ákaflega virk í atvinnustarfsemi.

Í lagafrv. sem ég nefndi og er til meðferðar í Ed. er gert ráð fyrir því að þessi fjárhæð verði 20-földuð og verði að lágmarki 400 þús. kr. og breytist síðan í samræmi við lánskjaravísitölu eða því um líkan mælikvarða. Ég tel þetta reyndar áhrifaríkustu leiðina til að koma í veg fyrir að menn geri sér leik að því að stofna félög í öðrum tilgangi en að starfa að yfirlýstum atvinnurekstrartilgangi félagsins.

En það er auðvitað fyrst og fremst þeirra sem hafa stofnað hlutafélög og eru hluthafar að slíta sínum eigin félögum. Almannavaldið á auðvitað ekki að hlutast til um það fyrr en í síðustu lög. Það er vafalaust á því misbrestur að hluthafar í hlutafélögum geri að því gangskör að slíta félögunum þegar ástæða er til. Reyndar eru meira en 6000 hlutafélög á skránni. Ef hlutafélagaskráin ætti að nýta fyllstu heimildir hlutafélagalaga til að slíta hlutafélögum, t.d. vegna þess að ársreikningar hafi ekki verið sendir skránni fyrir þrjú síðustu reikningsár, er talið að slíta þyrfti um 90% af íslenskum hlutafélögum, þ.e. að einungis hin stærri félögin skila í raun og veru reikningum til hlutafélagaskrárinnar. Og þá rís auðvitað spurningin: Ef þetta er svona, á þá að breyta lögunum eða framkvæmd þeirra? Kýs atvinnulífið svo vasklega framgöngu á grundvelli lagabókstafsins að slíta skuli 90% af hlutafélögunum í landinu? Þetta mundi fyrir utan annað kosta ríkið ákaflega mikið fé. Ég tel rétt að tala blátt áfram um þetta mál eins og það liggur fyrir án þess að vefja það inn í miklar málalengingar: Vilja þingmenn veita fé til þessa verkefnis? Ég býst við því að það mundi kosta 30 millj. kr. a.m.k. að gera þessa hreingerningu.

Hér skiptir líka máli bráðabirgðaákvæði í títtnefndu frv. um hlutafélagalögin, sem ég hef nefnt nokkrum sinnum á þessum morgni, reyndar í sambandi við annað mál, en þar er gert ráð fyrir tímabundnum möguleika á því að slíta hlutafélögum á einfaldari og ódýrari hátt en nú er kostur á. Þetta vildi ég nefna því að það er einmitt leið í því máli, sem hv. fyrirspyrjandi vekur athygli á, að búa til eins konar hraðbraut fyrir slit á félögum sem menn meina ekki í alvöru.

Varðandi gjaldþrot hlutafélaga, og gjaldþrota félög, vil ég taka það fram að um skyldu hlutafélags til að afhenda bú sitt til gjaldþrotaskipta fer auðvitað eftir gjaldþrotalögunum. Það er ekki venjan að taka félög af hlutafélagaskrá um leið og þau eru tekin til gjaldþrotaskipta heldur þá fyrst að lok gjaldþrotaskiptanna hafa verið auglýst. En þá fyrst er endanlega útséð um örlög félagsins.

Ég vil taka það fram að aðgerðir Gjaldheimtunnar í Reykjavík og reyndar fleiri innheimtuaðila leiða oft til þess að óvirk eða lítt virk félög eru tekin til gjaldþrotaskipta og síðar af hlutafélagaskrá samkvæmt þessari aðferð.

Ég kem þá að 3. og síðasta lið fsp. sem snýst um það hversu hart væri fram gengið í því að skilað sé tilkynningum um stjórnarskipti í hlutafélögum, ársreikningum og öðrum breytingum á hlutafélagi sem skylda er að tilkynna til hlutafélagaskrárinnar. Þessu svara ég á þann veg að með því fámenna starfsliði sem hlutafélagaskráin hefur núna er einfaldlega ekki mögulegt að fylgjast rækilega með því með stöðugri eftirgrennslan af hálfu skrárinnar að tilkynningar um breytingar á stjórn félags og aðrar breytingar á hlutafélögum séu tilkynntar í samræmi við margbreytileg ákvæði laganna. Til þess að þetta væri unnt þyrfti fjölmennt starfslið og vandséð að það þjónaði skynsamlegum tilgangi eða ætti að vera forgangsmál varðandi fjárveitingar Alþingis. Ef vísbendingar berast skránni um það að misbrestur hafi orðið á tilkynningum er að sjálfsögðu reynt að fá stjórnirnar í viðkomandi félögum til að sinna upplýsingaskyldu sinni. Ábendingar hér að lútandi koma t.d. oft frá lögmönnum.

Hvað varðar skil ársreikninganna sérstaklega vil ég taka það fram að viðskrh. ákvað á sínum tíma að veita ekki almennan aðgang að upplýsingum í skránni, þar með talið að ársreikningum hlutafélaga. Þar af leiðandi hefur heldur ekki verið gengið hart eftir því að slíkum reikningum væri skilað. Þetta tel ég þurfa að koma til rækilegrar athugunar og nefni enn frv. sem hv. Ed. hefur haft í allan vetur, að þar er tillaga sem gæti gert eftirlitshlutverkið raunhæfara og það er að einungis stærri félögin séu skyldug til að skila ársreikningum. Þar sem lögunum kynni að verða breytt í þessa átt er enn síður nú en fyrr ástæða til þess að ganga hart eftir skilum á ársreikningum.

Ég tek það fram að fsp., sem hér er fram borin, hreyfir við mikilvægu máli.