28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6927 í B-deild Alþingistíðinda. (4885)

486. mál, birting heimilda um utanríkismál

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram við hæstv. utanrrh. fsp. á þskj. 836 um birtingu heimilda um utanríkismál. Fsp. er svohljóðandi:

„Hvenær er þess að vænta að gögn utanrrn. um samskipti Íslands við önnur ríki á liðnum áratugum verði aðgengileg?"

Tilefni þessarar fsp. ætti að vera hv. alþm. augljóst m.a. í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram og tengjast slíkum heimildum, umræðna sem fóru fram hér m.a. sl. mánudag. Ég tók þetta mál upp í Sþ. 11. mars 1987 í umræðum um utanríkismál og spurði þáv. hæstv. utanrrh. um viðhorf hans til þessa máls. Matthías Á. Mathiesen, þáv. hæstv. utanrrh., svaraði, með leyfi virðulegs forseta:

„Vissulega þurfa að koma í ljós, þegar sagan verður skrifuð, þau réttu gögn í þessum efnum og ég efast ekkert um að þegar að því verður hugað í utanrrn. á þeim tíma sem það er talið eðlilegt og skynsamlegt verði þau gögn birt.“

Þetta er hluti af hans svari.

Ég gekk eftir þessu máli í utanrmn. í fyrravor og þá var mér sagt af þáv. hæstv. ráðherra Matthíasi Á. Mathiesen og ráðuneytisstjóra að mál þetta væri í athugun.

Þann 12. nóv. sl. var þetta tilefni utandagskrárumræðu af minni hálfu í Sþ. og ég innti þá hæstv. utanrrh. Steingrím Hermannsson eftir því með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Mun hæstv. ráðherra Steingrímur Hermannsson tryggja að gögn íslenska utanrrn. varðandi íslensk öryggismál og m.a. á þessu tímabili 1946–1951 verði dregin fram í dagsljósið og gerð öllum aðgengileg? Hvenær er þess að vænta að svo geti orðið?"

Hæstv. ráðherra tók undir þetta mál með þessum orðum, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég hef sömuleiðis lýst þeirri skoðun minni að ég tel að hér eigi að gilda einhverjar ákveðnar reglur um birtingu skjala og ég mun ræða það í ríkisstjórninni hvort ekki er rétt að ríkisstjórnin semji slíkar reglur.“

Þetta sagði hæstv. utanrrh. þá og hæstv. forsrh. vék að þessu máli og taldi að huga þyrfti að miklu víðtækari reglum um upplýsingaskyldu og birtingu trúnaðarskjala á síðari stigum máls. Enn inni ég hæstv. utanrrh. eftir því hvað þessu máli líði með þessari fsp.