28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6928 í B-deild Alþingistíðinda. (4886)

486. mál, birting heimilda um utanríkismál

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Í fjarveru utanrrh. mun ég leitast við að svara fsp.

Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að ekki eru fyrir hendi góðar aðstæður til að geyma slík gögn og hafa þau í aðgengilegu formi vegna aðstöðuleysis í ráðuneytum, þar á meðal í utanrrn. Þjóðskjalasafnið hefur ekki getað tekið við gögnum sl. 20 ár og mikið af gögnum er því enn þá, því miður, með óskipulegum hætti í ráðuneytunum. Með bættri aðstöðu Þjóðskjalasafnsins er þess að vænta að úr þessu verði bætt og þar af leiðandi verði ýmis gögn aðgengilegri.

Hitt er svo annað mál að það þarf einnig að liggja fyrir með hvaða hætti menn eða stofnanir hafi þá aðgang að viðkomandi skjölum og það er einkum það sem hv. fyrirspyrjandi, 2. þm. Austurl., vék að. Það liggur fyrir að það eru engar fastar reglur sem hafa gilt um aðgang almennings að skjölum utanrrn. um samskipti Íslands við önnur ríki og hefur orðið að meta hverja beiðni sérstaklega. Fræðimönnum hefur verið veittur aðgangur að ýmsum skjölum, t.d. varðandi síðari heimsstyrjöldina, og geta má þess að hinn 3. maí 1976 birti utanrrn. að gefnu tilefni fundargerðir frá viðræðum þriggja íslenskra ráðherra í Washington í mars 1949, er þeir voru þar til að kynna sér efni fyrirhugaðs Atlantshafssáttmála.

Í nóvember sl. skipaði forsrh. starfshóp til að gera tillögur um meðferð opinberra trúnaðarskjala. Meðal þeirra atriða sem þar eru til athugunar er hversu lengi skuli banna aðgang að skjölum sem varða samskipti við erlend ríki og öryggishagsmuni landsins. Þegar þessar tillögur liggja fyrir og hafa verið afhentar og kynntar forsrh. er þess að vænta að frekari ákvarðanir um þær reglur, sem rætt hefur verið hér um og áður hefur verið rætt um, verði settar.