28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6933 í B-deild Alþingistíðinda. (4892)

489. mál, Hæstiréttur

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Bara örstutt athugasemd í tilefni af orðum hv. 5. þm. Reykv. Ég tek það alveg skýrt fram að það hefur engin breyting orðið á forræði húseigna ríkisins. Ég nefndi eingöngu þá nefnd sem menntmrh. skipaði til að gera tillögur um framtíðarnýtingu Safnahússins. Þær tillögur eru að sjálfsögðu eingöngu ráðgefandi. Það er rétt að það eru margir sem hafa augastað á þessu sögufræga og að margra dómi einu fegursta húsi Reykjavíkur. Það þarf að vanda mjög vel til ákvörðunar um það hvernig það hús verður nýtt í framtíðinni. Hugmyndir þær sem hv. 5. þm. Reykv. nefndi áðan eru vissulega meðal þeirra sem menn hafa hugleitt.

Ég endurtek að húsnæði Stjórnarráðsins og skipulag á lóðum þess er á forræði forsrh. eins og verið hefur.