28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6933 í B-deild Alþingistíðinda. (4893)

488. mál, ritskoðun á fréttastofu sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 838 leyfi ég mér ásamt hv. þm. Hreggviði Jónssyni að leggja fyrir hæstv. menntmrh. eftirfarandi fsp.:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að kannað verði sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar, er fram kemur í dagblaðinu Tímanum 30. mars sl., þar sem segir að samkvæmt skipun að ofan séu fréttir er snerta stjórnmál ritskoðaðar hjá Ríkisútvarpinu, sjónvarpi?"

Í þessari frétt birtist mjög alvarleg ásökun á fréttastofu Ríkissjónvarpsins, þ.e. að þar fari fram ritskoðun frétta og þá alveg sérstaklega frétta er snerta stjórnmál. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa þennan kafla fréttarinnar sem birtist í Tímanum. Þar segir:

„Innanhúsheimildir Tímans herma að fréttir fréttamanna séu ritskoðaðar samkvæmt skipunum að ofan, sérstaklega ef um er að ræða fréttir sem snerta stjórnmál og er ekki vel séð af yfirmönnum ef reynt er að flytja jákvæðar fréttir af vinstri væng þjóðlífsins og menn jafnvel spurðir um hver tilgangur fréttarinnar eiginlega sé.“

Þessum ásökunum er vísað á bug af Ólafi Sigurðssyni, fréttamanni fréttastofu Sjónvarpsins, í Tímanum daginn eftir þar sem hann segir m.a. að fréttaflutningur Tímans af ritskoðun á jákvæðum fréttum af vinstri væng þjóðlífsins væri tilhæfulaus með öllu og hefði aldrei viðgengist.

Þessu svarar fréttastjóri Tímans á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta: „Rétt er að taka fram að fréttir blaðsins af ritskoðun á Sjónvarpinu eru hafðar eftir fréttamönnum á fréttastofu Sjónvarps. Fullyrðingar þeirra fréttamanna voru mjög ótvíræðar þannig að gersamlega útilokað er að um einhvern misskilning hafi verið að ræða af hálfu Tímans.“

Þarna fullyrðir fréttastjórinn að misskilningur komi ekki til greina og þann 6. apríl tekur hann af allan vafa og staðfestir að Tíminn standi við frétt sína.

Herra forseti. Mér finnst full ástæða til þess að hæstv. menntmrh. láti óvilhalla aðila rannsaka svo alvarlegt mál sem hér er á ferðinni. Í fyrsta lagi vegna þess að fréttastofa og fréttamenn Sjónvarpsins eiga ekki að þurfa að liggja undir slíkum áburði ef ósannur reynist sem ég reyndar er fullviss um.

Í öðru lagi: Sé farið með rétt mál þarf að grípa til harðra aðgerða vegna þess hversu afvegaleidd við þá erum.