28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6935 í B-deild Alþingistíðinda. (4897)

488. mál, ritskoðun á fréttastofu sjónvarps

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þessi fsp. vekur mér svolitla furðu vegna þess að hún er byggð á slúðri sem enginn maður er borinn fyrir. Það treystir sér enginn til að leggja nafn sitt við þá fullyrðingu sem þarna er sett fram um að fréttir Sjónvarpsins séu ritskoðaðar. Fulltrúi fréttamanna hefur harðlega mótmælt þessu sem ég vil kalla ómerkilega slúðri í Tímanum.

Ég starfaði í ellefu ár á fréttastofu Sjónvarpsins. Það er að vísu nokkur tími liðinn síðan. Ég varð aldrei var við það að frá stjórnmálamönnum kæmi þrýstingur eða einhvers konar ritskoðunartilhneigingar varðandi þær fréttir sem fréttastofa Sjónvarpsins flutti á þeim árum og ég þekki fréttamenn illa ef þeir mundu ekki bregðast mjög öndverðir og mjög hart við slíku, alveg sama hvaðan kæmi. Þess vegna finnst mér þetta mál í rauninni fráleitt þegar það er byggt á nafnlausu slúðri sem enginn maður virðist þora að leggja nafn sitt við. Ef hér væri eitthvað á bak við og ef hér hefði eitthvað af þessu tagi átt sér stað mundu menn þá ekki þora að segja til nafns í staðinn fyrir að röfla úr skjóli nafnleyndar sem er ómerkilegt?