28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6938 í B-deild Alþingistíðinda. (4902)

497. mál, lausar stöður kennara og skólastjóra og ráðning í þær

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svar hans. Það hefur einmitt vakið athygli mína að sl. vikur hafa birst mjög margar auglýsingar um lausar stöður, en ég geri mér grein fyrir að hluti þeirra er vegna kennara sem eru settir frá ári til árs.

Ég tel að það sé ekki seinna vænna að fara að huga að þessum málum fyrir haustið því að það er grunur minn að við blasi vandi ef ekki fer að birtast nein lausn í kjaradeilunni sem nú stendur yfir. Það virðist því miður vera mikill hægagangur í því máli þessa dagana.

Það kom hér fram að alls munu losna 771 staða við grunnskóla eða muni verða auglýstar. Það hefur einmitt sýnt sig á þeim auglýsingum sem ég vitnaði til að þær eru allmargar í öllum fræðsluumdæmunum. En ég vil leggja áherslu á að það þarf að taka á þeim vanda sem mig grunar að verði, og ég held að sá grunur minn geti jafnvel verið á rökum reistur. Fyrr eða síðar kemur til hljóðlátrar byltingar kennara því að eins og menn vita eru sífellt meiri kröfur gerðar til kennarans og verkefnum hans fjölgar, kennsluhættir hafa breyst og vinnuálagið aukist og krafist aukinnar samvinnu vegna skipulagningar og sveigjanleika hjá kennurum. Það fer mikill tími af starfi kennarans í að fylgjast með nýjungum í skólastarfinu og að kynna sér nýtt námsefni. Námsefnisskortur er tilfinnanlegur og kennarar leggja á sig ómælda vinnu til að mæta þörfum hvers nemanda.

Það liggja fyrir skýrslur, sem ég hef reyndar getið um áður þegar þessi mál hefur borið á góma hér, það liggja fyrir skýrslur á skýrslur ofan og þær segja allar það sama: Það verður að bæta kjör kennaranna. Ég hef heyrt, ég tek það fram, hef aðeins heyrt, að allmargir kennarar hugsi sér að láta reyna á þá leið að taka sér launalaust leyfi, alla vega í ár til umhugsunar, ef ekki fæst nein lausn núna næstu daga.

En ég held að það sé mjög nauðsynlegt að tekið verði af fullri alvöru á þessu máli í eitt skipti fyrir öll því að í öllum þeim skýrslum sem ég minntist á áðan er rauði þráðurinn að það verður að bæta kjör kennaranna og til þess verðum við að finna ráð.