28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6940 í B-deild Alþingistíðinda. (4906)

424. mál, ferðamenn

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir veittar upplýsingar um ferðamál. Þar kom fram mjög margt jákvætt á því sviði. Hins vegar má segja sem svo að það hafi komið fram áætlun um hve mikið hafi komið til landsins á vegum ferðaskrifstofanna samtals, en ekki hvernig það skiptist. Því var borið við að það væri viðskiptaleyndarmál og vil ég ekki ræða það frekar, en verð þó að segja sem er að ég er engu nær um hlut Ferðaskrifstofu ríkisins eftir sem áður því að skiptingin kemur hvergi fram. Ég aftur á móti verð staðfastari í þeirri skoðun minni eftir þetta en áður að hún eigi höfuðþáttinn í þeim fjölda sem kemur á vegum ferðaskrifstofa.