28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6942 í B-deild Alþingistíðinda. (4911)

Fyrirspurn um viðskiptahalla

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Þá er þjóðin upplýst um a.m.k. einn lítinn árangur af fundi Framsfl. annað en bara að láta út loft. En ég verð nú, hæstv. forseti, að efast um að hv. 10. þm. Reykv. komi hér upp í ræðustólinn og segi að sér sé það ljúft að tilkynna að hans vinna á Alþingi sé að engu gerð. Hann hefur komið hér fram með fsp. sem er í sjálfu sér eitt það stærsta mál sem þjóðin hefur við að glíma, hvernig það skuli leyst. Nú hefur hann tilkynnt að hann muni draga það til baka á þeim forsendum að fundur í Framsfl. haldinn úti í bæ hafi tekið þá ákvörðun að ráðherrar flokksins skuli tala við samráðherra sína og það um efnahagsmál. Þetta eru miklar upplýsingar. Ég fagna því að ráðherrar Framsfl. ætla að ræða svolítið betur um þau mál sem þeir hafa áhyggjur af, ekki bara vegna þess að þetta séu stórmál, ekki bara vegna þess að þjóðin er komin í þann vanda sem Framsfl. lýsti að væri mjög mikill áður en hann sá ástæðu til að kalla mestu valdastofnun sína til fundar um þau mál, heldur eru þetta vandamál sem Framsfl. hefur sjálfur tekið þátt í að afgreiða hér á Alþingi. Ég veit ekki um eina einustu ráðstöfun stjórnarinnar sem Framsfl. hefur ekki tekið þátt í að afgreiða og þar með efnahagsmálin.

En ég skil vel að Framsfl. vilji halda áfram að fela fyrir þjóðinni af hverju þessi mikla skuldasöfnun, af hverju þessi mikli munur er á tekjum af útflutningi og innflutningi og tekjum þar á milli. Það skil ég vei. Og ég skil vel hæstv. forseta. Ég segi enn þá einu sinni að gefnu tilefni að ekkert af því sem ég hef spurt um í dag eða sagt er skuggi á embættisfærslu forseta Sþ. sem við styðjum allir og virðum fyrir hans góðu störf. En ég verð þó að leyfa mér að túlka það, sem fram hefur komið hjá forseta og fram hefur komið hjá fyrirspyrjanda, að tillagan eigi ekki að koma á dagskrá meira, hún hafi ekki átt að koma á dagskrána í dag. Það er ágætt að fá þá tilkynningu vegna þess að ég fékk það svar á síðasta fundi að fsp. mundi koma á dagskrá síðar, en nú er ljóst að hún kemur ekki oftar á dagskrá. Þá verð ég að gera upp við mig hvort ég tek hana upp sjálfur. Hún kemur líklega á dagskrá hvort sem hún er tekin upp af óánægðum stjórnarþingmanni, sem hefur í grein eftir grein í dagblöðum sýnt að hann er ekki í samstöðu um marga hluti innan Framsfl., eða ekki. En það fer fyrir hv. þm. á sama hátt og öðrum þingmanni Reykvíkinga, Eyjólfi Konráð Jónssyni. Hann lýsir því yfir í blöðum að hann sé á móti efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og hann segist vera eins og hundur í bandi á þingflokksfundum, en greiðir þó atkvæði með öllum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar í þingsölum. En til þess að friða nú samviskuna að einhverju leyti segist hann gera það með vinstri hendinni.

Hæstv. forseti. Ég lít þá svo á að þessi fsp. til forsrh. sé hér með tekin af dagskrá og við fáum ekkert svar frá honum, a.m.k. ekki að þessu sinni, og fsp. verði þá ekki frá þeim stjórnarþingmanni sem hana flutti. Hún verði þá að koma frá einhverjum öðrum þingmanni til forsrh.