28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6943 í B-deild Alþingistíðinda. (4913)

Fyrirspurn um viðskiptahalla

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í framhaldi þessara umræðna. Þessari fsp. var beint til forsrh. og fsp. um hvernig ríkisstjórnin hygðist bregðast við þeim viðskiptahalla sem Þjóðhagsstofnun spáir.

Það hlýtur að vera fullkomlega rökrétt, þar sem miðstjórnarfundur Framsfl. hefur falið ráðherrum flokksins að ræða sérstaklega innan ríkisstjórnarinnar hvaða leiðum skuli beitt og hvernig við þessu skuli bregðast, að fsp. sé dregin til baka. Meðan þær viðræður eiga sér stað á hún auðvitað ekki erindi, a.m.k. ekki frá mér, sem að einhverjum hluta gæti átt aðild að þeim viðræðum, inn á Alþingi Íslendinga. Þessi afstaða er fullkomlega rökrétt og eðlileg og þar af leiðandi mun ég draga fsp. til baka.

Hitt er auðvitað ánægjulegt að þessi fsp. og þessar umræður hafa orðið tilefni fyrir formann Borgarafl. til að losna við svolítið loft, svo að notuð séu svipuð ummæli og orðatiltæki og hann hefur viðhaft um miðstjórnarfund framsóknarmanna.