28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6944 í B-deild Alþingistíðinda. (4915)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég mæli fyrir till. til þál. um vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Flm. till. eru ásamt mér hv. þm. Júlíus Sólnes, Þórhildur Þorleifsdóttir og Stefán Valgeirsson. Till. er 505. mál Sþ. á þskj. 900 og er svohljóðandi:

„Með hliðsjón af því alvarlega ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu, versnandi kjörum launafólks og vaxandi misrétti í launamálum, verkföllum sem lama viðskipti og valda heimilunum ómældum erfiðleikum, óheyrilegum fjármagnskostnaði, gífurlegum viðskiptahalla og skuldasöfnun, erfiðleikum atvinnuveganna og stórfelldri byggðaröskun, sem á að verulegu leyti rætur sínar að rekja til rangrar stjórnarstefnu, ályktar Alþingi að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina.“

Auk þess rökstuðnings sem kemur fram í sjálfri till. má segja að almennar aðstæður í þjóðfélaginu í efnahagsmálum og stjórnmálum hafi kallað fram þessa vantrauststillögu. Ríkisstjórnin hefur á undanförnum mánuðum glatað ört trausti þjóðarinnar. Um það eru skýrar vísbendingar úr almennri umræðu og skoðanakönnunum. Innbyrðis sundurlyndi hefur birst í sífelldum uppákomum á stjórnarheimilinu og hafa stjórnarliðar lýst því ákaflega vel sjálfir hvaða trú þeir hafi á núverandi ríkisstjórn. Jafnvel svo einfaldir hlutir sem að þiggja eða þiggja ekki boð um opinberar heimsóknir eða að ákveða við hverja megi tala og hverja ekki verða að opinberum rifrildismálum milli stjórnarliða og dregst jafnvel sjálft embætti forseta Íslands inn í lágkúruna.

Hugtakið stjórnarfrumvarp hefur í vetur verið skilgreint alveg upp á nýtt og hefur nú tvöfalda merkingu. Annars vegar stjfrv. sem öll ríkisstjórnin styður, hins vegar stjfrv. sem aðeins hluti stjórnarliðsins styður. Þessir og aðrir slíkir þverbrestir í stjórnarsamstarfinu hafa ágerst með hverjum deginum sem líður og hafa svo auðvitað sín áhrif á það að ríkisstjórnina brestur kjark og hún stendur úrræðalaus frammi fyrir verkefnum sínum.

Góðærið hefur brunnið upp sem eldsneyti í þeirri tilraun sem hér hefur verið framkvæmd undir merkjum frjálshyggjunnar með þeim hroðalegum afleiðingum að eftir margra ára samfellt góðæri er hér allt að sigla í strand. Af fullkomnu tillitsleysi gagnvart lífskjörum fólks, hagsmunum byggðanna og jafnvel sjálfu efnahagslegu sjálfstæði landsins keyra öfgaöflin í og kringum Sjálfstfl., dyggilega studd af frjálshyggjuliðinu í framsókn og Alþfl., áfram braut frjálshyggjunnar eins og Ísland væri tilraunastofa og íslenska þjóðin upplögð tilraunadýr.

Þó að tilraunin kosti það að þúsundir fullfrískra vinnandi manna skuli búa við rétt rúmlega 30 000 kr. mánaðarlaun og þó svo að hún kosti hrun útflutningsatvinnuveganna, stórfellda byggðaröskun, 20 milljarða viðskiptahalla á tveimur árum o.s.frv. skal henni samt haldið áfram. A.m.k. virðast þeir menn enn hafa undirtökin sem ekkert vilja gera. Vilja halda tilrauninni áfram þó að hinar hroðalegu afleiðingar verði ljósari og ljósari með hverjum deginum sem líður.

Það er skoðun okkar alþýðubandalagsmanna að meira en nóg sé komið. Þess vegna hafði þingflokkur Alþb. forgöngu um það að fram kæmi hér á Alþingi till. um vantraust á ríkisstjórnina. Með því vildum við gera það sem í okkar valdi stendur til að koma þessari ríkisstjórn frá og um leið undirstrika hversu alvarlegum augum við lítum ástandið.

Við Íslendingar höfum síðustu árin lifað langvarandi góðæriskafla hvað öll ytri skilyrði varðar. Viðskiptakjör okkar hafa verið hagstæð, afli mikill og afurðaverð hátt og eftirspurn eftir okkar framleiðslu næg. Ætla mætti því að þessi hagstæðu skilyrði hefðu gert okkur kleift að ná varanlegum árangri við gamalkunn efnahagsvandamál, að við hefðum undanfarin ár verið að greiða niður erlendar skuldir, ná verðbólgunni niður á sama stig og er í nálægum löndum, ná hér stöðugleika í efnahagsmálum og atvinnulífi, byggja upp okkar útflutningsgreinar og síðast en ekki síst, bæta kjör þeirra lakast settu, efla félagslega þjónustu og treysta byggð í landinu svo nokkuð sé nefnt. Reyndin er því miður önnur eins og allir viðurkenna nú og sjá.

Hjá því verður ekki komist að fara nokkrum orðum um þann blekkingaleik sem hér var settur á svið í síðustu kosningum fyrir réttu einu ári. Þá var sagt: Allt er í himnalagi. Bara að kjósa okkur áfram. Þá verður verðbólgan eins stafs tala um næstu áramót. — Hver var reyndin nokkrum mánuðum síðar? Verðbólga á bilinu 30–50% þó Steingrímur Hermannsson og Þorsteinn Pálsson séu báðir áfram í stjórn.

Við vöruðum við og sögðum að hinn svokallaði árangur væri blekkingaleikur, að vandanum hefði aðeins verið sópað undir teppið fram yfir kosningar. Það hefur komið á daginn. Fyrsti kosningavíxillinn féll reyndar með brauki og bramli aðeins fjórum dögum eftir kosningar þegar ríkisstjórnin og þá einkum og sérstaklega Sjálfstfl. fékk flugstöðvarhneykslið í hausinn.

Þeir framsóknarmenn þökkuðu fyrir kosningarnar Steingrími Hermannssyni persónulega hinn mikla árangur. En nú tala þeir hins vegar eins og þeir hafi hvergi nærri neinu komið, rétt eins og þeir hafi svo pottþétta fjarvistarsönnun að jafnvel sjálfur Sherlock Holmes gæti ekki sannað, þó hann væri á meðal okkar, að þeir hafi nokkurn tímann komið nálægt ríkisstjórn á Íslandi, þrátt fyrir að flokkur þeirra hafi setið nær samfellt í ríkisstjórn í 17 ár, þrátt fyrir að formaðurinn, Steingrímur Hermannsson, hafi verið sleitulaust ráðherra að kalla í tíu ár og þrátt fyrir að í gjörvöllum 13 manna þingflokki framsóknar finnist enginn þingmaður sem nokkru sinni hefur verið í stjórnarandstöðu ef frá eru taldir þrír stuttir mánuðir um áramótin 1979–1980.

Já, þrátt fyrir allt þetta bera þeir framsóknarmenn enga ábyrgð þegar á móti blæs eða óvinsælar ráðstafanir eiga í hlut. Þeir hafa hins vegar vakandi auga fyrir því að eigna sér það sem vel tekst og til vinsælda er fallið.

Landsmenn hafa nýverið orðið vitni að tilþrifum þeirra framsóknarmanna í stjórnarsamstarfinu, en þeir héldu miðstjórnarfund á dögunum með miklum látum sem síðan endaði í geysilegum loftmissi og hroðalegri magalendingu. Kletturinn sem reis úr hafinu sl. vor er nú sem eitt útsker er aldan gengur yfir og er orðinn hættulegur skipum. Gott ef sjálf þjóðarskútan er ekki á góðri leið með að stranda þar og fargast.

Staðreyndin er auðvitað sú að fyrri ríkisstjórn ber verulega ábyrgð á því hvernig nú er komið í okkar efnahagsmálum. Blekkingaleikurinn fyrir síðustu kosningar með tilheyrandi aðgerðaleysi hefur orðið okkur dýr. En hvað hefur svo verið gert til að ná tökum á efnahagsmálunum? Svarið er: kák. Ríkisstjórnin hefur ekki þorað eða getað tekið á hinum eiginlegu vandamálum. Dæmi um glámskyggni stjórnarinnar er sú staðreynd að ráðherrar hennar voru önnum kafnir við að leggja nýjar álögur á sjávarútveg og iðnað í vetur, launaskatt og hætta að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt, ráðstafanir sem þeir máttu síðan harla sneypulegir draga til baka nokkrum vikum síðar.

Enn annað dæmi eru stórfelldar lækkanir á lúxusvörum á sama tíma og viðskiptahallinn stefnir í 20 milljarða á tveimur árum. Gáfuleg ráðstöfun það.

Matarskatturinn, sem Alþfl. gerði að sérstöku og persónulegu hugsjónamáli sínu, er þó áreiðanlega ein alvarlegustu og verstu mistök stjórnarinnar. Í heild er sú skattastefna sem Alþfl. hefur beitt sér fyrir með matarskatti og álagningu tekjuskatts með einu skattþrepi, sem leiðir til þess að hinir tekjuhæstu borga minna en áður, harla sérkennileg jafnaðarmennska. Það er enda ekki að ástæðulausu að íslenski Alþfl. hefur verið kallaður bæði aumastur og hægrisinnaðastur allra krataflokka á Vesturlöndum.

Við börðumst hart gegn matarskattinum, stjórnarandstaðan, hér á þingi og vöruðum við að hann mundi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér, einkum og sér í lagi fyrir láglaunafólkið sem hlyti að gera kröfur um meiri launahækkanir á móti. Enginn vafi er á því að það fólk sem verið hefur að fella kjarasamninga umvörpum að undanförnu er öðrum þræði að mótmæla matarskatti og auðvitað um leið að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.

Stórfelld skerðing á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ósvífin meðferð á sveitarfélögum er svo enn eitt dæmið sem ég tíni til úr verkum ríkisstjórnarinnar.

Þannig hafa ýmsar aðgerðir stjórnarinnar spillt fyrir þó algert úrræðaleysi hennar og dáðleysi sé auðvitað versta meinið.

En hvernig er nú umhorfs á Íslandi og í íslenskum þjóðarbúskap eftir langan og samfelldan góðæriskafla sem ég hef áður lýst?

Harðsvíruð láglaunastefna ríkisstjórnarinnar og atvinnurekenda, þar sem mánaðarlaun niður undir 30 000 kr. virðist vera sáluhjálparatriði, hefur leitt til harðvítugra vinnudeilna, sem m.a. standa nú yfir, þar sem hópar launafólks reyna að brjóta láglaunastefnuna á bak aftur. Viðskiptahalli er svo gífurlegur að engin dæmi eru slíks. Þrátt fyrir hvert metið á fætur öðru í þjóðarframleiðslu stefnir nú samanlagt í a.m.k. 20 milljarða viðskiptahalla á síðasta og yfirstandandi ári. Skuldasöfnun er gífurleg og erlendar skuldir þjóðarinnar stefna nú hraðbyri í 100 milljarða kr. Verðbólgan hér á landi er nú um áttfalt meiri en í helstu viðskiptalöndum okkar í samanburði við fjórfalt til sexfalt meiri á undanförnum árum. Staða útflutningsatvinnuveganna og framleiðslustarfseminnar er mjög slæm og fer versnandi á meðan þensla ríkir og glórulausar fjárfestingar viðgangast í ýmsum eyðslugreinum þjóðfélagsins.

Einna alvarlegust er þó sú staða sem blasir við landsbyggðinni og er ekki minnst tilefni til þeirrar vantrauststillögu sem hér er rædd. Segja má að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar með hágengi krónunnar og okurvöxtum sé a.m.k. seigdrepandi ef ekki bráðdrepandi fyrir atvinnulíf landsbyggðarinnar. En á sama tíma er minna en ekkert gert til að vega á móti þeim margvíslega aðstöðumun sem landsbyggðin býr við og fer því miður vaxandi í mörgum greinum. Landsbyggðin hefur tapað til höfuðborgarsvæðisins 1000–1500 manns undanfarin ár og aldrei meira en á því síðasta. Holskefla byggðaröskunar af alveg nýrri stærðargráðu getur skollið á verði ekkert að gert, hvort sem þeir flutningar hefðu höfuðborgarsvæðið eða útlönd að endastöð.

Ekki er ólíklegt að þið, áheyrendur góðir, fáið hér að heyra á eftir sönginn um nöldrið í stjórnarandstöðunni, að við höfum ekkert fram að færa. En staðreynd málsins er sú að stjórnarandstaðan hefur í vetur verið snarpari og málefnalegri en um langa hríð. Við lögðum okkur öll fram um að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina og stöðva matarskattinn svo eitt vel kunnugt dæmi sé nefnt. Þingmenn Alþb. hafa tekið upp um 140 dagskrármál hér á þinginu. Nýlega gáfum við út blað, sem vonandi hefur borist inn á hvert heimill í landinu, og þar eru störf okkar og stefna kynnt. Alþb. hefur lagt fram ítarlega og stefnumarkandi tillögu í launamálum þar sem hækkun lægstu launa í a.m.k. 45–55 þús. kr. og launajöfnun þannig að launamunur verði ekki meiri en fjórfaldur og fari síðan enn minnkandi eru undirstöðuatriði. Við teljum að stjórnvöld verði að taka höndum saman við samtök launafólks og vinnuveitendur og hafa forgöngu um að skapa samstöðu um nýja stefnu launajöfnunar og réttlætis í stað þess ófremdarástands sem nú ríkir. En fyrst og síðast er það auðvitað samstaða launafólks sjálfs sem er forsenda þess að það nái árangri í sinni kjarabaráttu.

Þingmenn Alþb. hafa á þessu þingi flutt fjölmargar ítarlegar og stefnumarkandi tillögur um efnahagsmál og skattamál, svo sem um skattlagningu þenslugróðans og auknar skattgreiðslur gróðafyrirtækja og tekjuhárra einstaklinga, um álagningu tekjuskatts í tveimur þrepum og réttlátari skattgreiðslur almenns launafólks, um sérstakan skattadómstól. Við höfum flutt sjálfstætt frv. um framhaldsskóla og fjölmörg mál sem tengjast menntun, menningu og listum. Við lögðum fram heildarstefnu í stjórn fiskveiða sem grundvallast á ákveðinni tengingu aflakvóta við byggðarlög og fjölmörg önnur mál sem tengjast atvinnu- og byggðamálum. Við höfum flutt frv. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og fjölda annarra tillagna á sviði umhverfis-, utanríkis- og friðarmála. Tillaga þingflokks Alþb. um algert viðskiptabann á Suður-Afríku bíður nú afgreiðslu í utanrmn. svo dæmi séu tekin um þau fjölmörgu og margvíslegu mál sem flutt hafa verið og ásamt með öðru birta okkar stefnu; okkar úrræði. Þetta bið ég menn að hafa í huga og kynna sér ef hinn gamalkunni söngur um að við höfum ekkert fram að færa skyldi taka sig upp hér á eftir. Oftast er slíkt reyndar vísbending um hið gagnstæða, vísbending um að stjórnarliðar sjálfir vilji forðast að tala um eigin verk og þeirra afleiðingar. Það kæmi mér ekki á óvart að yrði reyndin hér í kvöld.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Frjálshyggjan er að sigla í strand. Hún gat gengið meðan allt lék í lyndi og gekk okkur í haginn, meðan afli óx að magni og enn meir að verðmæti, meðan viðskiptakjör okkar bötnuðu, meðan olíuverðið lækkaði o.s.frv., m.ö.o. í uppsveiflu góðærisins. En um leið og byrinn lægir svo að ekki sé talað um að andi á móti koma hinar nöktu staðreyndir í ljós. Góðærið hefur brunnið upp í þenslu og sukki þeirra sem mest höfðu fyrir án þess að bæta varanlega á nokkurn hátt aðstæður þeirra sem brýnust nauðsyn bar til, þ.e. hins almenna launamanns í landinu og undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar. Dýrmætt tækifæri hefur glatast.

Innan stjórnarinnar og í röðum sérfræðinga hennar er nú bullandi ágreiningur um alla mikilvægustu þætti efnahagsmálanna. Sumir vilja fella gengið en aðrir ríghalda í svokallaða fastgengisstefnu. Sumir krefjast tafarlausra aðgerða í vaxtamálum en aðrir hrópa: Markaðurinn verður að ráða hvað sem það kostar. Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun greinir stórlega á um efnahagsástandið og horfur og geta í raun sameinast um það eitt að útlitið sé dökkt, mjög dökkt, á því ári sem tekur við af mesta góðæri Íslandssögunnar.

Sundurþykk og dáðlaus ríkisstjórn sem hefur glatað trausti þjóðarinnar og trúnni á sjálfa sig er ekki fær um að leiða okkur út úr ógöngunum. Öllum og þar á meðal ríkisstjórninni sjálfri væri fyrir bestu að hún færi frá og nýir menn með nýtt umboð þjóðarinnar en fyrst og síðast með aðra og farsælli stefnu tækju við.

Ísland er gott land og hér eru miklir möguleikar, en til þess að nýta þá þurfum við betri ríkisstjórn en við höfum í dag og við eigum hana líka skilið. Hver sem úrslit verða í þeirri atkvæðagreiðslu sem hér fer fram á eftir veit ég að meiri hluti íslensku þjóðarinnar greiðir í huga sínum þessa dagana atkvæði með okkur sem að þessu vantrausti stöndum. Með þeim orðum og óskum um gleðilegt sumar kveð ég ykkur, áheyrendur góðir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.