28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6960 í B-deild Alþingistíðinda. (4920)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Jóhann Einvarðsson:

Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Þegar við komum hér saman til að ræða vantrauststillögu, sem borin er fram af stjórnarandstöðuflokkunum, skulum við líta yfir farinn veg og sjá hvað áunnist hefur og hvað betur mætti fara.

Það er tæpt ár liðið síðan núverandi stjórn tók við völdum að loknum kosningum þar sem ýmis ný öfl komu til sögunnar og talsverðar breytingar urðu á valdahlutfalli innan þingsins. Stjórnarmyndunarviðræður urðu langar og að mörgu leyti erfiðar og þegar upp var staðið var ljóst að ekki var um aðra möguleika að ræða til að mynda starfhæfa ríkisstjórn, aðra en þá sem nú situr.

Þó að ríkisstjórnin hafi yfir miklum þingmeirihluta að ráða er hún mynduð af flokkum sem hafa ólík sjónarmið í mörgum málum. Þessum þremur flokkum tókst þrátt fyrir allt að koma sér saman um stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar sem unnið er eftir. Það er aðeins tæpt ár síðan stjórnin var mynduð og þess vegna kannski ekki eðlilegt að allt sé komið til verka sem til er ætlast samkvæmt stjórnarsáttmálanum.

Þetta fyrsta þing á starfstíma ríkisstjórnarinnar hefur verið starfsamt. Náðst hefur að koma á jafnvægi í ríkisfjármálunum sem er grundvallaratriði til að ná stjórn á peningamálum. Söluskattsbreytingar hafa tekið gildi, en þær eru undanfari virðisaukaskatts. Vegna ýmissa galla á söluskattskerfinu hafa stjórnarflokkarnir, og reyndar kannski mikill meiri hluti Alþingis, verið sammála um að taka upp virðisaukaskatt sem á að draga mjög úr möguleikum, og reyndar freistingum til að hlunnfara ríkissjóð.

Sett hafa verið ný tollalög, mun einfaldari, og tollar verulega lækkaðir. Tekið hefur verið upp staðgreiðslukerfi skatta sem rætt hefur verið um í mörg ár en hefur nú komið til framkvæmda.

Sett hafa verið ný lög um stjórnun fiskveiða. Traust forusta Halldórs Ásgrímssonar hefur ekki hvað síst tryggt framgang þessa erfiða máls. Þó menn deili um kvótakerfið á ýmsan hátt er það trú mín að það sé þó illskársta leiðin til að stjórna fiskveiðunum sem allir eru sammála um að þarf að gera.

Í utanríkismálum hefur verið mótuð og framkvæmd sjálfstæð stefna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Á grundvelli samþykktar Alþingis hafa Íslendingar beitt sér á alþjóðavettvangi fyrir fækkun kjarnorkuvopna og gegn hvers konar mannréttindabrotum. Er vafalaust að sjálfstæð utanríkisstefna og virk þátttaka Íslendinga í starfi alþjóðastofnana hefur aukið álit á landi og þjóð, enda hafa flutningsmenn vantrauststillögunnar ekki lýst vantrausti á Steingrím Hermannsson utanríkisráðherra vegna þess hluta stjórnarsáttmálans sem hann hefur annast.

En auðvitað eru ýmis atriði sem betur mættu fara, ekki hvað síst í efnahagsmálum. Ef við lítum aðeins á stöðu efnahagsmálanna kemur í ljós að verðbólgan þessa dagana mun vera rétt um 20%, 13% ef við lítum til síðustu þriggja mánaða og um 25% ef litið er til síðustu 12 mánaða. Að óbreyttu ástandi, bæði í launa- og gengismálum, mundi verðbólga verða um 10% í lok þessa árs.

Ekki líta þessar tölur mjög illa út. En þó er ljóst að staða undirstöðuatvinnuveganna er ekki góð. Staða útgerðar, fiskvinnslu, ferðamannaiðnaðar, ullariðnaðar, og það mætti nefna fleiri atvinnuvegi sem byggja á útflutningi, útflutningi sem í meginat riðum byggist á greiðslum í dollurum, er afar slæm. Gengi dollarans hefur nánast verið óbreytt síðustu þrjú árin en kostnaðarhækkanir hér innan lands hafa á þessu tímabili verið a.m.k. 40%. Það sjá allir að við slíkt er ekki hægt að búa til langframa.

Viðskiptahalli 1986 var nánast í jafnvægi. Á árinu 1987 var viðskiptahallinn um 7 milljarðar og á þessu ári stefnir í 11–13 milljarða kr. Það segir sig sjálft að við svo búið getur ekki staðið. Íslenskt efnahagslíf þolir ekki 20 milljarða kr. viðskiptahalla á tveimur árum.

Fjármagnskostnaðurinn hefur og valdið undirstöðuatvinnuvegunum óheyrilegum vandræðum, og ekki einungis þeim heldur einnig einstaklingum. Margoft hefur verið sagt að vextir muni lækka í kjölfar lækkandi verðbólgu. Það hefur ekki alltaf orðið reyndin og þess vegna held ég að Seðlabankinn, með fulltingi ríkisstjórnarinnar, verði að ákvarða hámarksvexti og vaxtamun sem gildi uns verðbólgan er komin undir 10%.

Ljóst er að draga verður úr ýmiss konar innflutningi og þeim möguleikum sem ýmsir hafa til lántöku erlendis.

Erfið staða útflutningsatvinnuveganna og mikil þensla hér á höfuðborgarsvæðinu hefur valdið mikilli byggðaröskun í landinu sem verður að stöðvast. Það verður til tjóns fyrir landið allt ef við kollsteypum byggðinni í landinu og nánast leggjum heilu byggðirnar í eyði.

Helstu verkefni sem fram undan eru á næstu vikum og mánuðum hjá ríkisstjórninni eru þessi: Treysta þarf stöðu undirstöðuatvinnuveganna, lækka fjármögnunarkostnað, endurskoða lánskjaravísitöluna, draga úr þenslu hér á höfuðborgarsvæðinu, draga úr erlendum lántökum og koma á jöfnuði í erlendum viðskiptum.

Við framsóknarmenn héldum miðstjórnarfund fyrir tæpri viku síðan. Þessi fundur olli talsverðri spennu, í fjölmiðlum a.m.k. Ég tel að þetta hafi verið einhver besti fundur miðstjórnar flokksins sem haldinn hefur verið um árabil. Mikill einhugur ríkti á fundinum og fengu ráðherrar flokksins og þingflokkur stuðning allrar miðstjórnarinnar til að starfa áfram af fullri einurð að framkvæmd stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

Við framsóknarmenn teljum að ráðast eigi í róttækar aðgerðir sem duga til að skapa framleiðsluatvinnuvegunum rekstrargrundvöll, draga verulega úr viðskiptahalla, stöðva byggðaröskun og draga úr verðbólgu, en standa vörð um kjör þeirra sem lægst hafa launin. Til að ná þessu markmiði benti miðstjórn flokksins á nokkrar leiðir og fól ráðherrum flokksins og þingmönnum að hefja viðræður við samstjórnarflokkana um þær leiðir.

Miðstjórnarfundurinn áréttaði að Framsfl. er reiðubúinn til að ræða allar leiðir til að skapa framleiðsluatvinnuvegunum rekstrargrundvöll og draga úr viðskiptahalla og byggðaröskun.

Ef ekki tekst með markvissum aðgerðum að ná þeim árangri sem að er stefnt verður óhjákvæmilegt að aðlaga gengi íslensku krónunnar þeim aðstæðum sem ríkja í íslensku efnahagslífi. Það eitt mun hinsvegar leiða til vaxandi verðbólgu og aukins efnahagsvanda ef ekki fylgja margþættar, nauðsynlegar aðgerðir sem m.a. vernda kjör þeirra sem lægst hafa launin. Ríkisstjórnin hefur mikinn meiri hluta á Alþingi og á að vera fær um að rétta við efnahagslíf þjóðarinnar. Að því vill Framsfl. vinna heils hugar.