28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6965 í B-deild Alþingistíðinda. (4922)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Kvennalistinn ásamt öðrum stjórnarandstæðingum stendur að tillögu um vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og ekki að ósekju. Meiri hluti landsmanna virðist nú á sama máli. Um það vitna skoðanakannanir og ekki síður viðbrögð fólks við þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin grípur til.

Það eru nú liðnir tveir mánuðir síðan ríkisstjórnin greip síðast til „ráðstafana í ríkisfjármálum“. Þær einkenndust helst af því að kippa til baka fyrri ráðstöfunum. Nú virðist eitthvað álíka vera í aðsigi.

Sl. þriðjudag mátti lesa í einu dagblaðanna eftirfarandi orð eins ráðherrans: „Þjóðin ætlast til raunsærra aðgerða ríkisstjórnarinnar.“ Þetta er öldungis rétt hjá hæstv. ráðherra. Um það geta allir verið sammála. Þá er hitt eftir og það er: Hvað eru raunsæjar aðgerðir? Birtast þær í því raunsæi sem við blasir? Öngþveiti og niðurrif alls staðar. Verið er að kippa grundvellinum undan útflutningsatvinnuvegunum. Gífurlegur viðskiptahalli. Mikill fjármagnskostnaður og skuldasöfnun. Verið er að knésetja landsbyggðina og félagsleg þjónusta öll í lágmarki.

Þetta er raunveruleikinn sem við blasir og hinar raunsæju skýringar eru líka á hraðbergi. Allt er þetta því að kenna að fólk kann sér ekki hóf í kröfum. Eða svo álítur a.m.k. sá ráðherra sem ég vitnaði til hér á undan og ætla að leyfa mér að vitna í aftur, með leyfi forseta:

„Ábyrgð stjórnmálaflokka hefur ávallt verið mikil og svo er enn í dag. Það er skylda þeirra að taka á þeim vandamálum sem upp koma, leiða þjóðina í sannleika um þau, gera tillögur um viðeigandi ráðstafanir, vinna þeim fylgi og koma þeim í framkvæmd. Reynslan kennir okkur að þótt stjórnmálamenn sjái hvað gera þarf og ákveði að koma því í framkvæmd, hefur aðhald oft verið brotið á bak aftur með mótaðgerðum ýmissa hagsmunahópa. Að slíkt gerist er hins vegar áhætta sem verður að taka og ef almenningur vill ekki una við ákvörðun stjórnvalda er ekkert annað að gera en að hver og einn segi álit sitt í kosningum. Það hefur áður gerst. Ekki verður séð af þeirri reynslu að það hafi verið þjóðinni til framdráttar.“

Það er alveg hárrétt athugað að það hefur ekki orðið þjóðinni til framdráttar að fela örlög sín aftur og aftur mönnum sem grípa aftur og aftur til sömu „raunsæju aðgerðanna“, sem svo duga ekki vegna þess að einhverjir „hagsmunahópar“ brjóta þær á bak aftur. Og hverjir eru svo þessir hagsmunahópar? Jú, það er auðvitað launafólk. Það hið sama og nú er að reyna að mótmæla þeim lífskjörum sem því eru skömmtuð í þessu auðuga þjóðfélagi, fólkið sem skapar þann auð með einu eða öðru móti og vill fá sinn skerf — sinn réttláta skerf.

Og svörin sem það fær eru: Allt er þetta öngþveiti ykkur að kenna. Þið berið ábyrgð á verðbólgunni, þið berið ábyrgð á viðskiptahallanum því þið eyðið of miklu. Þið setjið atvinnuvegina, fyrirtækin og hið opinbera á hausinn með óhófskröfum.

Og hverjar eru þær, þessar óhófskröfur sem það fólk sem nú stendur í verkfalli gerir? Jú, 42 000 kr. í lágmarkslaun. Það fólk sem fyrir skömmu stóð í launabaráttu fékk 31–32 000 kr., einn tíunda, einn tuttugasta eða kannski einn fimmtugasta af forstjóralaunum. Þarna liggur þá sökin. Þá kemur tvískinnungurinn. Í einu orðinu er sagt: Fyrirtækin hafa ekki efni á meiru, þjóðfélagið rís ekki undir hærri launum. En í hinu er svo sagt: Það hafa flestir meira hvort eð er. Það má til sanns vegar færa, flestir fá meira upp úr launaumslaginu. Sumir eru yfirborgaðir, aðallega karlmenn. Aðrir fá meira vegna þess að þeir vinna eftirvinnu, næturvinnu, helgarvinnu, vaktavinnu, aukavinnu eða ákvæðisvinnu. Sem sagt: Með ómældri vinnu og erfiði skrapar fólk saman eitthvað meira til að reyna að láta enda ná saman.

Sumir leggja á sig mikið erfiði vegna óskynsamlegrar eftirsóknar í veraldleg gæði. En aðrir, og það allt of margir, gera það af brýnni nauðsyn. En hvort sem það er löngunin til að standa sig í lífsgæða- og neyslukapphlaupinu eða nauðsyn sem knýr fólk til óhóflegrar vinnu og erfiðis, bitnar það á þeim sem síst skyldi — börnum og öðrum þeim sem þurfa á umönnun og alúð annarra að halda. Fjölskyldan, þessi litla veikburða eining, sem á að vera samkvæmt orðanna hljóðan hornsteinn þjóðfélagsins, kiknar og brestur undan öllu saman.

En það er víst ekki „raunsæi“ að hafa áhyggjur af þess konar smámálum, þessum svokölluðu „mjúku málum“. Hækkun grunnlauna, stytting vinnutíma, réttlátari tekjuskipting, minnkun launabils og launajafnrétti kynja eru nú farin að flokkast undir „hin mjúku mál“ vegna þeirrar áherslu sem Kvennalistinn leggur á þau. Svona skilgreiningar auðvelda alvörustjórnmálamönnum að blása á þessi mál eins og hvert annað ryk sem hefur sest ofan á fínu áætlanirnar þeirra um alvöruaðgerðir, alvörustjórnmál.

En það vill svo til að þessir alvörustjórnmálamenn eru óðum að missa tiltrú fólks og það gagnar þeim lítt að ætla að vinna hana aftur með rangfærslum og auvirðilegum málflutningi af því tagi sem hæstv. menntmrh. viðhafði hér áðan. Fólk trúir ekki lengur á síendurteknar aðgerðir sem endast varla lengur en það tekur blekið í undirskriftunum að þorna. Fólk er þreytt á hroka valdsmanna, sem eru búnir að missa öll tengsl, ráðast á líf þess og kjör og skamma það svo ef það kvartar, segja því að það eigi eftir að skilja blessun matarskatts, lágra launa og langs vinnutíma — ef ekki nú, þá seinna — og bregða því síðan um ábyrgðarleysi fyrir að aðhyllast stefnu sem þeir segja að eigi ekkert skylt við stjórnmál.

Eitt höfuðeinkenni þeirrar stefnu er að við kvennalistakonur höfum ítrekað lagt til lögbindingu lágmarkslauna sem eins konar varnargarð fyrir launafólk. En þá er rekið upp ramakvein. Ein helstu rökin eru að ekki megi skerða frjálsan samningsrétt. Sú virðing fyrir samningsfrelsi hefur þó ekki komið í veg fyrir að gengið hefur verið á gerða samninga með ógildingu samningsákvæða, bann verið sett á verkföll með ýmsu móti. Fróðlegt er fyrir launafólk að fylgjast með aðgangi og hótunum vinnuveitenda þessa dagana. Þar eru nú ekki hinar mjúku áherslur.

„Alvörustjórnmálamenn“ skella við skollaeyrum, í stað þess að leggja eyrun við og hlusta á þau skilaboð sem þjóðin er að reyna að koma til þeirra, skilaboð um breytta forgangsröð, breytt verðmætamat. Eða heyrist þeim þjóðin vera að biðja um ráðhús og þinghús, veitingastaði sem snúast og nú síðast 8000 manna íþróttahöll? Hvernig samræmast svona ákvarðanir kalli alvörustjórnmálamanna til fólksins um ábyrgð, sparnað og hóflegar kröfur? Hvernig samræmast þær ákallinu um samstillt átak til að rétta af atvinnulífið, efnahaginn, viðskiptahallann og ríkissjóð þegar það átak er aldrei launafólki í hag og það á sífellt að bíða betri tíma? Hversu lengi eiga t.d. konur að bíða eftir leiðréttingu sinna kjara? Hversu lengi eiga fjölskyldurnar að bíða?

Íslenskt efnahagslíf hefur með undarlegum hætti aðlagað sig því að greiða lægstu launin fyrir verðmætaskapandi störf, hráefnisvinnslu, umönnun og uppeldisstörf, menntunar- og menningarstörf. Það er eitthvað mikið bogið við þjóðfélag sem hefur hærri þjóðartekjur en flest önnur en treystir sér ekki til að borga mannsæmandi laun fyrir þessi störf. Það er hægt, því þótt góðærið margfræga sé riðið hjá garði er hallærið ekki riðið í garð. Það er hægt ef réttra leiða er leitað, ekki með síendurteknum upphlaupum og skammtímalausnum, bruðli, óhófi og hégómaskap, heldur langtímamarkmiðum og endurskipulagningu efnahags- og atvinnulífs með það að leiðarljósi að það eigi að taka mið af þörfum allra í landinu, ekki bara fárra, þeirra sterku.

Þannig leiða höfum við kvennalistakonur leitað og þegar bent á margar til úrbóta og við munum halda leitinni áfram því engin leið er endanleg. En við höfum ágæta reglu að leiðarljósi, sem er að taka í öllum ákvörðunum mið af kjörum kvenna og barna — kvenna vegna þess að þær búa við verstu kjörin jafnframt því sem þær bera mikla ábyrgð á velferð annarra í þjóðfélaginu og eru því vísar til að taka afstöðu til mála með velferð allra í huga, barna vegna þess að þar er lagður grunnurinn að framtíðarþjóðfélaginu.

Ef sá skilningur ríkir að efnahags- og atvinnulíf eigi að þjóna fólkinu, gera því kleift að auðga líf sitt í veraldlegum og andlegum skilningi, ef hver einasta aðgerð hefur þennan útgangspunkt, þá er þjóðin með, þá hlýðir hún kallinu og axlar ábyrgð og stendur óskipt að raunsæjum aðgerðum.