28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6970 í B-deild Alþingistíðinda. (4924)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Þingsköpin gera víst ekki ráð fyrir því að ríkisstjórn lýsi vantrausti á stjórnarandstöðu. Þess gerist heldur ekki þörf, málflutningur hennar dæmir sig sjálfur. Nokkur dæmi: Við launþega segir hún: Launin eru lág, þau þurfa að hækka. Við atvinnurekendur er sagt: Þið þurfið að fá meiri endurgreiðslu á sköttum, meiri millifærslur af almannafé. Við útflutningsgreinarnar er sagt: Þið þurfið gengisfellingu. Það er gengisfelling, það er kauplækkun. Við landsbyggðarfólk er sagt: Þið þurfið meiri framlög á fjárlögum til góðra hluta. Samt er þess hefnt á Alþingi sem hallaðist í héraði með málþófi vikum saman gegn nauðsynlegri tekjuöflun. Við ríkisstjórnina er sagt: Viðskiptahallinn er allt of hár — og farið vitlaust með tölur. M.ö.o.: Kaupmátturinn er of hár, neyslustigið er of hátt, það þarf að lækka kaupið. Þetta heitir að tala tungum tveim og segja sitt með hvorri. Kaupið er ýmist of hátt eða of lágt eftir því við hvorn er talað. Svona málflutningur dæmir sig sjálfur.

Við atvinnurekendur og talsmenn þeirra, sem nú láta hæst í fjölmiðlum um gengislækkunarkollsteypu sem allra meina bót á vanda útflutnings og landsbyggðar, vil ég segja þetta: Fellið þetta tal. Það er ábyrgðarlaust, það er hættulegt. Það getur gert illt verra með því að magna upp spákaupmennsku, gjaldeyrisbrask og innflutningsæði.

Það eru sex vikur frá því þessi ríkisstjórn greip til aðgerða til að rétta hlut útflutningsgreinanna. Víst hafa ytri skilyrði versnað síðan. Samt skulu menn varast að fara með ýkjur. Útflutningsverðmæti á fyrsta ársfjórðungi hefur hækkað um 10%. Útgerðin stendur í járnum en Þjóðhagsstofnun metur halla sjávarútvegsins í heild á bilinu 4–6%. Nýjustu tölur um viðskiptahalla benda til þess að hann fari lækkandi. Hér hefur hver maðurinn á fætur öðrum nefnt 20 milljarða. Í raun og veru er fyrsti ársfjórðungur á svipuðu róli og á fyrra ári þegar hann reyndist á árinu öllu 7 milljarðar. Þess er vert að geta að 6,7 milljarðar eru vextir af áður teknum lánum, arfur fortíðar.

Það er ekki nógu gott hjá atvinnurekendum að ljúka fjögurra ára góðæri með einu saman volæði. Að heimta að ríkið breyti leikreglum og svíki málm og mynt og launþegar færi einir fórnir, það þarfnast betri rökstuðnings. Þeir launþegar sem skildir voru eftir við veisluborð offjárfestingar og launaskriðs og nú eru fá leiðréttingu sinna mála báru ekki ábyrgð á erlendum lántökum, offjárfestingu, bruðli og sólund genginna góðærisára. Kannski stjórnarandstaðan sé haldin einhverri tímaskekkju. Ætlar hún kannski að bera fram vantraust á fyrrverandi ríkisstjórn eða á ríkisstjórnina þar á undan?

Ef versnandi ytri skilyrði krefjast þess að fórnir verði færðar þá skulu allir leggja fram sinn skerf, atvinnurekendur, ríkisvald í lækkun útgjalda og launþegar, en ekki launþegar einir.

Nokkrar spurningar: Hvernig væri að útgerðarmenn byrjuðu nú á því að freista þess að fresta að hluta til fjárfestingaráformum upp á 4 milljarða ef eiginfjárstaðan leyfir það ekki og horfurnar eru slæmar?

Hvernig væri að við hættum að undirbjóða sjálfa okkur með óheftum gámaútflutningi, t.d. með gjaldtöku sem rynni til fiskvinnslunnar? Gæti fiskvinnslan þá sparað sér t. d. 10% yfirborgun á fiskverði sem nú er viðtekin venja?

Hvernig væri að allur fiskur færi á uppboðsmarkaði innan lands og við réðum þannig framboði og eftirspurn en hinir erlendu kaupahéðnar bæru áhættu?

Þannig má lengi telja. M.ö.o., hvernig væri að forstjóraveldið gengi á undan með góðu fordæmi og seldi eitthvað af þeim 1500 lúxuskerrum sem þeir hafa keypt á kaupleigukjörum á undanförnu ári undir því yfirskini að þar færi vaxtarbroddur atvinnulífs? Eru nokkur sýnileg dæmi þess að lát sé á annáluðum flottræfilshætti í þrengingunum? Ég spyr: Áður en þeir koma með bakreikninginn um lækkun launa, vilja þeir lækka sín eigin laun? Hefur einhverjum laxveiðileyfum verið skilað upp á síðkastið?

Við fólkið í landinu, fiskverkakonuna, iðnverkamanninn, verslunar- og skrifstofufólkið sem enn er í verkfalli, kennarana og alla hina, vil ég segja þetta: Það er tekist á um það núna hvort launþegar einir eigi að borga brúsann eftir veisluhöld góðærisins eða hvort jafna beri byrðum eftir efnum og ástæðum. Ég segi það alveg skýrt: Krafan um hefðbundna gengiskollsteypu er krafa um kauplækkun. Þið þekkið þessa sorgarsögu úreltra stjórnmála af sjálfum ykkur. Ef þið hafið gleymt því er rétt að rifja það upp frá a til z hvað bara 15% gengisfelling þýðir. Hún þýðir þetta: Verðbólgan færi úr 13% eins og hún er núna, ekki í 7% í árslok, heldur yfir 50%.

Kaupmáttur launa mundi falla um 8% á árinu. 50% verðbólga þýðir hækkun vaxta og fjármagnskostnaðar, bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Viðskiptahallinn lækkar í mesta lagi um 1,5–2 milljarða við slíka aðgerð en erlendar skuldir okkar mundu hækka um 15 milljarða í íslenskum krónum og þar með afborganir vaxta af þeim sem eru nú þegar 6,7 milljarðar.

Önnur spurning: Vilja menn fórna tækifærinu til að afnema lánskjaravísitölu og lækka vexti með lækkandi verðbólgu? Er það í þágu fólks og fyrirtækja? Er nokkuð hinum megin fyrir handan kollsteypuna?

Við jafnaðarmenn svörum skýrt og afdráttarlaust: Ef versnandi ytri skilyrði hrekja okkur af leið ber að taka því eins og í annarri sjómennsku. En við viljum enga kúvendingu aftur í fortíðina. Við viljum fara nýjar leiðir sem horfa til framtíðar.

Um ríkisstjórnarsamstarfið vil ég segja þetta: Enginn verður með orðum veginn. Dæmið þessa ríkisstjórn af verkum hennar og þar er af nógu að taka. Við höfum á þessum meðgöngutíma, sem liðinn er, snúið milljarða hallarekstri ríkissjóðs í jöfnuð á hálfu ári. Samt sem áður er heildarskattheimta, skattbyrði almennings, hin þriðja lægsta meðal allra ríkja Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Árangurinn blasir við: Ríkisfjármál valda ekki lengur verðbólgu, enda fer hún ört lækkandi. Afkoma ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi er hálfum milljarði betri en áætlun gerði ráð fyrir, einkum vegna bættra skattskila. Við erum á réttri leið. Það hefði ekki tekist, hv. stjórnarandstæðingar, ef við hefðum ekki haft kjark til þess að koma á samræmdu söluskattskerfi, en við verjum nú þremur milljörðum kr. til þess að greiða niður verð hefðbundinna landbúnaðarafurða og við höfum afnumið tolla á innfluttum matvælum. Fjasið um matarskatt dæmir sig sjálft. Matarskatturinn, sem lagður er á heimilin í landinu, er kannski fyrst og fremst vaxtakostnaðurinn af offjárfestingunni í verslun, kringlunum þremur og hálfri sem byggðar hafa verið á sl. tveimur árum og jafnast á við 50 000 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Við takmörkuðum innstreymi erlends fjármagns og við hægðum þar með á verðbólguhraðanum. Við höfum á fáum mánuðum smíðað nýtt skilvirkt og réttlátara skattakerfi og við höfum þar með lagt traustan grundvöll að velferðarríki framtíðarinnar. Við vinnum jafnt og þétt að því að stórefla skattaeftirlit, en það er ekkert lögregluríki í uppsiglingu og hinar fjölmennu sveitir eftirlitsmanna eru bara í kollinum á prófessor Júlíusi Sólnes.

Við höfum komið upp staðgreiðslukerfi skatta, sem er áratuga gamalt baráttumál verkalýðshreyfingarinnar, og við hækkuðum mjög verulega skattleysismörk einstaklinga og fjölskyldna og höfum varið stórauknum fjármunum til útborgunar barnabóta til fjölskyldna undir meðaltekjum. Þegar saman er tekið hækkun skattfrelsismarka og útborgun barnabóta og fjölskyldubóta og hækkun almannatrygginga er ekki nokkur vafi á því, enda þær tölur borðleggjandi, að ráðstöfunarfé fjölskyldna eftir skatt undir meðallaunum hefur batnað við skattkerfisbreytinguna.

Við höfum náð árangri sem nú er að koma í ljós. Verðbólgan er á niðurleið og verður það áfram ef ytri skilyrði haldast í horfi. Viðskiptahallinn er minni en ráð var fyrir gert, fjárfestingaræðinu er að slota, útlánaþensla bankanna hefur hjaðnað, innstreymi erlends fjármagns hefur rénað, innflutningur er að minnka. Þannig mætti lengi telja. Á vanda atvinnuveganna verður tekið. En við munum ekki hrapa að því í óðagoti. Við ætlum ekki að skrifa upp á óendurskoðaða reikninga sem berast frá hagsmunaaðilum. Með jöfnuði í ríkisfjármálum, með aðhaldi í lánsfjármálum og með skattkerfisbreytingunni höfum við lagt grundvöll að stöðugleika í framtíðinni. Versnandi ytri skilyrði geta hrakið okkur eitthvað af leið en kúvending kemur ekki til greina.

Við fólkið á landsbyggðinni vil ég segja þetta: Vandinn í atvinnulífi landsbyggðarinnar á líðandi stund stafar af samdrætti í landbúnaði og úrvinnslugreinum hans og aðlögunarvanda sjávarútvegs og fiskvinnslu að harðnandi samkeppni við fiskiðnað grannþjóða. Þessi vandamál verða ekki leyst með upphrópunum eða „billegum patentlausnum“ eins og gengiskollsteypu sem allsherjarlausn. Þennan vanda verður að leysa í samvinnu forsvarsmanna fyrirtækja, ríkisstjórnar og launþega. Það tekur tíma. Við eigum að hafa í heiðri kjörorð fyrrv. leiðtoga Framsfl., Eysteins Jónssonar, sem sagði undir svipuðum kringumstæðum: „Við verðum að vinna okkur út úr þessum vanda.“

Við erum að upplifa breytingaskeið sem kallar á nýjar aðferðir og nýjar leiðir. Við stöndum frammi fyrir meiri háttar skipulagsbreytingum í íslensku atvinnulífi á næstu missirum og árum. Þær munu gerast mestan part eðlilega á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra. Leiðirnar eru margar. Það verður að minnka tilkostnað, það verður að auka sérhæfingu fyrirtækja, stækka fyrirtæki með samvinnu og samruna, nýta betur fjármagn, búnað og tæki, auka framleiðni. Til þess eru margar leiðir.

Við þurfum að hraða búháttabreytingunni í landbúnaðinum. Við höfum ekki efni á öðru. Við eigum að efna ákvæði stjórnarsáttmálans og nýlegra laga um fiskveiðistefnu um endurskoðun á núverandi kvótakerfi í smáum skrefum, hægt og rólega. Við eigum að fikra okkur smám saman yfir í sölu veiðileyfa. Markmiðið er að auka hagkvæmni í útgerð og fiskvinnslu, efla fyrirtækin, þétta byggðina, nýta auðlindasjóðinn til að styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni.

Lán úr Byggðasjóði á að skilyrða. Lánin verði veitt til fyrirtækja sem hafa fjárhagslegt bolmagn til að byggja sig upp og standa að endurgreiðslum. Það væri æskilegt að eigendur legðu fram aukið hlutafé. Þeir eiga líka að taka áhættu, ekki bara skattgreiðendur.

Við eigum að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og gera hlut landsbyggðarinnar meiri í stjórnsýslunni með samruna sveitarfélaga þótt einstaka skammsýnir menn hafi brugðið fæti fyrir það mál á þessu þingi.

Við þurfum að endurskipuleggja fjárfestingar- og lífeyrissjóði og vista þá í viðskiptabönkum á landsbyggðinni til að að efla fjárhagslega þjónustu þar við atvinnulífið. Við eigum að endurskoða reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Kaupleiguíbúðakerfið mun leysa brýnustu húsnæðisþörf landsbyggðarinnar á næstu árum. Við eigum að flytja vinnslustöðvar landbúnaðarins með skipulegum hætti í landbúnaðarhéruðin aftur. Við eigum að flytja ríkisstofnanir í auknum mæli á þéttbýlisstaði á landsbyggðinni.

Herra forseti. Þegar menn hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar skilst betur hvers vegna stjórnarandstöðuflokkarnir treystu sér ekki til þátttöku í ríkisstjórn þó eftir væri leitað. Stjórnarandstöðuna skorti traust á eigin hugmyndum og tillögum. Alþb. var upptekið af eigin innri vandamálum og er enn. Kvennalistann brast kjark til að hlýða kalli skyldunnar. Þeir sem ekki treysta sér sjálfir til verka geta ekki vænst þess að aðrir treysti þeim. Þar dugir ekki vinsældasamkeppni skoðanakannana að sinni. Menn verða að vinna fyrir traustinu með verkum sínum.

Þessi vantrauststillaga mun hins vegar þjappa stjórnarliðum saman og herða þá í þeim ásetningi að halda áfram markvissu umbótastarfi þrátt fyrir stundarerfiðleika.

Við jafnaðarmenn vil ég segja þetta: Við höfum í þessu stjórnarsamstarfi háð varnarbaráttu við erfið ytri skilyrði fyrir viðreisn velferðarríkis á Íslandi. Við munum ekki leggja árar í bát þótt á móti blási. Við eigum enn mikið verk að vinna.

Framkvæmd nýrrar löggjafar um kaupleiguíbúðir, sem mun leysa bráðasta húsnæðisvanda unga fólksins og landsbyggðarinnar, bíður okkar á þessu sumri. Næsta haust mætum við til þings með nýtt lagafrv. sem felur í sér heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu og fjármögnun þess. Í undirbúningi eru tillögur um samræmingu lífeyrissjóða og samræmingu lífeyrisréttinda. Undirbúningur heildarlöggjafar um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga bíður næsta þings.

Á næsta ári ljúkum við seinni áfanga heildarendurskoðunar skattakerfisins með lögfestingu virðisaukaskattsins vonandi nú og tillögum um skattlagningu fjármagns- og eignatekna í haust. Með næstu fjárlögum þurfum við að ná samstöðu um tillögur um aukna ráðdeild og sparnað í ríkisrekstri. Á grundvelli nýrra skattalaga munum við vinna jafnt og þétt að því að uppræta skattundandrátt og það félagslega misrétti sem því tengist.

Herra forseti. Það hvarflar ekki að okkur að leggja árar í bát þótt á móti blási. Við ætlum að ná landi heilu og höldnu, minnug fleygra orða Jóns Ólafssonar ritstjóra, sem sagði:

Að halda sitt strik, vera í hættunni stór og horfa ekki um öxl — það er mátinn.