28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6980 í B-deild Alþingistíðinda. (4927)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Við erum stödd á hinu háa Alþingi í kvöld til að ræða saman í áheyrn þjóðarinnar um það ástand sem nú blasir við í þjóðmálum. Við alþýðubandalagsmenn lítum það svo alvarlegum augum að við höfum ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum borið fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Hvað liggur að baki slíkum tillöguflutningi? Er þetta pólitískt áróðursbragð eða liggur annað og meira að baki honum? Væri okkur engin alvara hlyti næsta spurning að verða: Ber að taka stjórnmál og stjórnmálamenn alvarlega eða er Alþingi aðeins leikvangur hégómans? Kæmust menn að þeirri niðurstöðu að svo væri er illa komið fyrir þessari þjóð og ýmislegt sem hér hefur verið sagt í kvöld gæti svo sannarlega rennt stoðum undir þá niðurstöðu.

Hér hafa menn talað eins og þeir hafi lausn allra mála í hendi sér í nútíð og framtíð ef einhverjir aðrir tækju ekki fram fyrir hendur þeirra. Í málflutning þeirra vantar hins vegar átakanlega hvað þeir ætla að leysa. Það vantar nefnilega hugmyndina um hvernig það samfélag á að vera sem þeir vilja vinna að og fyrir hverja það samfélag á að vera. Sú hugmynd er forsenda alls þess starfs sem fram fer á hinu háa Alþingi og án hennar er það starf unnið fyrir gýg.

Þeir sem hafa mótað sér hugmynd að æskilegu samfélagi byggja hana á lífsviðhorfi sínu, siðferðiskennd sinni og skynsemi sinni. Stjórnmálastarf felst í því að komast eitthvað áleiðis að því marki sem menn sækjast eftir og um það takast menn á, um það hafa menn skipað sér í flokka til að vinna málstað sínum fylgi.

Flest fólk er sammála um að skynsamlegt sé að reka þjóðfélagið sameiginlega að verulegu leyti og til þess hefur það kosið sér fulltrúa, þ.e. okkur alþm. Það er því blekking að nokkur einstaklingur sem tekið hefur þátt í kosningum sé ópólitískur eins og menn státa oft af.

Með því að kjósa hefur einstaklingurinn tekið pólitíska afstöðu og ber því fulla ábyrgð á því samfélagi sem unnið er að hverju sinni. Það er ekki tilviljun að orðið „pólitík“ er alþjóðlegt orð yfir stjórnmál. Það dregur nafn sitt af gríska orðinu „polis“ sem þýddi borgríki. Stjórnmál eru það að reka þjóðríkið. Þess vegna ætti ekkert að vera fólki kærkomnara en að fá tækifæri til að hlýða á okkur ræða þau mál, sem alla óumdeilanlega varða, heilt kvöld í útvarpi og sjónvarpi.

Þeir Íslendingar sem sitja nú heima og nöldra yfir því hvað við séum leiðinleg og hefðu heldur kosið að horfa á eitthvert fólk úti í heimi veltast um í illskiljanlegu ástafari eða gera hvert öðru allt það til miska sem það framast má í stað þess að hlusta á hvað verið er að gera við eigin raunverulegt líf þeirra er að afsala sér þeim grundvallarmannréttindum að hafa áhrif á eigið líf og þá fyrst verður lífið leiðinlegt, svo leiðinlegt að ekki einu sinni leiðinlega fólkið í Dallas og Dynasty getur drepið þeim leiðindum á dreif.

En hvers vegna þykir fólki stjórnmálaumræða leiðinleg? Sennilega af því að hún fjallar um raunveruleikann og hann er ekki alltaf skemmtilegur. Íslenskur veruleiki er mörgum erfiður nú um stundir og það er ósatt sem hér hefur verið sagt um ástæður þess.

Íslendingar eru meðal ríkustu þjóða heims og afla meiri verðmæta en flestar þjóðir aðrar. Það er því hvorki siðferðilega rétt né skynsamlegt að skipta þessum auðæfum á þann hátt sem gert er. Þetta á fólk að fá að vita og það er rétt til að hlusta. Vita menn t.d. að fjárfesting í verslunarhúsnæði og skrifstofum var árið 1987 3,2 milljarðar eða 44% af því fjármagni sem varið var til byggingar íbúðarhúsnæðis? Árið 1985 var hlutfallið 34%, árið 1986 44% eins og nú. Af þessu sjá menn að hlutfall verslunarhúsnæðisins hækkar óðfluga.

Vissu verslunarmenn, sem nú standa í verkfalli, eða það fólk sem hvergi fær húsnæði um þessa 3,2 milljarða sem eytt var á síðasta ári í verslunar- og skrifstofuhúsnæði? Finnst því þetta eðlileg meðferð á fjármunum þjóðarinnar? Treystir það þessari ríkisstjórn eða vill það skrifa undir vantraust á hana? Svari hver fyrir sig. Vita menn að fjárfesting í fiskvinnslufyrirtækjum var 1,6 milljarðar árið 1987? Á sama tíma töldu menn sig ekki geta greitt fiskvinnslufólki mannsæmandi laun.

Áreiðanlega vissu menn ekki að tæpir 5 milljarðar fóru í fjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði og fiskvinnslufyrirtæki á sama tíma og 7,2 milljarðar fóru til byggingar íbúðarhúsnæðis sem fólk er að sligast undir eða missa aftur vegna þess að sameiginlegir sjóðir greiða tap fyrirtækjanna á óarðbærri fjárfestingu, en fólkið verður sjálft að standa undir lánaokrinu á húsnæðislánunum sínum.

E.t.v. segja þessar tölur fólki ekki mikið, en til samanburðar skulum við líta á samfélagsþjónustuliðina. Þá hættum við að tala um milljarða. Þar nægir að tala um milljónir.

Á þessu ári leggur ríkið fram 60 millj. til byggingar dagvistarstofnana, þjóðin sem eyddi 3,2 milljörðum á verslunarhúsnæði á síðasta ári. Til byggingar húsnæðis fyrir aldraða fara á þessu ári 160 millj. Til Framkvæmdasjóðs fatlaðra 180 millj. Til byggingar grunnskóla 335 millj. Til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva 656 millj. Þjóðin sem eyddi 3,2 milljörðum í verslunarhúsnæði árið 1987 ætlar að setja 1,4 milljarða í byggingu heilbrigðisstofnana, húsnæði fyrir aldraða og öryrkja, dagvistarstofnanir og grunnskóla samanlagt.

Vilja menn að þannig sé farið með fjármuni þjóðarinnar eða eru þeir tilbúnir að skrifa undir vantraust á þessa ríkisstjórn? Um það er verið að ræða hér í kvöld og menn verða að leggja á sig að hlusta. Þeir sem eru í húsnæðishraki, þeir sem draga ekki fram lífið á laununum sínum, fólk sem hvergi kemur börnunum sínum á dagvistarstofnun, fólk sem stendur uppi ráðalaust með fársjúk gamalmenni sem hvergi er rúm fyrir, þeir sem ekki fá sæmandi þjónustu fyrir fötluðu börnin sín, þeir sem eru í námi sem ekki er metið til lána, því síður til launa, þetta fólk er skyldugt til að hlusta. Það á að vita hvert peningarnir þess fara.

Þeir sem liggja andvaka út af næstu afborgun af íbúðinni sinni eiga að vita að 321 millj. fór til greiðslu lokaáfanga húss Seðlabankans. Innansleikjurnar urðu 321 millj., andvirði 100 íbúða af þeirri stærð sem sárast vantar handa unga fólkinu sem er að hefja heimilisrekstur, hæstv. fjmrh. Hér í Reykjavík ætla þau öfl sem þjóðmálum ráða að nota 2 milljarða í ráðhús og veitingahöll á hitaveitugeymunum. Treysta menn þessum stjórnmálaflokkum eða vantreysta þeir þeim? Við alþýðubandalagsmenn vantreystum þeim. Við vantreystum þeim vegna þess að þeir hafa enga mótaða hugmynd um það samfélag sem við viljum lifa í, í góðu og réttlátu samfélagi við annað fólk.

Við höfum áhyggjur af aðbúnaði barna í landinu sem eru ein heima stóran hluta dagsins án samneytis við fullorðið fólk. Við óttumst hver áhrif það hefur á tungutak þeirra og almenna velferð að vera falin eigin forsjá á allt of ungum aldri. Við höfum á tveimur þingum barist fyrir embætti umboðsmanns barna sem gæta skuli hagsmuna barna þessa lands. En aðeins hinir fullorðnu hafa fengið umboðsmann. Þeir sem geta sent inn skrifleg erindi sem á hefur reynt fyrir æðstu stofnunum þjóðfélagsins hafa fengið umboðsmann Alþingis í sína þjónustu. Börnin fá líklega engan umboðsmann á þessu þingi fremur en hinu síðasta. Þessi þriðjungur landsmanna, sem eru börn undir 15 ára aldri, eru annars flokks fólk.

Við höfum áhyggjur af hinum öldruðu sem búa við einmanaleika og umhirðuleysi. Við erum óttaslegin yfir skýrslum lækna um andlegt og líkamlegt heilbrigði þjóðarinnar sem líður fyrir fjárhagsáhyggjur og allt of langan vinnudag. Við höfum efni á að hafa þetta á annan veg. Við skelfumst ástandið í byggðum landsins þar sem fólk býr við fjárhagslegt, menningarlegt og félagslegt misrétti meðan sameiginlegum sjóðum landsmanna er sóað í óarðbærar fjárfestingar, bæði þar og hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Við berum ugg í brjósti um menningu þjóðarinnar. Ríkisútvarpið sem hefur borið uppi þjóðmenningu okkar um áratuga skeið á nú í vök að verjast. Við höfum flutt tillögur um eflingu Ríkisútvarpsins sem andsvar við erlendri lágkúru sem nú hellist yfir okkur og ekki síst börnin okkar sem eiga fárra annarra kosta völ til afþreyingar.

Við höfum barist gegn sköttum á mat og menningu og taumlausri vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. En við höfum ekki þingstyrk. Þið treystuð öðrum betur en okkur, góðir hlustendur.

Við alþýðubandalagsmenn höfum ekki ráð við öllu. Við erum ekki spámenn sem sjá inn í framtíðina í öllum atriðum. En við höfum tiltölulega ljósa hugmynd um hvernig samfélagi við viljum lifa í. Við þykjumst hafa þá siðferðiskennd til að bera að þola ekki það misrétti og ranglátu tekjuskiptingu sem viðgengst í þessu auðuga þjóðfélagi okkar. Við viljum lifa saman í réttlátu og heilbrigðu þjóðfélagi og skila landi og þjóð til komandi kynslóða þannig að til framfara geti talist, ekki aðeins af siðferðislegum ástæðum heldur teljum við það einnig skynsamlegt.

Menning er það að gera hluti vel, var sagt á ráðstefnu um íslenska menningu á síðasta ári. Við alþýðubandalagsmenn teljum að það sé bæði rangt og óskynsamlegt að gera hluti illa. Þess vegna vantreystum við þessari ríkisstjórn og það hljótið þið að gera líka, góðir landsmenn. Í okkar þjóðfélagi verða stjórnmál og stjórnmálamenn skemmtilegir og gagnlegir og enginn mun sakna Dallas eða Dynasty fyrir kvöldstund með okkur. Góðar nætur.