28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6983 í B-deild Alþingistíðinda. (4928)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég dreg á engan hátt úr því að við Íslendingar stöndum nú sem þjóð á vegamótum eins og oft áður. Það er einkenni okkar litla samfélags að vera viðkvæmt fyrir ytri sveiflum. Það er veikleiki okkar og um leið styrkur. Það hefur kennt okkur bjartsýni og eflt athafnaviljann í góðærinu. Það hefur þroskað með okkur skilning á því að harðæri til sjávarins verður ekki umflúið heldur þýðir það í mæltu máli að við verðum að fara okkur hægar. Við getum ekki í svipinn ráðist í að gera allt það sem við höfðum ætlað okkur og töldum okkur geta gert.

Að þessu leyti svipar hinu íslenska þjóðfélagi til náttúruaflanna. Það á að kenna okkur að hugsa sjálfstætt og draga ályktanir af því sem er að gerast í kringum okkur, að þjóðin, eins og einstaklingurinn, er sinnar gæfu smiður. Það er enginn vafi á því að þetta nábýli við náttúruna mótar mjög skaphöfn okkar Íslendinga, gerir okkur að einstaklingshyggjumönnum en hefur forðað okkur frá því að verða múgsálir. Ég hef stundum látið mér detta í hug að það sé þessi sérstaða okkar sem þjóðar sem á hvað ríkastan þáttinn í velgengni okkar Íslendinga.

Til þess að átta sig á þeim straumhvörfum sem nú eru í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að hverfa tvö ár aftur í tímann. Þorsteinn Pálsson hafði nýtekið við embætti fjmrh. og við fundum það undir eins að andrúmsloftið varð annað í þjóðfélaginu en áður. Skyndilega höfðu skapast skilyrði til að byggja upp gagnkvæmt trúnaðartraust milli verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og stjórnvalda sem gerði febrúarsamkomulagið mögulegt, en þar var áhersla lögð á eftirfarandi atriði:

1. Hækkun kaupmáttar lægstu launa.

2. Hjöðnun verðbólgu.

3. Stöðugleika í gjaldeyrismálum og aukið frjálsræði í viðskiptum, þar á meðal í vaxtamálum. Árangurinn lét ekki á sér standa. Góðærið sem á eftir kom nýttist okkur til fulls og fór út til þjóðarinnar með því að lífskjör allra í landinu bötnuðu meira en áður eru dæmi um í sögu okkar Íslendinga. Það er því algerlega rangt þegar því er haldið fram að þjóðin hafi ekki notið góðærisins með hærri rauntekjum.

Sannleikurinn er þvert á móti sá að við hljótum nú að velta því fyrir okkur þegar aftur kreppir að hvernig á því standi að viðnámsþróttur fyrirtækjanna skuli ekki vera meiri en hann sýnist vera.

Við hljótum að velta því fyrir okkur m.a. hvort ekki sé nauðsynlegt að grípa til aðgerða í skattamálum sem hafi það að markmiði að draga úr sveiflum í útflutningsgreinum.

Við hljótum að benda á að aukið frjálsræði í gjaldeyrismálum er til þess fallið að styrkja stöðu útflutningsfyrirtækjanna.

Þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða — og þær hef ég oft heyrt hér í kvöld — er ekki vafi á því að fyrir landsbyggðina er það sérstaklega þýðingarmikið að hér verði áfram rekin efnahagsstefna sem byggir á stöðugleika í gjaldeyrisviðskiptum og hjaðnandi verðbólgu. Sumir hafa viljað kalla þetta fastgengisstefnu og gert sér mat úr því að á s.l. hausti fór að síga á ógæfuhliðina hjá sjávarútveginum. Á þessum sömu mönnum er ekki annað að skilja en það eigi að vera áskapað okkur Íslendingum að búa við óðaverðbólgu og að jafnvægi í efnahags- og peningamálum sé af hinu illa.

Sannleikurinn er þvert á móti sá að sjávarútvegurinn gat lengi vel staðið undir vaxandi byrðum, meiri kaupmætti til þeirra sem við hann unnu auk þess sem þjónustugreinar sjávarútvegsins tóku meira til sín en áður. En þegar ytri skilyrðin breyttust til hins verra, aflabrögð drógust saman og verðfall varð á erlendum mörkuðum gat auðvitað ekki gengið að innlendu kostnaðarhækkanirnar héldu áfram sitt strik.

Þetta vitum við öll sem tökum þátt í þessum umræðum. Við skulum ekki smækka okkur með því að deila um það, heldur skulum við hugleiða hitt, hvernig við getum búið svo að útflutningsgreinum okkar, einkum sjávarútveginum, að þær geti staðið undir því þjóðfélagi menningar og velferðar sem við viljum lifa við hér í okkar litla landi.

Ég vona að mér leyfist að setja dæmið þannig upp þegar ég tala um sjávarútveginn, að hann sé milliliðurinn milli fisksins í sjónum og neytandans erlendis. Þessi milliliður er eins og aðrir milliliðir að því leyti að hlutverk hans er að ná sem hæstu verði erlendis borið saman við tilkostnað, í stuttu máli, ná upp verðinu en halda niðri kostnaðinum.

Við erum nú í þeim ógöngum að afkastageta fiskiskipastólsins er kannski 30% meiri en þörf er á. Við höfum náð samkomulagi um reglur sem eiga að koma í veg fyrir frekari stækkun flotans en heimila þó vissa endurnýjun. Ýmis byggðarlög úti á landi standa frammi fyrir erfiðleikum vegna hráefnisskorts sem ekki er hægt að bæta úr nema taka frá öðrum. Á sama tíma höfum við dæmið um hvernig hömlulaus og skipulagslaus útflutningur á ferskum fiski til Englands hefur skaðað hagsmuni okkar. Við höfum líka dæmið um það hvernig fyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa skilar hámarksafrakstri en selur þó ekki ugga óunninn úr landinu.

Við höfum nú tvö ár til að endurmeta fiskveiðistefnuna. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa það sterklega í huga hvernig unnt sé að samræma veiðar og vinnslu þannig að við sköpum sem mest verðmæti úr þeim afla sem dreginn verður að landi. Þessi skoðun mín er byggð á þeirri grundvallarhugsun að við Íslendingar eigum nú að endurmeta með hvaða hætti við getum gert sem mest verðmæti úr náttúrlegum auðlindum landsins. Ég horfi til fiskimiðanna og ég horfi til þeirrar orku sem rennur óbeisluð til sjávar eða rýkur upp í loftið. Ég hugsa til fiskeldis og ferðamannaþjónustu, til alls þess sem landið gefur af sér. Við sjálfstæðismenn höfum jafnan lagt áherslu á að heilbrigð byggðastefna geti ekki staðist nema vel rekin fyrirtæki skili arði þannig að festa sé í atvinnulífinu og fólkið finni sig öruggt. Sú efnahagsstefna sem fylgt hefur verið byggir á þessum forsendum.

Ég hef hins vegar heyrt það hér í kvöld að ýmsir hv. þm. stjórnarandstöðunnar segja að svo sé ekki. Þeir segja að atvinnufyrirtækin séu að stöðvast en halda því um leið fram að hægt sé að hækka launin verulega með lögum. Þetta er trúlegur málflutningur eða hitt þó heldur, enda vel við hæfi að formaður Alþb., Ólafur Ragnar Grímsson, skuli hafa riðið á vaðið í Morgunblaðinu í morgun. Hann hefur af mikilli reynslu af moða. Við munum eftir 1978. Þá voru vígorðin „Kosningar eru kjarabarátta“ og „Samningana í gildi“. Í vinstri stjórn sem á eftir kom fékk Alþb. sitt tækifæri til að skipa launum með lögum og gerði það líka, en ekki í eitt einasta skipti til hækkunar. En hins vegar 13, 14 eða 15 sinnum til lækkunar launa, til að rýra kaupmáttinn, ekki síst þeirra sem minnst máttu sín. Ég átti því ekki von á því að alþýðubandalagsmenn mundu aftur leggja upp með löggildingu lágmarkslauna í farteskinu. Þeim trúir ekki nokkur maður og allra síst þeir sem lægstu launin hafa.

Hitt liggur aftur fyrir að í síðustu kjarasamningum var frá því gengið að sérstök áhersla yrði lögð á hækkun lægstu launa. Það var yfirlýst markmið vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar. Eftir sem áður varð mjög mikið launaskrið ílandinu og ég hygg að við flestir Íslendingar séum sammála um að launamismunurinn sé of mikill hér á landi. Það byggist m.a. á því að hver ber sig saman við annan. Af því að verðbólguhugsunarhátturinn er rótgróinn í landinu er sterk tilhneiging til þess að slíkar víxlhækkanir innan þjónustugeirans skekki launamyndina í heild og gangi síðan út yfir þjóðfélagið allt. Það eru innlendar kostnaðarhækkanir af þessum toga sem okkur Íslendingum hefur gengið illa að hemja.

Nú get ég aftur á móti ekki sagt við alþm. Kvennalistans það sama og við alþm. Alþb.: Sporin hræða. En ég segi við þá í staðinn, ekki síst vegna velgengni þeirra í skoðanakönnunum undanfarið: Hvað er í pokanum? Hvers vegna opnið þið hann ekki og leyfið okkur að sjá ofan í hann úr því að þið þykist vita betur og hafa öll ráð í ykkar höndum?

Þórhildur Þorleifsdóttir sem hér talaði áðan talaði með mikilli fyrirlitningu um alvörustjórnmálamenn og hafði stóryrði um illar hvatir þeirra manna sem nú eiga sæti í ríkisstjórn og þeirra manna sem henni fylgja að málum. Hún minntist lauslega á lagafrv. Kvennalistans um lágmarkslaun en forðaðist eins og heitan eldinn að segja hvernig það væri hugsað. Hún svaraði ekki spurningum eins og þessum: Hver á að vera hlutur fiskverkakonunnar borið saman við kennarann? Hver er hlutur læknisins borið saman við sjúkraliðann? Hver er hlutur leikstjórans borið saman við sjómanninn?

Það dugir ekki að láta eins og þessum spurningum þurfi ekki að svara. Kvennalistinn verður krafinn um svör, ekki endilega í kvöld. Ég ætlast ekki til þess að þm. Kvennalistans hafi hugsað þessi atriði öll út í hörgul svo þau liggi fyrir nú. En ég ætlast til hins, að þegar Alþingi kemur saman í haust — ég tala nú ekki um fyrir næstu kosningar — hafi alþm. Kvennalistans opnað pokann sinn og sýnt kjósendum ofan í hann. Það gengur ekki að flokkur, sem mesta fylgið hefur í skoðanakönnunum og hrósaði sér af því fyrir síðustu kosningar að hann ætlaði að gera hreint hjá gömlu flokkunum, ætli sér nú að komast upp með að gera ekki hreint fyrir sínum eigin dyrum.