28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6989 í B-deild Alþingistíðinda. (4930)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Oft hefur syrt í álinn um hagstjórn hér á landi þó að sjaldan hafi horfur verið jafnhrikalegar sem nú. Hæstv. fjmrh. lætur gjarnan að því liggja að meginástæðan sé illur arfur frá fyrri ríkisstjórn. Að vísu er það rétt að ýmislegt gerðist á s.l. ári sem jók mjög á þenslu sem og verðbólgu og stefndi árangri af fastgengisstefnunni í tvísýnu svo að ekki sé meira sagt. Ríkissjóður var þá rekinn með halla, erlendar lántökur heimilaðar ótæpilega og kynt undir botnlausri spennu á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með algeru aðhaldsleysi á peningamarkaði og tilheyrandi launaskriði.

En minnumst þess hvaða stjórnmálaöfl báru öðrum fremur ábyrgð á því ástandi sem hér um ræðir. Ríkisstjórnin missti meiri hlutann í kosningunum, en var engu að síður endurreist með tilstyrk Alþfl.

Það sem síðan hefur helst á dagana drifið er þetta: Aukin skattheimta þegar á s.l. sumri sem enn frekar var fylgt eftir við fjárlagaafgreiðsluna um áramótin. Þar ber matarskattinn hæst. Eitthvert ranglátasta tiltæki til óþurftar þeim efnaminnstu sem sögur fara af, enda pólitískt slys, segja jafnvel stjórnarsinnar í hálfum hljóðum.

Að þessum skattkerfis- og tollabreytingum slepptum auk framlengingar fiskveiðikvótans liggur harla lítið eftir af starfi ríkisstjórnarinnar, enda þótt þingmeirihlutinn ætti að vera nægur. Hvorki hefur hún hreyft hönd né fót til að reisa rönd við byggðaröskuninni sem verður æ ískyggilegri með hverjum mánuði sem líður. Tillöguflutningur af hálfu stjórnarandstöðu er ýmist svæfður ellegar gerður tortryggilegur eða beinlínis snúist gegn honum. Ég minni t.d. á tillögur Borgaraflokksins í húsnæðismálum, málefnum hinna lægst launuðu og landsbyggðarinnar.

Hagsmunir landsbyggðarinnar og útflutningsatvinnuveganna fara að flestu leyti saman. Þráhyggjan í útfærslu fastgengisstefnunnar bitnar hart á öllum undirstöðuatvinnugreinunum. Engu er líkara en almættið við Arnarhól ætli að knýja fram algera breytingu á atvinnuháttum og byggð í landinu með þessum þremur tækjum í hendi sér, duglausri og sundurþykkri ríkisstjórn, lánskjaravísitölunni og blýföstu gengi. Einu virðist gilda þótt áhrifin á landsbyggðina komi fram sem sviðin jörð með sársauka og eignaupptöku.

Verðlagning peninga og vaxtaókjör eru hér einnig verulegur hluti máls. En svo langt er gengið að jafnvel sumum ráðherrunum blöskrar ástandið og taka á þann veg undir vantraustið. Fróðlegt er þannig að lesa vitnisburð hæstv. sjútvrh. um ástandið í dag er hann metur stöðu útflutningsatvinnuveganna í skjóli hornsteins stjórnarstefnunnar um fast gengi. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir skynsamir menn hljóta að sjá að slík þróun getur ekki gengið lengur. Er nú svo komið að flestöll fyrirtæki í fiskvinnslu standa frammi fyrir stöðvun næstu vikurnar. Slík þróun mundi að lokum leiða til gjaldþrots fyrirtækja um land allt, meira atvinnuleysis en við höfum áður kynnst. Ýmsir virðast aðhyllast þá kenningu að slík staða verði að koma upp til þess að augu þjóðarinnar opnist og skilningur myndist fyrir því sem gera þarf.“

Þetta segir ráðherrann þegar hann lítur yfir sviðið í hópi flokkssystkina eftir 17 ára stjórnarsetu flokks síns. Ég vek sérstaka athygli hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. á því að hér er ekki um nöldur stjórnarandstöðu að ræða. Hér talar samstarfsmaður ykkar í þessari ríkisstjórn um ástandið í dag.

Við hæstv. menntmrh. vildi ég gjarnan segja: Dæmisaga um frosk, ref eða forarvilpu dugar ekki í stöðu sem hér er um að tefla. Málin eru alvarlegri en svo. En hún er nöpur, þessi hótun sem felst í áburðinum um skilningsskort hjá þjóðinni. Trúa mín er sú að almenning hér á landi hafi ekki skort skilning á skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar. Hins vegar tel ég að skattmeistararnir uppskeri nú ávöxt elju sinnar eða réttara sagt iðju sinnar í hinum illvígu vinnudeilum víða um land.

Íslendingum er vissulega mikill vandi á höndum á þessum vordægrum, enda þótt landgæðin séu óvíða betri, þjóðin vel menntuð og flestar ytri aðstæður sæmilega viðunandi. Það skortir þó eitt á sem síst skyldi í lýðræðisþjóðfélagi — samstæða og styrka ríkisstjórn. Það er einmitt þess vegna sem þessi till. til þál. um vantraust er flutt.

Vitaskuld getur 22 þm. stjórnarandstaða ekki vænst þess að fella stjórnina nema hún springi innan frá, sem gerist að vísu nánast daglega í hverju málinu á fætur öðru. Engu að síður er það skylda stjórnarandstöðu á hverjum tíma að gegna hlutverki sínu af heilindum og gagnrýna af festu. Stjórnarandstaðan stóð saman sem órofa heild gegn skattránsstefnunni eins og hún var fram knúin um áramótin. Þar lét Borgaraflokkurinn sinn hlut ekki eftir liggja. Ef hægar hefði verið farið í sakir af stjórnvalda hálfu þá væri e.t.v. margt auðveldara viðfangs í dag en raun er á.

En það sem mest áhyggjuefni er um störf þessarar hæstv. ríkisstjórnar er sundurlyndið og óheilindin sem virðast ríkja í þeim ranni. Jafnvel barnaleg afbrýðisemi út af smæstu atriðum sem minnstu skipta eitrar þar andrúmsloft og verður að fjölmiðlafári um fánýtið eitt. Ríkisstjórn sem lætur slíkt henda sig skortir burði til að veita þá forustu sem bæði þingi og þjóð er á nauðsyn. En verst er þó það viðhorf ríkisstjórnarinnar að þola ekki þingið að störfum þegar helst þarf á því að halda. Slík ríkisstjórn verðskuldar vissulega vantraustið eitt.