28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6991 í B-deild Alþingistíðinda. (4931)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Stjórnmál eru og eiga að vera eðlilegur þáttur í lífi hvers einstaklings. Fólk skipar sér í flokka eftir pólitískum skoðunum og raunar er það að vera pólitískur ekki annað en hafa skoðun. Okkur getur svo greint á um það hvernig eigi að stjórna þessu þjóðfélagi okkar, þ.e. að svo miklu leyti sem því er stjórnað af Alþingi og ríkisstjórn.

Sú ríkisstjórn sem nú situr er sérstök að því leyti að að henni standa þrír stærstu stjórnmálaflokkarnir. Ríkisstjórnin hefur því sterkan meiri hluta hér á hinu háa Alþingi og getur þess vegna og vill taka á þeim erfiðleikum sem við blasa í íslensku þjóðfélagi. Staðreyndin er sú að það er ekki til nein einföld leið, enda hafa þeir hv. stjórnarandstöðuþingmenn sem hér hafa talað í kvöld ekki notað tíma sinn til að benda á leiðir út úr vandanum, eins og maður hlýtur að gera kröfu til af flokkum sem bera upp vantraust á þá ríkisstjórn sem situr að völdum. Þjóðin hlýtur að vilja vita á hvern hátt þeir hefðu brugðist við. Það er nefnilega svo auðvelt að hrópa: Úlfur! úlfur!

Við framsóknarmenn höfum á fundi okkar nýlega rætt ítarlega um stjórnmálaástandið. Þar komu í ljós miklar áhyggjur af stöðu efnahagsmála og byggðaþróun sem raunar eru mjög tengdir þættir í þessu þjóðfélagi. Landsbyggðarfólk gerir sér betur grein fyrir mikilvægi þess að undirstöðuatvinnuvegirnir hafi rekstrargrundvöll þar sem það er í nánari tengslum við þá. Þó að ég segi þetta leyfi ég mér ekki að halda því fram að nokkur hugsandi Íslendingur skilji ekki mikilvægi þess að framleiða í landinu, skapa atvinnu og afla gjaldeyris.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar mótaði þá mikilvægu stefnu í landbúnaðarmálum að komast út úr offramleiðsluvandanum en nýta það fjármagn sem skapaðist með minnkandi útflutningsbótum til að byggja upp nýja atvinnustarfsemi í sveitum. Mikil áhersla hefur verið lögð á loðdýraræktina, en því miður á refarækt í miklum erfiðleikum nú. Þeir erfiðleikar eru fyrst og fremst til komnir vegna verðlækkunar á heimsmarkaði en ekki vegna þess að íslenskir refabændur kunni ekki sitt fag. Stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til aðstoðar þessari nýju atvinnugrein sem beinist sérstaklega að fóðurstöðvum.

Í stuttu máli má segja að stefni í jafnvægi í framleiðslu á hefðbundnum landbúnaði, en skipulagningar er þörf hvað snertir afurðastöðvar. Þær voru margar hverjar byggðar upp á þeim tíma þegar gert var ráð fyrir áframhaldandi aukningu í framleiðslu og þar af leiðandi er nýting fjárfestingar ekki sem skyldi. Þetta ásamt fleiru, m.a. breyttu fyrirkomulagi með nýjum búvörulögum, hefur gert það að verkum að þessi starfsemi hefur átt í erfiðleikum sem ásamt samdrætti í dreifbýlisverslun bitnar hvað mest á kaupfélögunum. Ég hef miklar áhyggjur af þeirri stöðu þar sem hún er nátengd byggðaþróun í landinu.

Hvað snertir verslun í dreifbýli, þá ber fólkið þar mikla ábyrgð og hefur síðasta orðið um það hvort það vill hafa verslun í sinni heimabyggð. Það er háð því að það beini viðskiptum sínum þangað.

Ég hef fjallað nokkuð um erfiðleika landsbyggðarinnar. Við skulum þó varast að líta svo á og álykta að grasið sé alltaf grænna hinum megin við lækinn. Við höfum á landsbyggðinni ákaflega margt sem gefur lífinu gildi og tekur öðru fram sem fljótt á litið virðist glóa. Týnum því ekki meðan við veltum okkur upp úr vandanum. Það gæti verið að við fyndum það ekki aftur þegar vandamálin hafa verið leyst.

Hér hefur í kvöld verið rætt um mikinn viðskiptahalla og undir það skal tekið af minni hálfu. Við getum ekki haldið áfram að eyða svo stórkostlega um efni fram. En hvaða leiðir hefur stjórnarandstaðan, þeir sem tækju væntanlega við ef vantraust yrði samþykkt, bent á? Svarið er: Engar.

Viðskiptahallinn er of mikill. En skyldi ekki geta átt við um hann eins og fleira sem er ofarlega á baugi í umræðum manna á meðal: Orð og athafnir haldast ekki í hendur. Hvað eru t.d. margir af innkaupastjórum heimilanna sem velja íslenskt vegna þess að með því séu þeir að spara gjaldeyri og skapa atvinnu? Við Íslendingar erum eyðsluþjóð. Við vöndumst því á meðan verðbólgan var sem mest og tíðar gengisfellingar að kaupa helst ekki seinna en í gær og af því höfum við átt erfitt með að venja okkur þrátt fyrir það að besta ávöxtun í heimi sé sennilega verðtryggða íslenska krónan geymd í banka. En gallinn á þessari ágætu krónu er sá að hún er of dýr fyrir atvinnulífið.

Íslenska þjóðin getur ekki lifað á því að braska með krónuna — það sem áður var kallað að stunda okurstarfsemi. Það verður að koma lögum yfir þá starfsemi, enda er að því stefnt.

Hæstv. forseti. Mér finnst það nánast tímasóun í því mikla annríki sem nú er hér á þinginu að ræða þessa vantrauststillögu, ekki vegna þess að allt sé í lagi heldur vegna þess hve lítið stjórnarandstaðan hefur lagt til málanna. Dettur einhverjum í hug að Alþb., þar sem ástandið fer síversnandi, Kvennalistinn, sem sinnir bara ákveðnum málaflokkum, Borgarafl., sem er óskráð blað og nær því sennilega ekki að verða skráð, muni á farsælan hátt leiða okkur út úr vandanum? Hæstv. forseti. Ég held ekki.