09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

76. mál, skógrækt á Fljótsdalshéraði

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil sem 2. flm. þessa máls þakka hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur fyrir hennar orð og stuðning við þetta mál. Hún vísaði til þess að átak af því tagi sem hér er verið að leggja til þyrfti að gerast víðar en eingöngu á Fljótsdalshéraði og ég tek alveg undir það að þó að við tökum það hér út úr, þm. Austurlands þrír, er það ekki vegna þess að við teljum ekki að það þurfi að sinna skógrækt víðar og skógvernd. Sannarlega er þörf á því.

Hv. þm. Jón Kristjánsson gerði svo glögga grein fyrir þessu máli hér í framsögu að ég hef litlu þar við að bæta. Ég vil þó árétta að þörfin á því að stutt verði við mál af þessu tagi er sérstaklega brýn í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á búháttum í landinu og á þessu tiltekna svæði, Fljótsdalshéraði innanverðu, þar sem er nú kjörið tækifæri til að gera átak í þessum efnum. Það væru meiri háttar mistök ef ekki yrði greitt fyrir því að það landsvæði sem við vísum hér til, sem er mikill hluti Héraðsins austan fljóts, ofan Egilsstaða, að Skriðdal þó undanteknum, yrði tekið undir skógrækt að verulegu leyti. Girðingarkostnaður er sem kunnugt er mikill upphafskostnaður í sambandi við friðun lands og nú er tækifæri til að friða þarna stórt landsvæði, að sjálfsögðu í samvinnu við landeigendur, þá bændur sem eru að leggja niður tímabundið sauðfjárbúskap og eru áreiðanlega mjög opnir fyrir því að taka stórt á í þessum efnum og horfa til skógræktar sem framtíðarbúgreinar ef stutt er við það með eðlilegum hætti.

Skógrækt sem atvinnurekstur verður ekki stunduð nema honum séu búin góð skilyrði. Ávöxtunin af þeirri fjárfestingu kemur ekki fyrr en að alllöngum tíma liðnum. En tilraunirnar að Hallormsstað með nytjaviði sanna það ótvírætt og sú reynsla sem þar er fengin á þessari öld að þar er ekki verið að kasta neinu á glæ. Þarna eru raunhæfir möguleikar til nytjaskógræktar.

Hinn þátturinn, sem er í b-lið þessarar till., um viðhald og hirðingu skóglendis, er tímabær að okkar mati. Ég bendi alveg sérstaklega á að þetta svæði er eitt hið veðursælasta á Íslandi, ekki síst sumarveðrátta, eftirsótt af sumarferðamönnum og þar er nú þegar til staðar eftirsókn til útivistarnota, bæði byggingar orlofshúsa og einkasumarbústaða, og það er sjálfsagt að greiða fyrir því að almenningur geti notið þeirra hagstæðu skilyrða til útivistar sem þarna er að finna og þar skiptir skóglendið sannarlega miklu máli.

Það er ljóst að ekki er unnt að ætla sér að grisja birkiskógana í heild sinni eða hirða þá þannig að þeir verði ræktaðir upp sem grisjaðir skógar þó að sjálfsagt sé að gera tilraunir með slíkt, en þó ekki væri nema greiða götu fólks um slík skóglendi með gangstígum, með því að höggva og leggja gangstíga um skóglendi og leyfa því að vaxa í náttúrlegu horfi að öðru leyti er það til mikilla bóta og til mikils unaðar fyrir þá sem geta notið þess og farið um slík svæði.

C-liður till. er, eins og flm. nefndi hér, gamall kunningi á Alþingi því miður. Það er langt síðan fluttar voru tillögur um að flytja höfuðstöðvar þessa þáttar austur á Hérað, en enn hefur ekki orðið úr aðgerðum. Öll viðleitni í þá átt er góðra gjalda verð þó í áföngum sé og því minnum við á þetta enn í okkar till.

Minnt var á það af hv. þm. Jóni Kristjánssyni að niður er felldur skv. fjárlagafrv. stuðningur við skógræktaráætlun í Fljótsdal. Það er sannarlega miður farið og ég vænti þess að leiðrétting fáist á því við þá vinnu sem nú fer fram í fjvn. Alþingis. Hins vil ég þó geta, sem gott er og er tengt skógræktinni, að skv. fjárlagafrv. fær Skógrækt ríkisins skárri meðferð og jafnvel betri en hægt er að segja um marga þætti í sambandi við fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar. Meðalhækkun til skógræktarstarfsemi skv. frv. er um 56%. Það er að vísu prósentuhækkun sem að nokkru leyti skýrist á niðurskurði liðinna ára, þá er hægt að hækka með minni tilkostnaði í prósentum reiknað, en þetta er þó gert samkvæmt áætlun sem unnin hefur verið á vegum Skógræktarinnar og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og það er góðra gjalda vert og við væntum þess að þessi þáttur, sem snýr að skógrækt í Fljótsdal og stuðningi við skógrækt á vegum bænda þar, fái endurskoðun og jákvæða meðferð við afgreiðslu fjárlaga.