29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7003 í B-deild Alþingistíðinda. (4945)

391. mál, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. sem segja má að sé eins konar fylgifrv. frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands sem kemur til umræðu síðar á þessum fundi. Þetta er frv. til l. um starfsemi Rannsóknastofnunar á sviði uppeldis- og menntamála, en áður voru ákvæði um það og eru raunar nú í lögum um Kennaraháskóla Íslands, þeim sem nú eru í gildi.

Menntmn. hv. Ed. hefur fjallað um frv. og fengið til viðræðna Gerði Óskarsdóttur kennslustjóra, Ólaf Proppé, lektor úr Kennaraháskóla Íslands, Sólrúnu Jensdóttur, deildarstjóra í menntmrn., og frá Háskóla Íslands Andra Ísaksson prófessor, Þórólf Þórlindsson prófessor og Jón Torfa Jónasson lektor.

Þá barst nefndinni mikill fjöldi umsagna um þetta mál. Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv. með tveimur brtt. sem fluttar eru á þskj. 915.

Sú fyrri er við 4. gr. og er mjög einföld og auðskýrð, þ.e. að yfirmaður þessarar stofnunar heitir forstöðumaður en ekki forstjóri eins og kveðið var á um í frv. eins og það kom til nefndarinnar. Um þetta var eining í nefndinni.

Hin brtt., sem nefndin leggur til að samþykkt verði, er að við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða: „Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skulu við fyrstu skipun í

stjórn Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála tveir af þeim sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningu skipaðir til tveggja ára samkvæmt nánari ákvörðun menntmrh.“

Þessi brtt. felur í sér að hún tryggir að ekki er á fjögurra ára fresti hugsanlegt að það skipti um alla stjórnarmenn stofnunarinnar þannig að skipunartímabilin skarist þannig að tryggt sé að alltaf séu einhverjir í stjórn stofnunarinnar sem þar hafa setið áður ef frá er skilið fyrsta skipti sem skipað er.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Menntmn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir.