29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7011 í B-deild Alþingistíðinda. (4954)

466. mál, ferðamál

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta frv. um breytingu á lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins gagnrýndi ég tvö atriði aðallega: annars vegar hver ætti forkaupsrétt að fyrirtækinu og hins vegar að aðeins skyldi vera gert ráð fyrir að seldir yrðu 2/3 hlutar fyrirtækisins. Í nál. hv. samgn. er fallist á hina fyrrgreindu athugasemd og gerð sú ábending til ráðherra að öðru en föstu starfsfólki yrði gefinn kostur á að eignast hlut í hinu nýja fyrirtæki.

Þar sem ekki er gerð brtt. í samræmi við síðargreindu athugasemdina, að fyrirtækið verði allt selt, hef ég lagt fram till. á þskj. 938 þess efnis. Í mínum huga er það fáránlegt þegar á annað borð er verið að selja eigur ríkisins að það megi ekki selja allan hlutann. Ég á erfitt með að skilja rökin sem þar eru að baki.

Allt önnur sjónarmið væru að baki ef verið væri að koma á fót nýju fyrirtæki og vantaði fjármagn. Ef í slíku fyrirtæki fælist nýsköpun fyndist mér sjálfsagt að ríkið legði fram fjármagn og ætti hlut í því fyrirtæki. Allt öðru máli gegnir þegar um gamalt eða gróið fyrirtæki er að ræða og þar sem engin þörf er á að ríkið eigi hlut. Í slíku fyrirtæki er ríkið aðeins dragbítur.

Þá má velta því fyrir sér hvað ríkið hefur að gera við 1/3 hluta og þar af leiðandi minni hluta. Fær það einhverju ráðið og er eðlilegt að það taki ákvörðun með einum hópi sem gæti myndast á móti öðrum?

Ég verð að segja að mér finnst furðu sæta að ráðherra Sjálfstfl. skuli bera fram frv. af þessu fagi, flokkur sem vill takmarka ríkisumsvif og sem barist hefur á móti því að ríkið eigi minni hluta í fyrirtækjum.