29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7016 í B-deild Alþingistíðinda. (4958)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mál þetta var rætt í fjh.- og viðskn. Á fund nefndarinnar komu Halldór V. Sigurðsson ríkisendurskoðandi og Jónatan Sveinsson hæstaréttarlögmaður, sem er ráðgefandi fyrir Ríkisendurskoðun, og gerðu grein fyrir sjónarmiðum Ríkisendurskoðunar sem eru í stuttu máli þau að hún telur sér nauðsynlegt að fá fyllri heimildir í lögum til að geta með eðlilegum hætti unnið að endurskoðun á reikningsgerð á hendur ríkinu eða ríkisstofnunum fyrir vinnu eða þjónustu sem greiðsluskyld er að öllu leyti eða verulegum hluta úr ríkissjóði á grundvelli laga, verksamninga eða gjaldskrársamninga við einstaklinga, félög eða stofnanir til að sannreyna efni innsendra reikninga og greiðsluskyldu ríkissjóðs.

Þessi heimild er takmörkuð, eins og þar stendur, með þeim hætti að viðkomandi aðilum er gerð grein fyrir því að Ríkisendurskoðun hafi ekki áhuga á öðrum gögnum í viðkomandi fyrirtæki en varða þá reikninga sem fram eru lagðir. Er þetta m.a. gert til þess að Ríkisendurskoðun geti framkvæmt reglulegt eftirlit með reikningsgerð undir slíkum kringumstæðum en þurfi ekki að leita til Rannsóknarlögreglu eða dómstóla ef álitamál þyki koma upp heldur sé hægt að ganga frá málinu með eðlilegum hætti og án þess að það þurfi að vekja óþarfa athygli eða grunsemdir þegar bókhaldsgögn eru með eðlilegum hætti og reikningur í samræmi við þá vinnu og þau útgjöld sem viðkomandi verk gefur tilefni til.

Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að þetta sé eðlilegt, m.a. með hliðsjón af því að Ríkisendurskoðun er nú beint undir Alþingi og það er því eðlilegt að Alþingi fái nauðsynlegar heimildir til þess að fylgjast með því að þau verk sem njóta sérstakrar lagaverndar fyrir endurgreiðslu séu undir eðlilegu eftirliti Ríkisendurskoðunar.

Meiri hl. nefndarinnar mælir því með að frv. verði samþykkt óbreytt og getur ekki fallist á að í frv. sé um það að ræða að of langt sé gengið eða um óeðlileg afskipti ríkisvaldsins af fjárreiðum einstaklinga sé að ræða.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, tel raunar að þetta sé sjálfsagt mál.