29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7019 í B-deild Alþingistíðinda. (4962)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins fá að blanda mér í umræðurnar vegna þeirra orða sem hér hafa fallið. Það er mikilvægt að rifja upp í þessu sambandi að Ríkisendurskoðun var ætlað að styrkja aðskilnaðinn milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Með lögunum um Ríkisendurskoðun er í reynd verið að styrkja mjög stöðu Alþingis í þjóðfélaginu og auka eftirlitsskyldur Alþingis og hér er um mjög mikilvæga breytingu að ræða í okkar þjóðfélagi. Það var ávallt gert ráð fyrir því, a.m.k. var það svo þegar ég kom nálægt þessu máli fyrir rúmum tíu árum og kynnti mér skipan þessara mála í mörgum löndum, að Ríkisendurskoðun gæti haft aðgang að öllum gögnum er varða greiðslur ríkisins til annarra aðila. Það hefur ekkert með að gera lögregluríki. Það er þvert á móti verið að styrkja stöðu þingræðisins og með eindæmum að hv. þm. Júlíus Sólnes, þingmaður Borgarafl., skuli tala um lögregluríki í þessu sambandi þegar sett hafa verið hér merk lög til að styrkja stöðu þingræðisins. Það hefur hins vegar komið upp að hér hefur ekki verið nægilega vel gengið frá málum, eins og oft vill verða þegar ný lög eru sett og nýjungar teknar upp, og það þarf að verða breyting á.

Það hefur komið fram í þessu sambandi að læknar telja að með þessu sé verið að rjúfa þeirra þagnarskyldu. Ég tel að þetta sé algerlega rangt vegna þess að það er ekki verið að ræða um að viðkomandi eftirlitsmenn hafi aðgang að öllum upplýsingum sem liggja fyrir um viðkomandi sjúkling heldur eingöngu fjárhagsatriði málsins. Ég bendi einnig á að þessir menn eru opinberir sýslunarmenn og þeir eru bundnir þagnarskyldu og brot á þeirri þagnarskyldu geta varðað allt að nokkurra ára fangelsi.

Það er alger misskilningur þegar læknar koma fram á sjónarsviðið og halda því fram að þeir séu einu mennirnir í heiminum sem séu bundnir þagnarskyldu. Það er að sjálfsögðu fjöldi annarra stétta sem ekki er síður nauðsyn á að séu bundnar trúnaði og er treystandi fyrir þeim trúnaði. Ég tel að hér sé því um mikinn misskilning að ræða og væri að sjálfsögðu líka athugunarefni með hvaða hætti slík þagnarskylda er þá tryggð á sjúkrahúsum landsins. Er alveg öruggt að enginn annar hafi aðgang að skjölum sjúklinga en aðili sem hefur læknispróf? Er hægt að tryggja að svo sé? Ég hef miklar efasemdir um það.

Ég styð þetta frv. eindregið, tel mjög nauðsynlegt að það verði afgreitt á þessu þingi þannig að það liggi alveg fyrir hverjar heimildir Ríkisendurskoðunar eru í þessu sambandi fyrir hönd Alþingis. Það má ekki henda að Ríkisendurskoðun geti ekki sinnt nauðsynlegu eftirlitshlutverki því hér er ekki um neinar smáfjárhæðir að ræða. Hér eru miklir fjármunir í húfi og það er mikið atriði fyrir Alþingi að fylgst sé sem best með þeim málum. Og ég vil endurtaka undrun mína á að menn skuli fara að rugla með lögregluríki í því sambandi.