29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7022 í B-deild Alþingistíðinda. (4964)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þessi umræða kemur mér svolítið á óvart vegna þess að hér er eingöngu rætt um þá breytingu sem hér er verið að gera eins og það sé mál sem snýr að læknum einum. Hér er verið að afla almennrar heimildar, auka nokkuð heimildir Ríkisendurskoðunar frá því sem verið hefur vegna þess að það kom í ljós á einu tilteknu sviði að þar brast heimildir. En hér er um almenna heimild að ræða og það vil ég undirstrika og það kom mjög skýrt fram hjá ríkisendurskoðanda og lögmanni Ríkisendurskoðunar sem komu á fund nefndarinnar.

Ég hafði raunar ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umræðum, en get ekki orða bundist þegar ég heyri hv, þm. Júlíus Sólnes taka svo til orða að með flutningi þessa frv. um stofnun Alþingis Íslendinga, Ríkisendurskoðunina, „stefni í eitt allsherjar lögregluríki.“ Á hvaða stigi eru umræður eiginlega þegar hv. þm. taka þannig til orða? Þær er á mjög lágu stigi.

Hér er um að ræða stofnun Alþingis og það var mikið þarfaverk, að ég hygg, og styrkir stöðu þingsins í þjóðfélaginu þegar Ríkisendurskoðun varð stofnun Alþingis. Það var mikið þarfaverk og hefði kannski þurft að gerast fyrr. Alþingi hefur fjárveitingavaldið, þessi stofnun Alþingis hefur eftirlit með því hvernig þessum fjárveitingum er varið og í þessu sérstaka tilviki, þar sem deilur hafa komið upp, er um að ræða fjárframlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna sem nema ekki milljónum, ekki tugum milljóna, ekki hundruðum milljóna heldur eitthvað á annað þúsundum milljóna. Það hefur því miður komið í ljós eins og gerist á öllum sviðum mannlífsins að menn eru misjafnlega heiðarlegir. Það hafa komið í ljós mjög alvarleg tilvik þar sem menn hafa notað heilbrigðiskerfið til að svíkja út fé eða draga sér fé. Hér er um það að ræða að tryggja hagsmuni almennings, skattborgaranna, og koma í veg fyrir misnotkun opinbers fjár. Og ef vikið er sérstaklega að samskiptum lækna og þessa kerfis og sjúklinga er rétt að það komi skýrt fram, sem raunar kom afar skýrt fram hjá hæstv. sjútvrh. Halldóri Ásgrímssyni áðan, 1. þm. Austurl., sem þekkir þessi mál gjörla, að það eru ekki neinir eftirlitsmenn sem skoða einhverjar sjúkraskrár. Hér er um reikningslegt yfirlit að ræða og það er læknir sem annast þessa skoðun á skýrslum og bókhaldi. Það kom líka fram í nefndinni, en það er ekki víst að allir hafi heyrt það.

Mér kemur það satt að segja mjög á óvart þegar fulltrúar þessara tveggja flokka, Kvennalistans og Borgarafl., lýsa þeim efasemdum sem þeir hafa gert hér gagnvart þessu máli, eðlilegu eftirliti Alþingis með því hvernig fjármunum skattborgaranna er varið. Það kemur mér afskaplega mikið á óvart. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að samþykkja frv. Það má vel vera að það sé rétt, sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan, að það beri að líta líka til annarra laga eða frv. sem eru hér í meðferð þingsins, en ég lýsi eindregnum stuðningi við þetta mál og lýsi satt að segja furðu á þeim málflutningi sem ég hef heyrt hér frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar sumum hverjum.