29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7023 í B-deild Alþingistíðinda. (4965)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Hér er enn komið til umræðu frv. til l. um Ríkisendurskoðun. Við 1. umr. þessa frv. urðu háværar umræður, sérstaklega milli mín og 1. flm. frv. Ég lýsti yfir andstöðu minni við frv. og þann meginhugsunarhátt sem í því býr og þá sérstaklega að Ríkisendurskoðun skuli með frv. gefið vald til að rannsaka gögn sem stjórnsýslan sjálf hefur ekki færi á að rannsaka.

Ég held, og hef haldið því fram, að áður en slíkt vald verði gefið stofnun á vegum Alþingis, hlutlausri stofnun eins og Ríkisendurskoðun á að vera, þurfi fyrst að gefa yfirstofnun slíkt vald. Í því tilviki sem hér um ræðir og aðallega er rætt um, um lækna, teldi ég það mjög eðlilega skipan að fyrst ætti að gefa Tryggingastofnun ríkisins heimild til að fara ofan í frumgögn lækna, sem þeir byggja reikninga sína á, og þegar búið er að gefa slíka heimild sé allt í lagi að gefa öðrum aðilum aðgang eins og Ríkisendurskoðun sem ég tel samt að eigi ekki að hafa þetta vald.

Í mínum huga á þetta að ganga þannig fyrir sig að Ríkisendurskoðun á að vera endurskoðunaraðill á vegum Alþingis og á að geta krafið stofnanir á vegum stjórnsýslunnar um gögn og ekki að fara ofan í og krefjast einstakra reikninga heldur á fyrirkomulagið að vera þannig að Tryggingastofnun í þessu tilviki á að krefjast reikninganna og síðan að láta Ríkisendurskoðun hafa þá. Það er alltaf spurning hvernig samskipti eiga að vera á milli utanaðkomandi aðila og svo stofnana á vegum ríkisins.

Ég hef alltaf litið á þetta mál út frá heildinni en ekki tekið lækna eina sér og litið á grunnskipun okkar stjórnskipunar um aðgreininguna á milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds og hve langt hver þáttur á að fara inn á verksvið hins. Eins og fram kemur í lögum um Ríkisendurskoðun er sú stofnun á vegum Alþingis og í þeim lögum eins og þau líta út í dag er aðeins talað um endurskoðun á reikningum en ekki að það sé heimild til þess að krefjast,þess að fara fram á rannsókn einstakra gagna. Ég held að þetta sé sá skilningur sem bjó í þeim aðilum sem sömdu frv. og hef ég raunar fengið staðfestingu á því að svo hafi verið, að Ríkisendurskoðun hafi alla tíð átt að vera þannig stofnun að hafa eftirlit og fá gögn frá ríkiskerfinu en ekki að geta sjálfstætt farið á stað og krafist slíkra gagna.

Mín skoðun er sú að það eftirlit sem Alþingi hefur með því að hafa fjárveitingavald sé því nægilegt að því leyti sem hér er rætt um. Alþingi getur neitað ákveðinni stofnun um fjárveitingu liggi ekki fyrir gögn er varða öll þau mál sem Alþingi vill að liggi fyrir við afgreiðslu fjárveitinga.

Það hefur komið fram í máli margra að þeir gagnrýna okkur þingmenn Borgarafl. fyrir að mótmæla þessari heimild Ríkisendurskoðunar. Verð ég að segja, því miður, að þeir aðilar skilja ekki þessa grunnhugsun að baki þessari þrígreiningu. Við getum tekið dæmi og þá sérstaklega það dæmi sem hér hefur aðallega verið talað um, lækna. Þá gæti þetta litið út á þá leið, að ef heilsugæslustöð í Árbæ neitar að framvísa reikningum og frv. sem nú er verið að ræða um er orðið að lögum getur Ríkisendurskoðun farið fram á það við rannsóknarlögregluna að hún geri húsleit hjá þessum læknum og fari ofan í öll þau gögn er á þessari heilsugæslustöð eru. Það felst ekki annað í því að fá úrskurð en húsleit. Þá vaknar sú spurning sem ég hef aðallega verið að gagnrýna: Á Ríkisendurskoðun sem stofnun á vegum Alþingis að geta farið fram á slíkt við dómstóla og síðan farið ofan í ýmis gögn? Ég tel slíkt mjög óæskilegt og tel að þetta eigi að vera innan stjórnsýslunnar en ekki á vegum hlutlausrar stofnunar eins og Ríkisendurskoðun er.

Ég vil frábiðja mig því að við séum að halda einhverri verndarhendi yfir einum eða neinum sérstökum, við þingmenn Borgarafl., heldur viljum við líta á frv. sem heild og hvaða áhrif það hefur á hin ýmsu svið þjóðlífsins og einnig hvaða áhrif það hefur ef Ríkisendurskoðun hefur það vald sem hér er verið að gefa þeirri stofnun.

Ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að mín skoðun er sú að Ríkisendurskoðun eigi að vera endurskoðunarfyrirtæki eins og hvert annað endurskoðunarfyrirtæki og eigi að geta krafist gagna, en stjórnsýslan sem slík eigi að sjá til þess að Ríkisendurskoðun fái þau gögn sem hún krefur um. Ég held að þarna sé sá grunnágreiningur sem er á milli okkar og annarra sem hér hafa talað, þ.e. hvernig við viljum líta á þessa stofnun sem Ríkisendurskoðun er.

Ég geri það að tillögu minni að þetta mál fari til nefndar aftur, hv. fjh.- og viðskn., og það verði kallaðir til fleiri aðilar en þeir sem nú hefur verið talað við. Það væri t.d. fróðlegt að fá fyrir nefndina þá aðila sem sömdu frv. Síðan mætti athuga hvaða álit hinn nýskipaði umboðsmaður Alþingis hefði á frv. Svo get ég tekið undir það, sem fram kom hjá hv. þm. Kvennalistans, Guðrúnu Agnarsdóttur, að læknar fengju að segja álit sitt á því hvort þeir hefðu einhverjar athugasemdir við frv. þar sem mér virðist frv. aðallega stefnt gegn læknum.

Ég mótmæli þeim árásum sem við höfum orðið fyrir, þingmenn Borgarafl., fyrir að andmæla frv. og lýsi furðu minni á því að hér, alla vega í þessari deild, hv. Ed., skuli ekki vera hægt að ræða mál á málefnalegum grunni og þar sem mál eru skoðuð frá ýmsum sjónarhornum og þá sérstaklega þessu þar sem er verið að ræða um grunnskipan stjórnarskrárinnar og það hvaða hlutverk hver þáttur ríkisvaldsins á að hafa.

Ég vil að lokum enn og aftur ítreka það, sem ég hef sagt hér, að Ríkisendurskoðun á ekki að hafa þá heimild sem lögin eru að bjóða.