29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7025 í B-deild Alþingistíðinda. (4966)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta mál var tekið fyrir á tveim nefndarfundum. Á hinum fyrri nefndarfundinum ræddi ég málsmeðferð og voru nefndarmenn sammála um að fullnægjandi væri að ríkisendurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson, mætti á fundi nefndarinnar þegar málið yrði tekið fyrir til afgreiðslu og hafði hann með sér að eigin ósk Jónatan Sveinsson hæstaréttarlögmann. Málið var síðan afgreitt úr nefndinni. Nú er ríkisendurskoðandi starfsmaður Alþingis og ekkert því til fyrirstöðu að ríkisendurskoðandi sé einstökum þingnefndum til upplýsingar og aðstoðar um hvaðeina það sem varðar Ríkisendurskoðun og hygg ég að aðrir þingmenn sem til hans hafi leitað hafi sömu sögu að segja að hann bregst ævinlega vel við ef Alþingi leitar til hans og var þess vegna ekkert því til fyrirstöðu né er að einstakir þingmenn geti leitað til hans um upplýsingar um það með hvaða hætti Ríkisendurskoðun falast yfirleitt eftir þeim gögnum sem hún telur nauðsynlegt að endurskoða.

Við höfðum ekki samband við Tryggingastofnun né Læknafélag, enda er sú endurskoðun og það eftirlit sem fram fer í Tryggingastofnun sjálfsagt innan þeirrar stofnunar, en jafnsjálfsagt er hitt að Ríkisendurskoðun, sem er eftirlitsaðili Alþingis með framkvæmdarvaldinu, hafi sjálfstæða athugun á öllum þeim útgjöldum sem eru úr ríkissjóði fyrir atbeina einstakra ráðuneyta, ráðherra eða stofnana.

Þannig er það laukrétt, sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, að þegar við erum að tala um lagfæringar á íslensku stjórnkerfi og þegar við erum að treysta stöðu Alþingis hefur það ævinlega verið talinn mjög merkur áfangi að Ríkisendurskoðun skuli nú vera beint undir Alþingi. Ég vil líka minna á að ef hv. þm. verða varir við að Ríkisendurskoðun verður offari þannig að starfsmenn hennar eða ríkisendurskoðandi sjálfur misbeiti valdi sínu eða séu ekki verðir þess trúnaðar sem þeim er skylt að gæta munu forsetar veita þeim áminningu eða aðhald eftir því sem á stendur því það er hlutverk forseta Alþingis að veita Ríkisendurskoðun nauðsynlegt aðhald í störfum hennar.

Í sambandi við skoðun á þeim gögnum sem hér hafa sérstaklega orðið að umræðuefni í sambandi við trúnað lækna og sjúklinga er það að segja að hjá Ríkisendurskoðun starfar sérstakur trúnaðarlæknir sem er undir læknaeiðnum og hann er sá starfsmaður Ríkisendurskoðunar sem fer yfir hin persónulegu gögn sem liggja á bak við reikninga einstakra lækna. Reikningar læknanna eru mjög einfaldir í sniðum. Það er sérstakt númerakerfi sem menn þurfa að kunna glögg skil á og hafa læknismenntun til að skilja til fullnustu. Trúnaðarlæknir Ríkisendurskoðunar ber síðan saman heilbrigðisskrár eða sjúklingaskrár, ég kann ekki að nefna þetta, kannski kallaðir „journalar“ í daglegu tali, og gerir ríkisendurskoðanda eða ólæknislærðum starfsmanni hans grein fyrir því hvort eitthvað sé óeðlilegt í sambandi við gjaldfærsluna á þeim verkum sem læknirinn tilnefnir á reikningum sínum til Tryggingastofnunar ríkisins. Þannig er það eingöngu trúnaðarlæknir Ríkisendurskoðunar sem fer yfir þau persónulegu gögn sem við erum hér að tala um og þingmenn hafa mjög gert að umtalsefni, en auk þess vil ég minna á það, sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, að starfsmenn Ríkisendurskoðunar eru bundnir trúnaði engu síður en læknarnir og kannski eru viðurlög hjá þeim enn strangari en hjá einstökum læknum ef út af er brugðið. Þannig er það ekki aðeins í þessum tilvikum gagnvart einstökum læknum heldur gagnvart öllum öðrum þeim aðilum, sem Ríkisendurskoðun þarf að hafa eftirlit með, sem fyllsta trúnaðar skal gætt. Koma þá oft viðkvæm mál þó að þau séu af öðrum toga spunnin en við erum hér að ræða um.

Það kom skýrt fram í máli ríkisendurskoðanda að um þá heimild sem hér er farið fram á er ekki beðið af mannvonsku eða til þess að viðkomandi verktakar verði fyrir óþarfa ónæði eða óþægindum. Þvert á móti er þessi heimild nauðsynleg í lögum til þess að Ríkisendurskoðun geti við reglulegt eftirlit athugað þau frumgögn sem henni þykir nauðsynlegt án þess að atbeina dómstóla sé leitað eða málinu vísað til Ríkisendurskoðunar. Þetta getur oft og tíðum leiðrétt misskilning þannig að viðkomandi verði ekki fyrir óþægindum sem hann ella yrði fyrir ef farin yrði dómstólaleiðin. Ég held þess vegna að það sé ekki hægt að tala um að með þessari breytingu sé verið að skerða persónuleg réttindi þeirra manna sem eiga viðskipti við ríkissjóð.

Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á að þessi heimild er ekki bundin við eina stétt manna. Hún er alls ekki bundin við lækna. Þessi heimild er bundin við hverja þá sem ríkið er greiðsluskylt á grundvelli laga um verksamninga eða gjaldskrársamninga þannig að viðkomandi þarf ekki annað en sýna reikninginn og þá er ríkinu skylt að inna greiðsluna af hendi án þess að geta áður gengið úr skugga um hvað á bak við reikninginn standi. Það er um þetta sem við erum að tala. Í venjulegum frjálsum viðskiptum geta menn krafist þess að fá svo og svo ítarlegar upplýsingar um einstök atriði í reikningi sem fram er lagður, einstaka þætti hans. Það er gamall brandari að norðan um það að einu sinni hafi ríkið fengið reikning sem var á þessa leið: An: Eitt stykki flugturn, vegna þess að það var unnið samkvæmt útboði. Þetta er gamalt spaug og áreiðanlega alþjóðlegur brandari sem færður er upp á kunnan borgara mönnum til skemmtunar. En þetta lýsir í stuttu máli því sem hér er um að ræða.

Ég vek líka athygli á því að í þessari sömu grein er sérstakt ákvæði sem lýtur að rétti Ríkisendurskoðunar til að rannsaka reikningsskil sveitarfélaga sem varða sameiginlega starfsemi ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur getur hún rannsakað reikningsskil þeirra stofnana og félaga sem ríkissjóður á hlut í. Við getum talað um hluti eins og eyðingu minka og refa. Við getum talað um ótal samninga og skuldbindingar sem á ríkinu hvíla. Þessi lagabreyting lýtur að öllu þessu. Henni er ekki beint gegn einni ákveðinni stétt. Hún er með vissum hætti vernd fyrir þá einstaklinga sem í þeirri stétt eru sem hér hefur mest verið til umræðu til þess að auðvelt sé að ganga úr skugga um réttmæti þeirra reikninga án þess að það veki athygli og án þess að til einhvers uppgjörs fyrir dómstólum þurfi að koma og á í framtíðinni að auðvelda samskipti heilbrigðisstétta við ríkissjóð. Ég hef heyrt það á máli margra lækna að þeir telji einmitt nauðsynlegt að þessi samskipti geti verið sem snurðulausust svo að menn séu hafnir yfir vafa, menn liggi ekki að óþörfu undir grun eða ámæli.

Ég hygg, herra forseti, að ekki sé ástæða til að svara þessu nánar og vil taka sérstaklega undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði í sinni ræðu áðan.