09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

77. mál, launakostnaður við mötuneyti framhaldsskólanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég lýsi eindregnum stuðningi við till. sem hér er flutt af þm. úr þremur þingflokkum og hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir hefur gert glögga grein fyrir. Hér er um að ræða verulegt hagsmunamál fyrir þá nemendur sem í hlut eiga og aðstandendur þeirra. Hér er einn þáttur af byggðamálum á ferðinni og möguleikum fólks til að tryggja framhaldsmenntun sinna barna á landsbyggðinni. Það er kostnaður sem tekur í hjá þeim sem í hlut eiga. Þó að nemendurnir sjálfir vinni að hluta fyrir honum er það engan veginn einhlítt, langt frá því, og leggst því sem kostnaður á viðkomandi heimili og fyrir nú utan að þarna er um að ræða allt aðrar aðstæður fyrir þá sem þurfa að sækja framhaldsskóla en þá sem hafa aðstæður til þess í þéttbýli að sækja námið heiman frá.

Ég treysti því að þetta ágæta mál fái jákvæðar undirtektir hér og þyrfti í rauninni að birtast í breytingum í frv. til fjárlaga sem nú er til meðferðar þannig að um aðgerðir verði að ræða strax á næsta ári.