29.04.1988
Efri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7033 í B-deild Alþingistíðinda. (4989)

126. mál, mat á sláturafurðum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum, eins og það liggur hér fyrir eftir breytingu sem á því var gerð í Nd.

Frv. var þar flutt til staðfestingar á brbl. um að framlengja tímabundna undanþágu fyrir sláturleyfi í sláturhúsum sem ekki eru svo úr garði gerð að löggilding geti farið fram á þeim. Brbl. gerðu ráð fyrir að þessi heimild gilti í eitt ár, til 31. maí á þessu ári, en í Nd. var gerð sú breyting á að leyfið var framlengt í tvö ár í viðbót, en í nál. sem landbn. Nd. lagði fram leggur hún áherslu á að sá tími, þau tvö ár sem þarna verða til viðbótar, verði notaður til að koma betra skipulagi á sláturhúsamálin.

Við vitum að það hafa verið að gerast miklar breytingar á síðustu árum á þessu sviði. Fé hefur fækkað á sama tíma sem samgöngur batna, en kröfur til þessara bygginga fara vaxandi og er því nauðsynlegt að hagræða þessum málum eins og kostur er til að gera framkvæmdina ódýrari fyrir framleiðendur og neytendur. Að því verður unnið á þessum tveimur árum og þá mun tekið tillit til niðurstöðu sem fram kemur í skýrslu nefndar sem ég skipaði og skilaði áliti á sl. ári um nauðsyn hagræðingar á þessu sviði.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.