29.04.1988
Efri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7043 í B-deild Alþingistíðinda. (5006)

435. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Þetta mál er einfalt í sniðum. Í 1. gr. er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 68. gr. tekjuskattslaga skal óráðstafaður persónuafsláttur, sem nýtist í greiðslu eignarskatts manna á gjaldárinu 1988, ekki vera hærri en 38 021 kr. Þetta þýðir á mæltu máli að þeir sem nýta alla þessa upphæð til greiðslu eignarskatts borga ekki eignarskatt af hreinni eign allt að 6 millj. kr. hjá einstaklingi og tvöfaldri þeirri upphæð hjá hjónum. Í þessu felst einkum og sér í lagi að sá hópur skattgreiðenda sem á skuldlitla eign en hefur lágar tekjur, sem á oft og tíðum við ýmsa hópa eldri samborgara okkar, mun, ef þetta frv. verður að lögum, njóta við það bættra kjara.

Þegar lögin um staðgreiðslu opinberra gjalda voru samþykkt á sl. ári var í 42. gr. laganna gert ráð fyrir því að lögin kæmu ekki til framkvæmda fyrr en Alþingi hefði sett sérstök lög um gildistöku þeirra. Þetta var nýmæli í íslenskri löggjöf, en þessi háttur hefur nokkuð tíðkast á þjóðþingum grannþjóða vorra.

Frv. sem hér er til umræðu fjallar um breytingu á lögum um gildistöku staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 2. mgr. laganna er kveðið á um að óráðstafaður persónuafsláttur nýtist ekki til greiðslu eignarskatts á árinu 1988. Þetta ákvæði var sett til samræmis við þær reglur sem gilda í staðgreiðslukerfinu, en samkvæmt þeim mundi persónuafsláttur ekki ganga til greiðslu eignarskatts.

Þegar fyrirframgreiðsla á árinu 1988 var ákveðin í byrjun þessa árs kom í ljós að ýmsir aðilar fengu fyrirframálagningu vegna eignarskatts sem ekki höfðu greitt eignarskatt áður, þar á meðal ellilífeyrisþegar. Þar með var ákveðið að taka þetta ákvæði til athugunar.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til fjh.- og viðskn.