29.04.1988
Neðri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7059 í B-deild Alþingistíðinda. (5044)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir síðustu orð síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Norðurl. e., að flm. þessa frv. sýnir ákveðinn kjark með því að þora að hafa sjálfstæða skoðun, í einhverju máli, ekki bara þessu, þá kannski helst því sem kemur við sárasta og veikasta blett nýfrjálshyggjumanna. Ég veit hvað það þýðir í Sjálfstfl. að hafa sjálfstæðar skoðanir og ég veit hvaða afleiðingar það getur haft. Ég veit hvað munaði litlu að það hefði sams konar afleiðingar fyrir flm., hv. 3. þm. Suðurl., á þeim tíma sem hann studdi ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens og ég veit hvaða afleiðingar það hafði fyrir sjálfan mig á þeim tíma að vera vinur Gunnars Thoroddsens í þingflokki Sjálfstfl. og ég veit hvaða afleiðingar það hafði fyrir mig seinna meir og alþjóð veit hvað það kostar að hafa sjálfstæðar skoðanir í Sjálfstfl.

En ég kom fyrst og fremst hingað upp vegna þess hvernig hv. flm. tók til orða í sinni ræðu áðan. Hann sagði: Nýfrjálshyggjan drepur fólk. Ég vil draga athygli að þessum ummælum flm. (EH: Ég sagði: Lánskjaravísitalan drepur fólkið.) Lánskjaravísitalan drepur fólk líka, já, já. Það er rétt. Ég tek undir það, mikil ósköp. En ég tek líka undir annað sem hann sagði um nýfrjálshyggjuna, að bestu blómin gróa ekki í brjóstum þeirra sem eru taldir vera nýfrjálshyggjumenn. Þannig skildi ég hv. þm.

En ég hef alla ástæðu til að benda á það einu sinni enn úr þessum virðulega ræðustól að ég flutti hvað eftir annað, ræðu eftir ræðu á Alþingi um lánskjaravísitöluna, bæði sem fjmrh., sem iðnrh. og þar áður sem óbreyttur þingmaður, og ég gerði það sama í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem situr nú, því að bæði Framsfl. í ríkisstjórn og Sjálfstfl., og þá alveg sérstaklega þáverandi formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, börðust á móti nokkurri breytingu á lánskjaravísitölunni. Á þeim tíma vitnuðu þeir í ráðleggingar gegn því að fella niður lánskjaravísitöluna, í ráðgjafa þá sem þá voru ríkisstjórnarinnar. Það eru hæstv. núv. viðskrh. og formaður þeirrar nefndar sem á að fá þetta mál til athugunar á vegum ríkisstjórnarinnar. Ég hef því ekki miklar vonir bundnar við jákvæðan árangur af því að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Ég lít á þetta sem einu leiðina til að losna undan óþægilegum umræðum innan stjórnarliðsins og einu leiðina til að drepa þessa hugmynd endanlega og það er að vísa málinu til meðhöndlunar ríkisstjórnarinnar.

Hitt er svo annað mál að ég get vel tekið undir annað sem kemur mér þá í huga. Það er að vitna áfram í það sem hv. flm. vitnaði í hér, að „bestu blómin gróa í brjóstum sem að geta fundið til“. Ég veit það, að vísu ekki af eigin reynslu heldur afspurn, að hæstv. viðskrh. — Ég veit ekki hvort hæstv. viðskrh. fylgdist með því sem ég var að segja, en ég ætla að halda áfram án þess að rifja upp það sem ég er búinn að segja. Ég veit af afspurn meira en af eigin raun að góð blóm og jafnvel þau bestu geta vel blómstrað í hans brjósti. Ég held að hann sé maður sem geti fundið til. Sú viðbót sem er í ríkisstjórninni með tilkomu hans í það embætti sem fer með þetta mál getur orðið til þess að einmitt þær kenndir, sem ég vona að kvikni í brjósti hæstv. ráðherra viðskiptamála og bankamála, bjargi fólki frá þeim örlögum sem flm. gat um. Það er rétt hjá flm. að lánskjaravísitalan hefur reynst skeinuhætt mörgum og sérstaklega þeim sem lítils mega sín, eru minni máttar í þjóðfélaginu. Þess vegna verð ég að segja hér og nú að þrátt fyrir mína andstöðu við nýfrjálshyggjumenn, bæði í Alþfl. og í Sjálfstfl., batt ég miklar vonir við tilkomu hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar inn í íslensk stjórnmál vegna hans fyrri starfa fyrir íslensku þjóðina á mörgum sviðum. Þær vonir hafa að vissu leyti brugðist með málflutningi hæstv. ráðherra í ýmsum málum fram að þessu. En ég held að það sé almenn skoðun að hér sé vel gefinn, reynsluríkur og góður maður að fá inn í íslensk stjórnmál og því vil ég binda vonir við að hann komi í veg fyrir með aðgerðum sínum í ríkisstjórn að málin haldi áfram að hafa þær afleiðingar, sem flm. gat um áðan, að lánskjaravísitalan drepi fólk bókstaflega. Þá hlýtur eitthvað af því sem ekki fer alla leið í gröfina að liggja sárt eftir hingað og þangað um landið. Ég endurtek að ég trúi því að hæstv. ráðherra sé þannig manngerð, þannig vel af guði gerður, þannig að öðru leyti vel undirbúinn að koma inn í stjórnmál að hann finni til á þann hátt sem hér er talað um.

Ég er ekki ánægður með þetta frv. flm., en þrátt fyrir tillögur mínar í fortíðinni um að leggja niður lánskjaravísitöluna hef ég ekki gert brtt. vegna þess að frv. eins og það er er svo miklu betra en að gera ekki neitt. Samþykkt þess er miklu betri en að gera ekki neitt þó hún sé ekki eins góð og að fella niður lánskjaravísitöluna að fullu.

Ég hef áður sagt að fyrstu fimm greinar þessa frv. séu óþarfar. Ég tel að seðlabankakerfið, og ég tala nú ekki um ríkisstjórnin og þetta allt bákn í samstarfi, hafi fullt leyfi til að ákveða það sem um getur í þessum fimm fyrstu greinum.

Hvað 6. gr. varðar er hún eingöngu um að fella niður lánskjaravísitölu gagnvart öllum nýjum fjárskuldbindingum. Það tel ég ekki nóg. Það heldur áfram að drepa það fólk sem á unga aldri hefur gengið í gildru, tekið lán lánskjaravísitölubundið. Það heldur áfram í marga áratugi fram á grafarbakkann að hafa áhrif á þetta fólk og heilsu þess, eins og flm. gat um áðan. Mér finnst þetta frv. ekki ganga í átt til að hjálpa því fólki sem er fast í þessu neti og er flest á unga aldri heldur aðeins að gæta hagsmuna þeirra sem hér eftir skuldbinda sig á einhvern hátt.

Það var talað um af hv. 4. þm. Norðurl. e., ég heyrði ekki aðra þingmenn koma svo mikið inn á það, hinn íslenska fjármagnsmarkað. Ég er nú ekki búinn að vera í viðskiptum hér nema í 40 ár. Getur einhver sagt mér hvað það er, íslenskur fjármagnsmarkaður? (SJS: Ekki ég.) Nei, ég held að það sé afskaplega erfitt að fá það upp gefið vegna þess að fjármagnsmarkaðurinn hérna er svo háður erlendum sveiflum og erlendum lántökum og erlendum lánum að það er miklu meira í umferð hér af erlendu fé fjárfestu í íslenskum fyrirtækjum og íslenskum framkvæmdum. Það er ekki lengur til neinn íslenskur fjármagnsmarkaður annað en það, ef svo skyldi vera, að íslenskur fjármagnsmarkaður felist í því sem Íslendingar hafa búið til sín á milli. Íslendingar hafa nefnilega búið til sérstakan gjaldmiðil sín á milli vegna þess að bankakerfið og fjármagnsmarkaðurinn eru lokuð. Þetta kerfi, sem fyrirtæki og einstaklingar hafa fundið upp sem afskaplega séríslenskt fyrirbæri, er það að búa til gjaldmiðil, búa til verðmæti í bréfum, í víxlum, í skuldabréfum, í I owe you, eða þá með því að geyma ávísanir hver fyrir annan. Ég vil að bankar verði upplýstir að því að geyma ávísanir.

Það nýjasta sem ég hef heyrt, sem var ekki komið þegar ég stundaði viðskipti, er að selja reikninga eftir því sem forsrh. upplýsir. Það er enn þá ný leið í íslenskum fjármagnsmarkaði ef við erum að tala um íslenskan fjármagnsmarkað.

En ég vildi gjarnan fá að vita hvað er íslenskur fjármagnsmarkaður? Og hvar væri fjármagnsmarkaður á Íslandi ef erlent lánsfé hefði ekki komið til? Hvað væri þá framkvæmt? Fyrir hvaða peninga? Markaður sem slíkur, sem hér er talað um, er ekki til á Íslandi nema á þennan hátt. Bak við þessi bréfaskipti er venjulega ekki nokkur skapaður hlutur.

Ég óttast það, virðulegi flm., hv. 3. þm. Suðurl., að hér sé verið að fara nákvæmlega þá sömu leið hvað þig snertir og alltaf er farið þegar þarf að losna við eitthvað sem kemur illa við hina fáu sem hafa tekið völd. Ég veit að hv. 3. þm. Suðurl. er ekki einn af þeim fáu útvöldu innan Sjálfstfl. sem hafa fengið völd. Hann er einn af þeim þingmönnum sem Sjálfstfl. verður að þola vegna þess að fólkið vill hann, fólkið sem kýs treystir honum betur en mörgum öðrum sem hafa reynt að ná kosningu í nafni Sjálfstfl., en ekki vegna þess að flokkurinn vilji hafa hann. Hér kemur hann með góða tillögu, gott mál sem gæti kannski orðið honum til framdráttar í kjördæmi ef hún fengist samþykkt. Bara það eitt þýðir að hún verður drepin. Ég ætla að vona að hv. þm. geri sér ekkert frekari vonir um að þessi till. nái lengra en í þá nefnd sem er leidd af þeim manni sem ráðlagði í ríkisstjórninni, sem ég sat í, að fella ekki lánskjaravísitöluna og beita henni ekki. Af hverju haldið þið að þessi maður fari að vinna á annan hátt núna en hann gerði fyrir tveimur árum? Eða af hverju haldið þið að hann sé þá valinn til að leiða nefndina? Til að gera eitthvað annað en hann ráðlagði fyrir tveimur árum?

Af hverju tala ég eins og ég tala núna? Af hverju bendi ég á allt þetta? Það er vegna þess að það er nú einu sinni svo að ef ég tala fyrir einhverju máli snýst Sjálfstfl. á móti því, en ef ég tala á móti því og vara við að Sjálfstfl. muni drepa eitthvað, þá er kannski helsta vonin til þess að geta orðið hv. flm. að liði. Það getur vel verið að einmitt þetta tal mitt verði til þess að Sjálfstfl. vilji afsanna það sem ég er að segja með því að vinna að framgangi málsins en ekki að drepa það í nefnd undir forustu manns sem þegar er búinn að gefa álit um að það sé ekki rétt að fella niður lánskjaravísitöluna.

En ég vil taka það fram að þegar ég flutti þessi mál í ríkisstjórninni voru ráðherrar sem vildu samþykkja þessa tillögu. Það voru t.d. tveir framsóknarráðherrar. Það var hæstv. landbrh. og hæstv. félmrh. Þeir voru báðir með því að fella niður lánskjaravísitölu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, en ég verð að segja alveg eins og er að ég á ekkert svona. Þetta eru mínar leyndu hugsanir. Ég fagnaði því þegar ég sá að núv. hæstv. bankamálaráðherra var frambjóðandi. Sú kennd mín hefði verið sú sama alveg jafnt hvort hann var frambjóðandi Alþfl. eða annars. Mér fannst að loksins væru að koma menn inn í stjórnmál á Íslandi sem væru hæfileikamestu menn þjóðarinnar. Ég hélt að það kæmi kannski meira af þeim ef einhver bryti ísinn og það getur vel verið að það eigi eftir að reynast rétt. Þess vegna segi ég: Ég bind miklar vonir við störf núv. hæstv. bankamálaráðherra á Alþingi. Það er ekki þar með sagt að ég sé honum, eins og hann hefur sjálfur fundið, alltaf sammála því ég hef mínar skoðanir á málum. En maðurinn er jafnmikils virði fyrir mig hvort sem hann er samherji eða andstæðingur.

Í þessu máli legg ég sérstaka áherslu á að hæstv. ráðherra taki nú til gaumgæfilegrar athugunar það sem flm. hefur bent á, að þessi lánskjaravísitala, og alveg sérstaklega eftir að launavísitalan var felld niður, er bókstaflega að drepa fólk. Ef fólk hrynur ekki niður vegna hennar, þá liggur það sært í valnum um land allt. Þess vegna legg ég miklu, miklu meiri trúnað og bind miklu meiri vonir við að Alþfl. í ríkisstjórn geti breytt niðurstöðu Sjálfstfl. og Framsfl. í ríkisstjórn eins og hann var þegar ég sat þar. Ef hæstv. ráðherra getur notað stuðning minn er hann til reiðu.