29.04.1988
Neðri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7064 í B-deild Alþingistíðinda. (5046)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af orðum hæstv. bankamálaráðherra áðan um þau gögn sem hann teldi að nefndin þyrfti að athuga minna á að fjh.- og viðskn. sendi þetta frv. til umsagnar og fimm skriflegar umsagnir bárust til nefndarinnar, þ.e. frá Sambandi ísl. sparisjóða, Þjóðhagsstofnun, Kaupþingi, Sambandi almennra lífeyrissjóða og jafnframt frá Seðlabankanum. Síðan kvaddi nefndin á fund sinn dr. Magna Guðmundsson sem mikið hefur skrifað um vaxtamál og peningamál og er sérfræðingur á þessu sviði. Við áttum með honum mjög skemmtilegan og að því er mér fannst gagnlegan fund og að beiðni nefndarinnar setti hann á blað skoðanir sínar. Ég tel að öll þessi gögn þurfi að vera tiltæk nefnd Björns Björnssonar og stend upp til þess að minna á þau.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa niðurlagsorð úr umsögn dr. Magna þar sem ég tel að þar séu orð í tíma töluð:

„Það má ljóst vera að vaxtakerfið, sem nú er við lýði, er ekki þess megnugt að efla sparnað í landinu eða tryggja stöðugleika verðlags. Vaxtaprósentan sjálf gerir flestum fyrirtækjum ókleift að spara og raunar einnig að greiða starfsliði mannsæmandi laun. Íbúðabyggjendur eru ekki aflögufærir nema síður sé og eldri borgarar hafa þverrandi áhuga á sparnaði vegna almannatrygginga hér sem annars staðar. Þeir sem eiga peninga vilja ekki leggja í hlutabréf nema þeir fái sömu ávöxtun þeirra og í innlánsstofnunum um 40% skattfrjálst, en slíkt er að óbreyttu útilokað. Ýmsir kjósa að ávaxta fé á gráa markaðnum.

Með lánskjaravísitölu reyndum við að bæta okkur upp rýrnun peninga, en búum til kostnaðarverðbólgu í leiðinni. Þetta er því vítahringur. Sérhver hækkun á verði peninga síast út í hagkerfið allt. Þess vegna verður að leita annarra ráða til að hemja offjárfestinguna. Venjan er í nágrannalöndunum að beita fjárfestingarskatti tímabundnum og nú seinni árin fjárfestingarsjóðum sem njóta skattfríðinda gegn því að þeir notist ekki á þensluskeiði. Hreinlegast er að afnema lánskjaravísitöluna og stokka spilin upp á nýtt eins og frv. Eggerts Haukdals gerir ráð fyrir. Næst að áhrifamætti væri að breyta viðmiðun vísitölunnar, t.d. taka upp framleiðnistuðul, en hann má ekki gilda um einn þátt, vextina, heldur aðrar tekjur jafnframt, launatekjur og eignatekjur.

Það hefur lengi verið álit efnahagssérfræðinga og athafnamanna um allan heim að stöðugir vextir séu eitt grundvallarskilyrða fyrir traustu atvinnulífi og framförum. Síbreytilegir vextir samkvæmt vísitölu gera allar áætlanir fram í tímann óhugsandi og ekkert er eins skaðlegt uppbyggingu lands. Þeir tortíma og einni hinna fornu dyggða, skilvísinni, því að sá sem tekur lán með kjörum verðbólguvísitölu getur ekki vitað hvaða fjárhæð hann verður endanlega krafinn um. Hún kann að gera hann að vanskilamanni.“

Þetta var tilvitnun í umsögn dr. Magna Guðmundssonar og eins og ég sagði áðan vildi ég með þessum orðum mínum hvetja til þess að nefnd Björns Björnssonar athugaði þau gögn sem fjh.- og viðskn. deildarinnar eru tiltæk.