10.11.1987
Efri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

69. mál, útvarpslög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að hreyft skuli vera við einstökum efnisþáttum í útvarpslögunum. Þau lög voru á sínum tíma mjög umdeild hér í þinginu og athyglisvert þegar við vorum að berjast í því að koma þessum lögum áfram hversu hörð andstaðan innan Alþfl. var gegn frjálsum útvarpsrekstri og frjálsri fjölmiðlun. Það er eftirminnilegt hvernig þeir kúventu í þessu máli frá því sem áður hafði verið og skal ég ekki fara út í að rekja þá sögu nema til þess að undirstrika að þessi lög voru mjög umdeild. En það er auðvitað algjörlega út í bláinn hjá hv. 7. þm. Reykn. að halda því fram að með þessum lögum hafi verið þrengdir möguleikar til útvarpsrekstrar frá því sem áður var. Ég held nú satt að segja að þegar hann kom að þeim kafla í ræðu sinni þá hafi hann mistalað sig og ætlað að segja að möguleikarnir hafi ekki verið opnaðir eins mikið og hann hefði kosið, sem er auðvitað allt, allt annað mál, eins og kom fram í öðrum köflum í hans ræðu þegar hann talar um önnur atriði.

Ég vil ekki, herra forseti, fara út í efnislegar umræður almennt um fjarskipti né nýjungar á sviði fjarskipta. Til þess hef ég ekki tæknilega þekkingu og fylgist satt að segja ekki nægilega vel með. Mér skilst að vísu að það sem kallað er ljósleiðarakerfi sé skilgreint með þeim hætti að það sé eins konar þjóðvegur fyrir boðmiðlun með rafsegulöldum. Þetta þýðir á mæltu máli að með þessum breiðbandsnetum opnist ótal margir möguleikar, eins og hér var rakið áðan, til þess að koma boðum á milli, hvort sem það er sjónvarpsefni, notkun á tölvum, símaþjónusta eða hvað eina sem um er rætt. Auðvitað er það rétt sem fram kom í máli hv. þm. að í lögum, sem fjalla um tæknibúnað, hættir okkur til að setja of þröngar skorður vegna þess hversu hröð þróunin er og eðlilegra að slík ákvæði séu sett í auglýsingar eða reglugerðir því að auðvitað verðum við að fylgja alþjóðlegum samningum um slík atriði. Ég ætla því ekki að taka afstöðu til þess sem hv. þm. sagði um þau efni að öðru leyti en því að ég er honum sammála um það að ef hér á landi verður sett upp móttökustöð fyrir sjónvarpsefni frá gervihnöttum þá geti slík stöð hvort sem heldur er verið rekin af Pósti og síma, opinberum aðilum eða einkaaðilum. Um þetta er ekki ágreiningur okkar á milli.

Hins vegar vakti það athygli mína þegar hv. þm. gerði grein fyrir sínu frv. að hann vék ekki einu einasta orði að því sem er kjarninn í hans tillöguflutningi, nefnilega sá að brjóta niður þá reglu að skylt sé að láta íslenskan texta eða endursögn þular á íslensku fylgja sjónvarpsefni sem dreift er. Eins og hv. þm. setur þetta mál fram, þá telur hann sjálfsagt að öllum sé heimil móttaka dagskrárefnis sem sent er um gervitungl gagngert til dreifingar til almennings og hann talar um loftnetskerfi fjölbýlishúsa, svo og loftnetskerfi fyrir bæi eða bæjarhluta þar sem dreift er viðstöðulaust útvarpsefni frá innlendum og erlendum útvarpsstöðvum. Slíkt útvarpsefni á ekki að heyra til útvarpsrekstrar í skilningi laganna um útvarpsefni.

Það er undarleg hugsun að slá því föstu að sjálfsagt sé að erlendar stöðvar eigi að hafa frjálsari hendur um dreifingu sjónvarpsefnis á Íslandi en þær sjónvarpsstöðvar sem hafa fengið leyfi til sjónvarpsrekstrar hér á landi.

Þegar útvarpslögin voru sett var enginn ágreiningur um 2. tölul. 3. gr. laganna þar sem segir: „Óheimilt er að veita erlendum aðila leyfi til útvarpsrekstrar né félagi eða stofnun þar sem eignarhlutdeild erlendra aðila er meiri en 10%.“ — Um þetta var fullkomið samkomulag.

Ég held líka að það muni fleiri þm. en ég hika við að samþykkja lagaákvæði sem fela það í sér að íslenska sjónvarpið, hvort sem það er Ríkissjónvarpið eða Stöð 2, skuli þurfa að kosta háum fjárfúlgum til að mega endursenda erlent sjónvarpsefni, þar sem þessar tvær sjónvarpsstöðvar eru bundnar því skilyrði að þurfa að láta texta fylgja á íslensku eða endursögn þular á hinu erlenda sjónvarpsefni, ef svo einhverjir aðrir aðilar eiga að fá að senda erlenda sjónvarpsefnið viðstöðulaust. Auðvitað eru það þá engin rök í því máli að þessi viðstöðulausa endursending, ef ég má nota það orð, skuli einungis ná til bæjarhluta eða bæja. Bæir í þessari merkingu hlýtur t.d. að þýða allt Stór-Reykjavíkursvæðið eins og það leggur sig. Það eru bæir. Og ef heimild yrði skv. þessum 4. tölul. 1. gr. að senda slíkt erlent sjónvarpsefni viðstöðulaust áfram til allra bæjanna hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þá vaknar sú spurning: Af hverju má þá ekki senda viðstöðulaust til héraða, byggðarlaga þó það séu ekki kaupstaðir eða kauptún? Við getum auðvitað ekki fallist á orðalag af þessu tagi.

Nú veit ég að fyrir hv. þm. vakir ekki mismunun með þessum hætti. Ég veit að hann er mikill áhugamaður um frjálsan útvarpsrekstur og virði hans áhuga. Ég skil vel ákafa hans í þessum tillöguflutningi en ítreka það sem ég sagði áðan: Ef við viljum stíga það skref að gefa erlendum sjónvarpsstöðvum opna heimild til þess að endurvarpa sínu efni yfir íslenska notendur í gegnum sérstakar endurvarpsstöðvar án þess að skilyrðunum um íslenskan texta eða endursögn þular á íslensku sé fullnægt, þá hljótum við um leið og samtímis að falla frá þessum skilyrðum gagnvart Ríkissjónvarpinu og Stöð 2. Þetta hangir auðvitað algjörlega saman.

Ég get á hinn bóginn kannski sagt: Ef hinar erlendu stöðvar mundu uppfylla þessi skilyrði um íslenskuna, að þeir létu íslenskan texta fylgja sínum sendingum um gervihnött, þá hef ég ekkert við það að athuga að þessar erlendu stöðvar geti komið inn á hinn íslenska markað vegna þess að ég er unnandi frjáls útvarpsrekstrar. Og ef erlendar þjóðir vilja leggja í slíkan kostnað fyrir okkur Íslendinga þá yrði ég bara feginn því. En ég get ekki fellt mig við að erlendar stöðvar að þessu leyti sitji við annað og hærra borð en Íslendingar sjálfir sem hafa fengið leyfi til útvarpsrekstrarins.

En þá skulum við víkja að hinu. Er það úrelt hugsun að við skulum leggja áherslu á íslenskuna í sambandi við útsendingu á sjónvarpsefni? Það má velta þessu fyrir sér. Mér skilst að a.m.k. sumar sjónvarpsstöðvar í Frakklandi og Þýskalandi séu svo einarðar í ást sinni á móðurmálinu að það sé sett franskt og þýskt tal inn á sjónvarpsefni frá þessum stöðvum og ugglaust er það gert víðar. Ég er ekki nógu kunnugur til að ég þori með það að fara. Þetta er farið að gera með barnaefni hér á landi. Ég er ekki að halda því fram að við eigum að ganga svo langt. En ég hlýt á hinn bóginn að segja að ef tilgangurinn með þessum frumvarpsflutningi er fyrst og fremst sá að opna möguleikana fyrir því að sjónvarpsefni verði hér sýnt án íslenska textans, þá er best að segja það umbúðalaust því að það er ótrúlegur kostnaður, bæði rekstrarkostnaður við þýðinguna jafnóðum og líka tæknibúnaður, kostnaður við tækjabúnað, sem því fylgir að texta hið erlenda sjónvarpsefni. Ég vil, herra forseti, að þetta komi alveg skýrt fram til þess að afstaða mín a.m.k. sé ljós varðandi þetta frv.

Þetta mál kemur eflaust til meðferðar í menntmn. deildarinnar. Þá geta þm. auðvitað rætt þetta nánar, hvort þeir telja eftir atvikum að þessi stranga krafa um íslenskuna sé of ströng, hvort þm. séu þeirrar skoðunar að ástæðulaust sé að texta erlent sjónvarpsefni eða láta endursögn þular á íslensku fylgja. Við getum rætt það í menntmn. hvort við viljum láta hin erlendu tungumál flæða yfir okkur hömlulaust með þeim rökstuðningi þá að við verðum sem fyrst að búa okkur undir það sem óhjákvæmilegt verður innan tiltölulega skamms tíma. Þetta er efnisatriði sem rétt er að ræða ofan í kjölinn og ég er reiðubúinn að gera það þegar þar að kemur. En á hitt get ég undir engum kringumstæðum fallist að erlendu stöðvarnar eigi að sitja við annað og hærra borð en þær íslensku. Að einungis ef stöðin sem sendir út efnið er erlend, þá megi viðstöðulaust senda erlent sjónvarpsefni yfir landslýðinn, en það megi ekki gera ef íslensk sjónvarpsstöð sendir efnið. Þetta er auðvitað algjörlega óaðgengilegt og ég geri ekki ráð fyrir að á það verði fallist í deildinni.