29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7069 í B-deild Alþingistíðinda. (5058)

448. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það sem hér er mælt fyrir á þskj. 798 snýst um breytingu á 81. gr. laga nr. 60 1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. þeim kafla laganna sem fjallar um byggingarsamvinnufélög. Breyting sú sem hér er lögð til að gerð verði felur í sér að einstaka byggingarflokkum í byggingarsamvinnufélögum verði heimilað að segja sig úr félaginu þegar tengsl íbúðareigenda við félagið eru orðin lítil.

Þegar íbúðareigandi, sem byggt hefur íbúð á vegum byggingarsamvinnufélags, hefur staðið skil á öllum sínum fjárhagslegu skuldbindingum gagnvart félaginu má segja að sameiginlegir hagsmunir hans og félagsins séu ekki lengur til staðar nema sá hinn sami hugsi sér að byggja aftur á vegum félagsins. Það sýnist því ekki þjóna neinum tilgangi að halda í lagafyrirmæli sem þvingi fólk til veru í félagi sem það finnur ekki sjálft að hafi neitt gildi fyrir sig, aðeins vafstur og fyrirhöfn við það að félagið falli formlega frá forkaupsrétti við hver eigendaskipti á viðkomandi íbúð. Rétt þykir að nokkur tími líði frá því að byggingarhlutverki félagsins er lokið og þar til byggingarflokkurinn geti sem heild sagt sig úr félaginu þannig að íbúðareigendur geti sem best gert sér grein fyrir stöðu sinni gagnvart félaginu og er hér lagt til að sá tími verði fimm ár.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. félmn.