29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7074 í B-deild Alþingistíðinda. (5061)

470. mál, sveitarstjórnarlög

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. um breytingu á sveitarstjórnarlögunum innti eftir áliti mínu á því frv. sem hér er til umræðu. Það kemur fram í grg. með frv. að í núgildandi sveitarstjórnarlögum eru það nýmæli að sveitarstjórn skuli heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélaginu um einstök mál og eins og hér kemur fram að þótt ekki hafi verið um þetta ákvæði að ræða fyrr í lögum en nú hefur jafnan verið talið að sveitarstjórn væri heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu eða skoðanakönnunar meðal íbúa til að kanna hug sveitarfélagsins og afstöðu þeirra til einstakra mála. Það er ljóst að þessu ákvæði og þessu nýmæli hefur ekki verið beitt þó þarna hafi verið fyrir hendi, til að mynda að efna til almennrar skoðanakönnunar, og er ég hlynnt því markmiði, sem kemur fram í þessu frv., að þessu sé í meira mæli beitt en verið hefur hingað til og styð að allt sé gert til að auka eins og hægt er lýðræðisleg réttindi fólksins í landinu.

Ég er ekki tilbúin á þessu stigi málsins að tjá mig um það sem fram kemur að því er varðar íbúafjöldann sem gæti farið fram á slíka atkvæðagreiðslu eða hvort rétt sé að atkvæðagreiðslan sé bindandi fyrir sveitarstjórn. Þetta tel ég að þurfi nánari skoðunar við. En ég tel að frv. sem hér hefur verið lagt fram og er til umræðu sé allrar athygli vert.