10.11.1987
Efri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

69. mál, útvarpslög

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkrar athugasemdir vegna þess frv. sem hér hefur verið lagt fram. Fæstum blandast hugur um mikilvægi fjölmiðla í nútímasamfélagi. Fjölmiðlar gegna stöðugt mikilvægara hlutverki í skoðanamyndun og félagsmótun almennings auk þess að vera mikilvægur miðill listsköpunar, menningar og afþreyingar. Því má segja að fjölmiðlar séu áhrifavaldar á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Þingkonur Kvennalistans lögðu fram frv. til útvarpslaga árið 1984. Í því var gert ráð fyrir einkarétti ríkisins til útvarpsreksturs en jafnframt miklum endurbótum á Ríkisútvarpinu. Það fól í sér að útvarpið yrði í raun útvarp allra landsmanna sem allir ættu góðan aðgang að. Við töldum og teljum að það frelsi, sem mest var talað um í tengslum við frjálsa fjölmiðlun, væri frelsi sem aðeins felur í sér réttindi en ekki skyldur. Réttindi þeirra sem fjármagn hafa til þess að stofna útvarpsstöðvar en hafa engum skyldum að gegna gagnvart tjáningarfrelsi allra einstaklinga. Þær skyldur uppfyllir einungis útvarp allra landsmanna.

Með frv. þessu er enn boðað aukið frelsi í fjölmiðlun. Með hliðsjón af því hversu sterkir áhrifavaldar fjölmiðlar eru á öllum sviðum þjóðfélagsins þykir okkur kvennalistakonum rétt að staldra við og hvetjum við til þess að menn athugi sinn gang áður en allar flóðgáttir eru opnaðar.

Samkvæmt núgildandi útvarpslögum skulu útvarpsstöðvar stuðla að eflingu íslenskrar menningar og tungu. Engum blandast hugur um mikilvægi fjölmiðla í þessum efnum og ef allar gáttir eru látnar standa opnar gefur auga leið að bæði íslenskri menningu og tungu er hætta búin. Ég vil því taka undir orð hv. 2. þm. Norðurl. e. varðandi það sem hann sagði um íslenskuna. Það er engin ástæða til að erlendar sjónvarpsstöðvar þurfi ekki að uppfylla sömu skyldur og íslenskar stöðvar varðandi íslenskan texta eða tal.

Nú er svo komið að kennarar margra ungra barna verða varir við að börnin nota erlend orð og hugtök í stórum stíl án þess að gera sér grein fyrir að þau eru ekki að tala íslensku. Og það er vandséð hvernig við getum haldið tungu okkar sæmilega ómengaðri ef við ættum þess kost að horfa á erlent efni án íslensks texta eða tals allan sólarhringinn, en það er reyndar brot á textalögunum. Það er m.a.s. oft ekki nóg að hafa eingöngu íslenska texta, þ.e. í barnaþáttum þar sem flestir áhorfendur eru börn sem eru enn ekki orðin læs. Í slíkum þáttum er alls ekki nóg að hafa einungis textana, heldur þyrfti líka að tala inn á myndirnar.

Það er reynsla þeirra þjóða sem leyfa beinar sendingar erlendis frá, t.d. Svía, að málvitund manna slævist. Síðustu vikurnar hefur mikið verið fjallað um versnandi kunnáttu íslenskra skólanemenda í móðurmálinu og er fjölmiðlum m.a. kennt um. Hvort sem satt reynist eður ei megum við aldrei gleyma þeirri meginskyldu fjölmiðla að sýna gott fordæmi með málfari sínu og stuðla þannig stöðugt að verndun íslenskrar tungu. Hvar værum við Íslendingar, 250 þús. sálir, án tungu okkar, við sem stöðugt stærum okkur af glæstri menningu og ekki síst því að geta enn þann dag í dag lesið fornsögurnar.

Þá ber einnig að hafa í huga að erlendis gilda allt aðrar reglur um auglýsingar, sem eru mikill áhrifavaldur í daglegu lífi okkar, ekki síst barna og unglinga. Í erlendum sjónvarpsstöðvum þykir sjálfsagt og eðlilegt að auglýsa bæði áfengi og tóbak, og margar aðrar auglýsingar brjóta í bága við íslensk lög, t.d. jafnréttislög. Þá er með öllu ógerlegt að koma í veg fyrir að börn horfi á ofbeldis- og klámmyndir sem samræmast engan veginn lögum um vernd barna og unglinga, en útvarpsstöðvar hér á landi bera að sjálfsögðu ábyrgð í þeim efnum.

Við teljum því nauðsynlegt að aðgát sé höfð þegar talað er um að opna hér fyrir sendingar um gervihnetti og við teljum nauðsynlegt að fyrst og fremst sé haft í huga að fjölmiðlar eiga að vera menningarmiðill til allrar þjóðarinnar og það er nauðsynlegt að þeir byggi á íslenskri menningu fyrst og fremst. Ég vil að lokum, með leyfi forseta, vitna í greinargerð Kvennalistans sem fylgdi frv. okkar til útvarpslaga 1984:

„Hin öra tækniþróun, sem átt hefur sér stað í dreifingu hljóðvarps- og sjónvarpsefnis, hefur skapað margvíslega möguleika, m.a. til móttöku erlends efnis. Það má þó aldrei verða stefna Íslendinga að nota tæknina tækninnar vegna og verða þannig þrælar hennar, heldur ber að nota tæknina í þjónustu íslenskrar menningar.“

Og ég vil líka aðeins nefna að það kom fram í umræðum í gær um útvarpsmál að litið var á þetta sem hugsanlega bót á dreifikerfi úti á landsbyggðinni, en ég held að mörg hinna minni sveitarfélaga hafi e.t.v. alls ekki efni á slíkum tækjakaupum og að hvorki landfræðilega né efnahagslega sé hægt að bera saman Seltjarnarnes og Dalasýslu.