29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7078 í B-deild Alþingistíðinda. (5072)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Menn geta sjálfsagt deilt um gagnsemi þessarar tillögu, en ég held að kjarni málsins sé sá að þó að afstaða Íslendinga sjálfra í þessu máli að því er varðar kynþáttaaðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku sé skýr er nauðsynlegt til þess að það misskiljist ekki út á við að sú afstaða sé gerð formleg og afdráttarlaus með yfirlýsingu um viðskiptabann. Við sjáum þess merki að það að við höfum ekki lýst yfir viðskiptabanni veldur misskilningi um okkar afstöðu. Þetta lagafrv. miðar að því að eyða þeim misskilningi. Ef menn hafa efasemdir um að þetta frv. sé nægilega víðtækt má auðvitað gera það víðtækara. En þetta er alla vega afdráttarlaus og formleg yfirlýsing um viðskiptabann og það er það sem við þurfum. Ég segi já.