29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7079 í B-deild Alþingistíðinda. (5073)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég er búinn að sitja þennan fund frá kl. hálftvö er ég mæti hér og á dagskrá eru ýmis mál sem eru stórmál og það sem nú er verið að vísa til nefndar er eitt af stóru málunum. Hér er verið að greiða atkvæði um hvort við eigum að setja viðskiptabann á Suður-Afríku og Namibíu. Ég hef ekki heyrt Namibíu svo mikið nefnda í sambandi við viðskiptabann þegar maður hlustar á erlendar fréttir. Bæði frá þeim þremur löndum sem ég næ á mitt sjónvarpstæki og eins þegar maður les blöðin hefur verið talað um Suður-Afríku eina.

En annað er að þegar þetta mál var rætt var deildin tóm að segja. Áhuginn er enginn fyrir málinu sem slíku og ég vil spyrja flm.: Hvers vegna viðskiptabann eingöngu, hvers vegna banna þessum eina manni eða tveimur, sem standa í viðskiptum við Suður-Afríku, að halda viðskiptunum áfram? Af hverju ekki að banna samskipti við Suður-Afríku og þá Namibíu líka eða fleiri lönd ef ástæða þykir til? Hvaða leikaraskapur er þetta? Það eru engin viðskipti við Suður-Afríku. Geta þá listamenn haldið áfram að hafa samband við þessi slæmu stjórnvöld? Geta íþróttamenn haldið áfram? Eigum við að taka upp að banna öllum íþróttamönnum Íslands þátttöku í Ólympíuleikum vegna þess að berfætt hlaupastúlka frá Suður-Afríku ættaði sér að taka þátt í ólympíumóti fyrir England en fær það ekki? Ég vil segja að þó að þetta sé symbólískt, það er symbólískt að banna viðskipti af okkar hálfu við Suður-Afríku, finnst mér að annaðhvort eigum við að ganga hreint til verks og banna öll samskipti eða vera ekki með sýndarmennsku og banna bara samskipti á einu sviði. Þjóðin er eins hvort hún hefur viðskipti við okkur eða hvort hún hefur samskipti við okkur. Við skulum taka ákvörðun á karlmannlegan hátt en ekki með neinni sýndarmennsku.

En ég segi að sjálfsögðu já við því að vísa frv. til nefndar.