29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7081 í B-deild Alþingistíðinda. (5076)

473. mál, framlag Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er almennt viðurkennt að staða byggða utan Faxaflóasvæðisins er nú erfiðari en oft áður. Þessir erfiðleikar lýsa sér m.a. í stórauknum fólksflótta utan af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, í tæpri stöðu fyrirtækja, einkum í verslun, landbúnaði, sjávarútvegi og reyndar iðnaði líka, í vaxandi atvinnuleysi, í almennt lágu verði á fasteignum og í stórauknum þrengingum sveitarfélaga.

Það eru einmitt sveitarfélögin sem ég vil gera hér sérstaklega að umtalsefni, stöðu þeirra og erfiðleika. Á þessu þingi höfum við þingmenn Alþb. lagt sérstaka áherslu á erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélaga með flutningi tveggja þingmála.

Í fyrsta lagi höfum við lagt áherslu á að tekjur sveitarfélaga verði jafnaðar. Það er gífurlegur munur á tekjum sveitarfélaga eins og fram kemur í gögnum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég get nefnt sem dæmi að þau sveitarfélögin sem hæstar tekjur hafa af útsvörum, fasteignaskatti og aðstöðugjöldum höfðu á sl. ári um 50–80 þús. kr. tekjur á íbúa, en þau tekjulægstu höfðu þrisvar sinnum minni tekjur eða 20–30 þús. kr. á íbúa.

Tekjur sveitarfélaga verður því að jafna og um það mál höfum við þingmenn Alþb. flutt sérstaka þáltill. þar sem gert er ráð fyrir því að annaðhvort sé það gert með því að nota allar tekjur Jöfnunarsjóðs til að jafna fjárhagsstöðu sveitarfélaga að teknu tilliti til annarra tekna og áætlaðrar útgjaldaþarfar eða þá að fasteignagjöld og aðstöðugjöld verði innheimt sem landsskattur og skatttekjunum jafnað út til sveitarfélaga miðað við íbúafjölda.

Hin hliðin á þessum málum er sú sem ég ætla að gera að meginumtalsefni, en hún er nauðsynin á því að sveitarfélögin haldi Jöfnunarsjóði óskertum. Staðreyndin er sú, eins og sýnt er fram á í grg. með því frv. sem við flytjum þrír alþýðubandalagsmenn á þskj. 823, að skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er nú komin upp í 50% og þessi skerðing veldur því að ekki er lengur unnt að jafna tekjurnar hjá sveitarfélögunum með aukaframlögum úr Jöfnunarsjóði nema að mjög litlu leyti.

Í grg. er á það bent að ef tekjur Jöfnunarsjóðs af aðflutningsgjöldum eru 5% og af sölugjaldi þau 8% sem Jöfnunarsjóði eru ætluð í tekjustofnalögunum ættu heildartekjur Jöfnunarsjóðs að vera um 2269 millj. kr., en samkvæmt lánsfjárlögum ársins er ekki greiddur í Jöfnunarsjóð nema helmingurinn af þessari upphæð eða 1142 millj. kr. Því er það staðreynd, sem ég hef þegar nefnt, að skerðingin er komin upp í rétt um 50% af tekjum Jöfnunarsjóðsins eða nánar tiltekið 49,7%. Þessar tölur hef ég fengið frá Þjóðhagsstofnun og þær eru miðaðar við nýja söluskattskerfið og seinustu spár um innflutning og söluveltu á árinu.

Ég veit hins vegar að talsmenn fjmrn. munu segja sem svo að þetta sé ekki sanngjörn viðmiðun vegna þess að þegar skattkerfisbreytingin var gerð um síðustu áramót hafi ekki verið ætlunin að sveitarfélögin högnuðust á breytingunni. Hún hafi fyrst og fremst verið gerð til að afla ríkissjóði tekna og því verði að miða við eldra tekjuöflunarkerfið eins og það var áður en skattkerfisbreytingin fór fram. Vissulega verðum við að viðurkenna að tekjur af söluskatti jukust mjög verulega og að öllu óbreyttu og miðað við óbreytt ákvæði tekjustofnalaga mundu tekjur sveitarfélaga þar með aukast. Það er gert ráð fyrir því í þeim útreikningi sem ég nú þegar hef nefnt.

Ef hins vegar gamla útreikningsaðferðin er notuð, sem sagt miðað við eldra tekjuöflunarkerfi, og þá væntanlega gert ráð fyrir því að tekjustofnalögunum yrði breytt til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á skattalögum núna um áramótin, en ég tek það fram að sú breyting hefur alls ekki átt sér stað enn, hvort sem hún á eftir að verða framkvæmd síðar, þá yrðu heildartekjur sjóðsins 1804 millj. kr. án skerðingar. Þar sem skerðingin er miðuð við 1127 millj. mundi heildarskerðingin samkvæmt þessari seinni útreikningsaðferð nema 662 millj. eða um 37%.

Það er alveg sama hvort heldur við miðum við, hvort sem við miðum við að það sé staðreynd að Jöfnunarsjóður hafi verið skertur um 50% samkvæmt fyrri útreikningsaðferðinni eða 37% samkvæmt seinni útreikningsaðferðinni. Í báðum tilvikum er um gríðarlega skerðingu að ræða, skerðingu sem veldur því að Jöfnunarsjóður getur ekki lengur gegnt því hlutverki sínu að jafna milli sveitarfélaga þannig að ekki sé meiri munur á tekjum þeirra en sem nemur 30%. Þannig er þetta í dag að samkvæmt reglugerð er stefnt að því að jafna allt að 70% af tekjum sveitarfélaga þannig að munurinn geti aldrei orðið meiri en sem nemur 30%. Það er sem sagt ekki stefnt að því að jafna tekjur þeirra þannig að þær verði nákvæmlega jafnmiklar. En það er stefnt að því að jafna allt að 70% og til þess dugðu aukaframlögin lengi vel. Alveg fram í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þá upphófst svo mikil skerðing á Jöfnunarsjóði, hafði að vísu verið tekin upp í tíð fyrri stjórnar en alls ekki í eins miklum mæli, að núna duga aukaframlögin aðeins til að jafna 45% af þeim mun sem er á meðaltekjum sveitarfélaga annars vegar og tekjum þeirra sem þarfnast aukaframlags. Áður var hægt að jafna eins og lögin gerðu ráð fyrir allt upp í 70%.

Sem sagt: Það er mikilvæg hlið þessa máls að skerðingu framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verður að lækka og helst að fella algerlega niður. Vissulega skal viðurkennt að það er verið að leysa vanda ríkissjóðs með því að skerða framlögin úr Jöfnunarsjóði, en í raun og veru er bara verið að velta þessum vanda yfir á sveitarfélögin og í mjög mörgum tilvikum er um að ræða sveitarfélög sem alls ekkert ráða við þann vanda eftir að hann er skollinn yfir þau.

Það er því algert ábyrgðarleysi að áliti okkar flm. að fara þannig að, enda eru það fyrst og fremst þau sveitarfélög sem standa erfiðast fjárhagslega sem fá stærsta skellinn vegna áhrifa skerðingarinnar á aukaframlög Jöfnunarsjóðs. Þess vegna er þetta frv. flutt þess efnis að skerðing tekna í Jöfnunarsjóði taki enda.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði máli þessu vísað til hv. fjh.- og viðskn.