29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7085 í B-deild Alþingistíðinda. (5080)

476. mál, útvarpslög

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd Kvennalistans taka undir frv. sem hér er til umræðu og lýsa stuðningi við það. Kvennalistakonur hafa frá því fyrsta haft sérstakan áhuga á eflingu Ríkisútvarpsins. Ég minni á fyrirspurn fyrr í vetur frá hv. 6. þm. Vesturl. Danfríði Skarphéðinsdóttur er hún spurði menntmrh. hvenær mætti vænta þess að yrði búið að setja á stofn útibú frá Ríkisútvarpinu í þeim landshlutum sem ekki hafa enn sitt landshlutaútvarp. Ég man ekki nákvæmlega hvernig svar menntmrh. hljóðaði, en eitthvað vafðist nú kostnaður fyrir mönnum á þeim bæ.

En þá vil ég líka minna á það í leiðinni að framkvæmdafé Ríkisútvarpsins hefur verið stórlega skorið niður á fjárlögum undanfarin ár og ég vildi minna þingmenn á það á næsta þingi að láta þá háðung ekki henda að það verði samþykkt að féð verði skorið niður í sama mæli og hefur verið undanfarin ár. Ríkisútvarpinu eru lagðar skyldur á herðar sem er raunverulega komið í veg fyrir að það geti uppfyllt með því að rýra sífellt framkvæmdafé þess.

Það hefur komið í ljós með það landshlutaútvarp sem ég þekki best til, sem er á Akureyri, að það hefur mjög eflt bæði samstöðu og kynningu innan kjördæmisins og dagskrárþáttum frá þessu útvarpi hefur verið útvarpað í gegnum Ríkisútvarpið og þeir hafa vakið þar athygli. Það er trúa mín að það mundi verða svo um fleiri staði. Ég held að þetta sé mikilvægt atriði til kynningar milli landshluta, að fólk mundi ná betur saman og kynnast frekar ef svona neti yrði komið á. Ef þetta frv. yrði að lögum væri Ríkisútvarpinu lögð sú skylda á herðar að koma þessu stefnumáli í höfn ekki síðar en á næsta ári. Mér sýnist nú ekki mikil von til þess að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, en þetta er mál sem er vissulega þess vert að halda vakandi og fylgja eftir og ég hvet til þess að það verði gert.