29.04.1988
Neðri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7087 í B-deild Alþingistíðinda. (5087)

390. mál, Kennaraháskóli Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til að fagna þessu frv. Kennaraháskólinn er í raun kominn í nokkrar ógöngur með skipulag kennaranámsins. Núgildandi lög og reglugerðir eru að mörgu leyti úrelt, miðast um of við kennsluna eins og hún var áður en skólinn færðist á háskólastig. Þetta á einkanlega við um lögin. Ég held að óhætt sé að segja að lögin og þó einkanlega reglugerðin séu að einhverju leyti sniðgengin í framkvæmd. Gildandi lög og reglugerðir setja áframhaldandi endurbótum á náminu skorður og gera þær illframkvæmanlegar.

Það hafa nokkuð komið til umræðu tengsl Kennaraháskólans við aðra skóla á háskólastigi, einkum Háskóla Íslands, og þau atriði eru vitaskuld mikið álitamál. Það koma margir kostir til greina, en hér er gert ráð fyrir framhaldi á fullu sjálfstæði Kennaraháskólans með nokkru samstarfi að vísu við Háskóla Íslands. Mín skoðun er sú að við núverandi aðstæður sé eðlilegt og rétt að halda sig við það skipulag sem gert er ráð fyrir í frv. þessu og áframhaldandi sjálfstæði Kennaraháskólans.

Lenging kennaranámsins í fjögur ár hlýtur á hinn bóginn að vera nokkurt umhugsunarefni, m.a. vegna kostnaðar, og þessu skylt er í rauninni það álitamál hvernig eigi að vera tengslin milli kennaranámsins og starfsþjálfunar sem sérstök ákvæði eru um. Það verður helst skilið af frv. eins og það liggur fyrir að hvort tveggja eigi að gera, lengja kennaranámið um eitt ár og gera alvöru úr þjálfunarárinu sem yrði þá fimmta árið. Ég held að það sé íhugunarefni að viðbótarárið, það fjórða, væri starfsþjálfunarár og ætti þá hugsanlega ekki að teljast fjórða árið heldur þriðja árið þannig að þeir sem væru að stunda nám til prófs í þessum efnum færu í starfsþjálfun á þriðja ári, sinntu störfum við kennslu, en kæmu aftur í skólann til náms á fjórða ári.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég tók eftir því, svo ég taki nú fjórða punktinn úr frv. sem ég geri hér stuttlega að umtalsefni, að í frv. þessu til l. er gert ráð fyrir því og reyndar lagagrein um tiltekinn einingafjölda og einingabil á námsári og þar fram eftir götunum. Mín skoðun er sú að þessa hluti eigi ekki að segja í lög heldur sé eðlilegra að skipa þeim í reglugerð, það geri stjórn skólans auðveldari og geri mönnum hægara um vik að laga skólastarfið að aðstæðum hverju sinni eftir því sem þróunin býður.

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram. Ég tel að stefna þess sé í mörgum megindráttum rétt, en ég taldi nauðsynlegt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri nú.