30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7096 í B-deild Alþingistíðinda. (5099)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Frsm. atvmn. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur haft til umsagnar till. til þál. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um gerð vegar með suðurströnd Reykjanesskaga milli Þrengslavegar við Þorlákshöfn og Grindavíkurvegar.

Niðurstöður þeirrar athugunar skuli liggja fyrir við endurskoðun vegáætlunar á næsta Alþingi.“ Umsagnir um þessa till. voru jákvæðar. En það hefur verið sú venja í þinginu að þingmenn hvers kjördæmis hafa útslitaáhrif á verkniðurröðun vega í sínu kjördæmi. Þess vegna taldi allshn. ekki rétt að Alþingi legði til framkvæmdaáætlun, en að það væri mikils virði að kostnaðaráætlun um gerð þessa vegar yrði gerð þannig að þingmannahópar Suðurlands og Reykjaness gætu metið það út frá þeim upplýsingum hvar í framkvæmdaröð þeir settu hugsanlegan veg meðfram suðurströndinni.

Það er mjög margt sem mælir með þessari vegarlögn, það fer ekki á milli mála, en að sjálfsögðu hlýtur það að vera þeirra aðila að ákveða tímasetningu hans.

Nefndin leggur þess vegna til að tillgr. verði samþykkt svo breytt:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta gera kostnaðaráætlun um gerð vegar með suðurströnd Reykjanesskaga milli Þrengslavegar við Þorlákshöfn og Grindavíkurvegar.

Niðurstöður þeirrar athugunar skulu liggja fyrir við endurskoðun vegáætlunar á næsta ári.“ Fjarverandi afgreiðslu málsins var Guðmundur H. Garðarsson.