30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7097 í B-deild Alþingistíðinda. (5100)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Níels Árni Lund:

Virðulegi forseti. Ég vil sem 1. flm. þessarar þáltill. koma upp og lýsa yfir ánægju minni með að nefndin hefur afgreitt þetta mál frá sér og get fúslega fallist á þá breytingu sem hún leggur til að gerð verði á ályktuninni.

Það er nú svo að hugmynd um þennan veg hefur e.t.v. einhverjum fundist, ekki síst þeim sem fjarri búa þessu svæði, eilítið ankannaleg og ekki falla inn í þá mynd af vegakerfi landsins sem nú er við lýði. Hins vegar veit ég um a.m.k. tvo hv. alþm. sem hafa ekið þessa leið eftir að þáltill. kom fram og þeir hafa haft samband við mig og getið um það að þeir hafi ekki fyrr áttað sig á þessari leið, vitað að hún væri til en aldrei farið hana og hafa lýst því yfir við mig að þeir sjái ýmsa kosti þess og margháttaða ef þarna yrði lagður vegur. Ég ætla ekki að fjölyrða um það og rökstyðja þetta frekar, en vil lýsa yfir ánægju minni með það að nefndin hafi afgreitt málið.

Að sjálfsögðu er það rétt að þingmenn Reykjaneskjördæmis geta fjallað frekar um þetta og þá sett þetta verkefni í einhverja forgangsröð sem og hvað annað sem viðkemur vegáætlun. En hér er málinu hreyft og það var eitt af þeim markmiðum sem ég setti mér með þessari þáltill.