30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7104 í B-deild Alþingistíðinda. (5108)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég stíg í ræðustól til að lýsa stuðningi okkar kvennalistakvenna við þessa þáltill. Það er ekki miklu við að bæta þann ágæta rökstuðning sem hefur komið fram fyrir þessu máli sem er hið þarfasta mál. Það hefur oft komið til orða að iðnaður okkar, svo sem fiskiðja og ylræktin, ætti að búa við hagstæðara raforkuverð en raunin er í ljósi þess hvaða kjör stóriðjunni eru búin í þeim efnum. Fiskvinnslan er okkar stóriðja og hún ætti sannarlega að búa við betri kjör hvað raforku varðar en raunin er. Ég sé ekki annað en að gróðurhúsagarðyrkja eigi mikla framtíð fyrir sér hér, en það verður að búa henni betri skilyrði.

Grænmetisframleiðsla okkar er á góðri leið með að fullnægja innanlandsmarkaði og þessi till. lýtur að því að lengja ræktunartíma og lengja framleiðslu og framboð á hollri og góðri vöru sem við þurfum á að halda, ekki síst í ljósi þess innflutnings sem kemur inn í landið sem við vitum ekki alltaf nákvæmlega hvað ber í sér. Við vitum ekki fyrir víst hvaða reglur gilda um eiturefnanotkun erlendis og við vitum ekki nákvæmlega hvaða vara það er sem við erum að neyta þegar við fáum hana.

Í öðru lagi er mjög örðugt að koma í veg fyrir það að alls konar meindýr berist með þessari vöru, bæði sveppagróður og jafnvel einhver lifandi kvikindi sem við höfum satt að segja ekkert með að gera inn í landið. Það vofir líka alltaf yfir okkur sú hætta að erfiðir erlendir plöntusjúkdómar hellist yfir okkur með þessum innflutningi sem við höfum verið tiltölulega laus við hingað til.

Ég vil beina því til forráðamanna hér, hæstv. ráðherra, að taka til greina þær ábendingar sem í þessu frv. felast og skapa þessari atvinnugrein sem best skilyrði til að landsmenn megi njóta hollrar og góðrar innlendrar vöru.